14.5.2000

Harvardnám - MBA-nám við Háskóla Íslands

Við stöndum oft frammi fyrir tveimur eða fleiri kostum og eigum erfitt með að gera upp hug okkar. Ég var í þeirri stöðu fyrir nokkrum vikum, þegar mér barst staðfesting á því frá Harvard-háskóla, John F. Kennedy School of Government, að ég hefði fengið sæti á vikunámskeiði, sem hafði verið auglýst víða, meðal annars í vikuritinu The Economist undir heitinu Leadership for the 21st Century , Chaos, Conflict and Courage, sem mætti íslenska á þennan veg: Leiðtogahlutverk 21. aldarinnar, upplausn, átök og hugrekki. Vandinn var sá, að námskeiðið var í sömu viku og þingi lauk. Varð ég að velja á milli þess að sækja um fjarvistarleyfi frá alþingi eða nýta mér einstakt tækifæri til endurmenntunar.

Mín mál á þessu þingi voru komin í höfn eftir ýtarlega meðferð í menntamálanefnd þingsins og í sjálfu sér stóðu ekki á mér nein spjót. Auðvitað var ljóst, að síðustu daga þingsins kynnu að koma upp álitamál, þar sem mitt atkvæði kynni að skipta máli, en þá var sá kostur fyrir hendi að kalla á varamann. Ákvað ég því að að setjast aftur á skólabekk í fyrsta sinn síðan ég útskrifaðist sem lögfræðingur úr Háskóla Íslands árið 1971. Þótti mér þetta í senn persónuleg áskorun og tækifæri til að kynnast því sjálfur, sem ég er oft að predika í ræðum, að menn eigi aldrei að líta þannig á, að þeir hafi öðlast næga menntun.

Þótt vissulega skipti miklu að taka þátt í þingfundum og í atkvæðagreiðslum um einstök mál, sé ég ekki, að fjarvera mín hafi skipt sköpum fyrir framgang þeirra mála, sem voru á dagskrá. Ég hefði greitt atkvæði með því að heimila ólympíska hnefaleika, en mitt atkvæði hefði þó ekki dugað, því að tillagan hefði þá fallið á jöfnum atkvæðum í stað þess að falla með eins atkvæðis mun. Skömmu eftir að ég settist á þing varð ég talsmaður þess, að skattfríðindi forseta Íslands yrðu afnumin, svo að ég er eindreginn stuðningsmaður þess frumvarps, sem varð að lögum á síðasta þingfundi fyrir hlé.

Ég ætla ekki að rekja það, sem gerðist í skólanum í Harvard, en segi það eitt, að þar öðlaðist ég á skömmum tíma mikla reynslu auk þess sem hún gerði mig enn öflugri talsmanni þess, að menn nýti sér öll tækifæri til endurmenntunar og símenntunar. Við höfum öll gott af því að hverfa úr hinu daglega amstri og líta tilveruna frá öðrum sjónarhóli, svo að ekki sé talað um það gildi þess, að fá á slíku ferðalagi leiðsögn færustu manna, sem hafa tileinkað sér bestu aðferðir til að leysa nýja innri krafta úr læðingi og færa okkur ný tæki til að takast á við viðfangsefni okkar.

Staðgengill minn Sturla Böðvarsson samgönguráðherra þurfti í lokaviku þingsins að svara fyrirspurn frá Svanfríði Jónasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, vegna þeirra áforma Háskóla Íslands að bjóða MBA-endurmenntun á vegum viðskiptadeildar sinnar og taka fyrir það há skólagjöld, eins og málið hefur verið kynnt af hálfu háskólans. Verða umræðurnar um þetta mál tilefni fyrir höfund Reykjavíkurbréfs, sem birtist sunnudaginn 14. maí, til að ræða almennt um skólagjöld og háskólanám hér og erlendis.

Ég hef oft áður vikið að skólagjöldum og umræðum um þau hér á þessum síðum mínum og raunar einnig í ræðum auk þess sem fyrir skömmu var efnt til norrænnar ráðstefnu hér á landi til að ræða fjármögnun háskólastigsins, þar sem umræður snerust að nokkru um skólagjöld. Fyrr á því þingi, sem nú er lokið í bili að minnsta kosti, var rætt um MBA-námið í Háskóla Íslands og fjármögnun þess. Ekkert nýtt kom fram í umræðunum núna enda hefur háskólaráð ekki lokið við að skilgreina, hvernig það lítur á MBA-námið og hvaða stöðu það hefur gagnvart háskólalögunum.

Eins og eðlilegt er þegar stjórnmálamenn ræða þessi mál, skoða þeir þau út frá sínum sjónarhóli og setja upp hin flokkspólitísku gleraugu. Ég ræð það af frásögn Morgunblaðsins, að Össur Skarphéðinsson, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, hafi gert þetta, því að eftir honum er haft, að gjá sé að myndast milli stjórnarflokkanna vegna skólagjalda í HÍ, Sjálfstæðisflokkurinn sé að gera tilraun til að smygla skólagjöldum inn bakdyramegin og innleiða einkavæðingu í skólakerfið.

Lítum á þessa staðhæfingu flokksformannsins betur. Ef hann er á móti einkavæðingu í skólakerfinu, ætti hann að beina spjótum sínum gegn Samvinnuháskólanum á Bifröst, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þetta eru allt einkaskólar, sem hafa komið til sögunnar og verið að festast í sessi undanfarin ár og fengu skýrar lagalegar forsendur með nýju háskólalöggjöfinni, sem tók gildi 1. janúar 1998. Í þessum skólum eru skólagjöld. Hafa verið pólitískar deilur um stofnun þeirra og starfsemi? Ég hef ekki orðið var við það og ég skorast síður en svo undan ábyrgð á því, að þessir skólar fái öruggan starfsgrundvöll.

Hið athyglisverða við afstöðu þeirra, sem leggjast gegn því, að HÍ skilgreini MBA-nám sitt sem endurmenntun og láti reglur hennar gilda um greiðslu kostnaðar vegna námsins, er, að þeir kjósa að beina gagnrýni sinni á rangan aðila. Það er ekki með nokkru móti unnt að færa rök fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn eða ég sem menntamálaráðherra hafi átt frumkvæði að þessu nýmæli í starfi Háskóla Íslands. Þótt ég feginn vildi, get ég ekki sagt, að ég hafi komið þar nærri á annan hátt en þann, að mæla með auknu svigrúmi fyrir stjórnendur HÍ til að fara með málefni stofnunar sinnar. Síðan hef ég leitast við að miðla upplýsingum til þingmanna um málið, en þær byggjast efnislega allar á því, sem Háskóli Íslands lætur mér í té. Vilji menn hafa áhrif í þessu efni, liggur beint við að snúa sér til hugmyndasmiðanna innan veggja HÍ og ræða málið við þá. Þar ættu að vera hæg heimatökin fyrir samfylkingarmenn, því að Ágúst Einarsson, nýkjörinn formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, er prófessor við þá deild Háskóla Íslands, þar sem þessi hugmynd að nýju námi við HÍ fæddist og einnig tillögurnar um það, hvernig eigi að fjármagna hana.

Ég sagði á alþingi, að ég mæti þessar tillögur innan HÍ á þann veg, að þar vildu menn skapa sér tækifæri til samkeppni við skóla annars staðar, sem bjóða MBA-nám og heimta fyrir það há gjöld. Þess vegna mætti líta á þetta sem viðskiptatækifæri fyrir Háskóla Íslands til að treysta stöðu sína í hinni vaxandi alþjóðlegu samkeppni milli háskóla. Frá mínum bæjardyrum komast menn ekki að neinni skynsamlegri niðurstöðu um þetta mál með því að dylgja um hlut minn eða Sjálfstæðisflokksins í því.