1.5.2000

Víkingar í Washington - farsæl stjórnarforysta í níu ár

Fimmtudaginn 27. apríl var sýningin Víkingar: Norður-Atlantshafssagan opnuð með mikilli viðhöfn í Smithsonian-safninu í Washington, nánar tiltekið í Náttúrusögusafni þess. Sýningin hefur verið lengi í undirbúningi og hefði ekki orðið að veruleika án verulegs fjárstuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni og Volvo auk þess sem árþúsundanefnd Hvíta hússins undir handarjaðri Hillary Rodham Clinton forsetafrúar lagði sýningunni lið.

Að sjálfsögðu var það frumkvæði og áhugi starfsmanna Smithsonian, sem réð úrslitum í málinu og þar ber sérstaklega að nefna þau dr. William Fitzhugh, hugmyndasmið og framkvæmdastjóra sýningarinnar, en hann er fornleifafræðingur og yfirmaður Norðurheimskautsdeildar Náttúrusögusafnsins, og Elizabeth Ward, mannfræðing og aðstoðarmann hans, en hún er af íslenskum ættum. Hefur verið skemmtilegt að fylgjast með framgöngu þeirra og óbifanlegum áhuga á því að ná því marki, að sýningin yrði sem glæsilegust innan þess fjárhagsramma, sem henni var skapaður, en hann er 3 milljónir dollarar. Samhliða því sem sýningin var opnuð kom út 424 blaðsíðna litprentuð og ríkulega myndskreytt sýningarskrá, sem hefur að geyma ómetanlegar heimildir og er líklega eitt merkasta framlag síðari tíma til að kynna þann þátt sögu víkinganna, sem sýningin spannar. Sérstaka athygli vekur, hve Íslendingasögurnar skipa veglegan sess á sýningunni og í sýningarskránni, í raun eru þær lagðar til grundvallar og síðan leitast við að staðfesta lýsingar þeirra með því að vísa til fornleifarannsókna.

Var sérstaklega eftirminnilegt að vera í Washington vegna þátttöku Helge Ingstads, sem er að verða 101 árs, en fyrir um 40 árum sannaði hann, að víkingar hefðu komið til Ameríku, þegar hann stóð fyrir rannsóknum á L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Sagði hann nokkur orð við upphaf ráðstefnu um víkingaferðirnar í tilefni af sýningunni og tók þátt í öllum hinum formlegu hátíðahöldum, en dóttir hans og sonur hennar óku honum í hjólastól.

Menntamálaráðuneytið hafði milligöngu af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart Smithsonian-stofnuninni og tilnefndi ég sérstaka tengiliði annars vegar þá Sigurgeir Steingrímsson og síðan Örnólf Thorsson af hálfu Stofnunar Árna Magnússonar og Lilju Árnadóttur af hálfu Þjóðminjasafns og voru þau þrjú Washington, en Örnólfur er nú sérstakur ráðgjafi forseta Íslands og var í föruneyti hans. Á ráðstefnu sérfræðinga flutti Gísli Sigurðsson,. sérfræðingur á Stofnun Árna Magnússonar, erindi um Íslendingasögurnar og Vínlandsfrásagnir þeirra. Þá höfðum við einnig tækifæri til að sjá kvikmyndina um Leif Eiríksson, sem gerð er af bandaríska Ward-fyrirtækinu að frumkvæði og eftir hugmynd Valgeirs Guðjónssonar, loks sáum við Helgu Arnalds sýna brúðuleikhús sitt um Leif heppna. Er óhætt að segja, að allt hið íslenska framlag til sýningarinnar og í tengslum við hana hafi staðið undir væntingum og skili sér með ágætum.

Látið hefur verið í veðri vaka í fjölmiðlum, að þessa miklu sýningu megi rekja til einhvers sérstaks frumkvæðis af Íslands hálfu eða íslenskra stjórnvalda. Mér þykir það meira en hæpin sagnfræði, hitt er ljóst, að við Íslendingar hvöttum víða til þess, að staðið yrði sem mest og best á bakvið þetta einstaka framtak. Kom það meðal annars fram í ræðu, sem Robert Sullivan, aðstoðarforstöðumaður Náttúrusögusafns Smithsonian, flutti við upphaf sérfræðingaráðstefnunnar, að Íslendingar hefðu á undirbúningsfundum alltaf lagt sýningunni gott lið og talið í menn kjark, þegar syrti í álinn. Ríkisstjórnin samþykkti einnig að tillögu Stofnunar Árna Magnússonar að lána brot úr þremur handritum á sýninguna.

Athygli vakti, að í ræðu í Hvíta húsinu föstudaginn 28. apríl nefndi Hillary Rodham Clinton einn einstakling á nafn, það er Einar Benediktsson, sendiherra og framkvæmdastjóra Landafundanefndar, en hann hefur starfað með árþúsundanefnd Hvíta hússins, sem lítur á víkingasýninguna, sem mikilvægt framlag af sinni hálfu til að ná því markmiði, sem forsetahjónin hafa sett sér árið 2000 undir kjörorðinu: Honor the Past and Imagine the Future. Ef menn kynna sér pistil, sem ég ritaði um ferð mína til Washington fyrir ári, sjá þeir, hve mér þótti forsetafrúin standa sig vel, þegar hún tók þátt í því að kynna víkingasýninguna með miklum viðurkenningarorðum um víkingana, en þá líkti hún þeim við Internetið. Var mér sagt núna, að þessi líking, sem síðan hefur orðið fleyg, hefði ekki verið í hinum ritaða texta ræðunnar heldur komið frá eigin brjósti, raunar hafði ég orð á því, að ekki hefði verið unnt að átta sig á því á þeim tíma, hvort frúin talaði frá eigin brjósti eða af blöðum.

Haraldur Noregskonungur var í forystu norrænna þjóðhöfðingja og konungsfjölskyldna í Washington. Flutti hann margar ræður og sömu sögu er að segja um Elsebeth Gerner Nielsen, menningarmálaráðherra Danmerkur, sem kom fram fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Var eftirtektarvert, hve oft þau vitnuðu í Hávamál. Sonja, Noregsdrottning, flutti einnig ávarp við upphaf sérfræðingaráðstefnunnar en þar sagði ég einnig nokkur orð.

Lawrence Small, er forstöðumaður Smithsonian-stofnunarinnar, sem er mikið virðingarstarf, en hann var áður einn af bankastjórum City Bank og starfaði þar meðal annars með Thor Thors yngri, sem gerði sér ferð til Washington frá New York, þar sem hann býr, til að taka þátt í fjölmennri og glæsilegri hátíð á vegum Smihsonian í tilefni af sýningunni. Sagt var, að 1500 manns hefði verið boðið til þessa hófs og þess vænst, að um 30 til 35% myndu þiggja eins og vani væri í borginni, Aðsóknin var hins vegar mun meiri því að um 1000 manns sóttu samkvæmið. Þótti Smithsonian-fólkinu þetta meiri áhugi á sýningu en þau hefðu áður kynnst og lofa góðu um framhaldið, einnig vakti athygli hve blöðin The New York Times, The Washington Post og The Washington Times gerðu sýningunni góð skil.

Ráðgert er að sýningin verði að minnsta kosti í tvö ár á ferð um Bandaríkin og Kanada, eftir að hún verður tekin niður í Washington 13. ágúst verður hún sett upp í New York og síðan er búist við að hún fari til sex borga, þar á meðal Ottawa í Kanada.

Fyrir þá gesti, sem voru í opinberum sendinefndum vegna sýningarinnar, var efnt til hádegisverðar í Hvíta húsinu, þar sem forsetahjónin voru gestgjafar og kynnti frú Clinton eiginmann sinn, sem flutti vinsamlega ræðu í garð Norðurlandanna um leið og hann gætti þess að minnast annarra frægra landkönnuða fyrir utan Leif Eiriksson. Sagðist forsetinn fagna því, að á eitt þúsund ára fresti létu norrænir menn að sér kveða með eftirminnilegum hætti í Norður-Ameríku og bauð okkur aftur sérstaklega velkomin árið 3000.

Spennandi verður að fylgjast með því, hvaða áhrif þessi sýning á eftir að hafa og hin mikla bók, sem gefin er út í tilefni hennar, en hún er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum Bandaríkjanna. Dr. William Fitzhugh fer ekki í launkofa með þann ásetning sinn að saga Norður-Ameríku og Bandaríkjanna sérstaklega verði ekki framvegis skrifuð án þess að minnst sé þeirra Evrópumanna, sem vitað er að fyrstir komu til hinnar Nýju álfu, og nafn Leifs Eiríkssonar verði hafið til meiri viðurkenningar en áður í heimssögunni. Það verður hins vegar ekki gert án þess að minnast Íslendingasagnanna og þess, sem okkur þykir mestu skipta í okkar eigin sögu og menningu.

Rétt er að minnast þess, að um sömu mundir og víkingasýningunni er hleypt af stokkunum, er verið að gefa nýja þýðingu á úrvali Íslendingasagnanna út í einu stóru bindi á vegum Vikings-forlagsins í Bandaríkjunum. Byggist útgáfan á samningi við Bókaútgáfuna Leif Eiríksson, sem hefur undir forystu Jóhanns Sigurðssonar, unnið það þrekvirki að frum- og endurþýða 42 Íslendingasögur og þætti og gefa út á ensku í fimm miklum bindum. Sá ég útgáfu Vikings-forlagsins á áberandi stað í Barnes & Noble bókbaúð í Georgetown, en hún er einnig boðin félögum í Book-of-the-Month-Club. Þannig að með sanni má segja, að víkinganna hafi víða orðið vart í Washington þessa þrjá daga, sem við vorum þar.

Í fjölmiðlum hér var því nokkuð hampað fyrir nokkrum mánuðum, að fráleitt væri fyrir okkur Íslendinga að ætla að slá okkur upp á Leifi Eiríkssyni í Bandaríkjunum, það þekkti hann enginn og því færri hefðu áhuga á honum. Var jafnframt gefið til kynna í þessum umræðum, að það væri eitthvert sérstakt kappsmál íslenskra stjórnvalda að flagga nafni Leifs sér og þjóðinni til framdráttar árið 2000. Þeir, sem þannig tala, ættu að huga betur að forsendum fyrir slíkum málflutningi, því að í raun eru það Bandaríkjamenn sjálfir og forsetaembætti þeirra, sem leggja mikla áherslu á þennan þátt í sögu Norður-Ameríku í tilefni árþúsundamótanna.

í gær. sunnudaginn 30. apríl, voru níu ár liðin frá því, að Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt.

Á síðustu níu árum hefur íslenska þjóðfélagið tekið miklum breytingum. Allur alþjóðlegur samanburður sýnir, að við stöndum mun betur að vígi núna en fyrir níu árum. Þegar litið er til kaupmáttar er Ísland í fimmta sæti meðal ríkja heims og þegar metin er samkeppnishæfni þjóða skipum við núna 10. sæti, höfum hækkað um sjö sæti, frá því að niðurstaða í sömu könnun var birt fyrir ári. Þegar Davíð varð forsætisráðherra ríkti hér efnahagsleg stöðnun og almenn svartsýni. Menn trúðu því enn, að ríkisvaldið gæti með því að ráðskast með skattfé almennings tryggt öflugt atvinnulíf, best væri að halda út öflugum opinberum sjóðum og láta stjórnmálamenn eða fulltrúa þeirra deila úr þeim.

Fljótt var horfið frá þessum stjórnarháttum og margvíslegar ráðstafanir gerðar til að auka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Hefur þessi stefna skilað miklum og góðum árangri. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga, að ekkert er sjálfsagt í þessu efni, því að enn starfa hér stjórnmálaflokkar, sem vilja auka hlut ríkisins á kostnað einstaklinganna í orðsins fyllstu merkingu.

Íslendingar eru í fremstu röð þegar litið er til menntunar, rannsókna og vísinda, tekist hefur með farsælum hætti að skapa nýjum fyrirtækjum á þessu sviði starfsgrundvöll hér á landi. Þá hefur allt fjármálalíf tekið stakkaskiptum. Í stuttu máli má segja, að í stað svartsýni og vonleysis ríki nú bjartsýni og sóknarandi með þjóðinni, ekki síst hjá unga fólkinu.

Yfirbragð stjórnmálanna er einnig annað en fyrir níu árum. Tveir stjórnmálaflokkar hafa lagt upp laupana, Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn. Þeir, sem leiddu þessa flokka fyrir níu árum, hafa snúið sér að öðru. Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson starfa á vegum utanríkisráðuneytisins í Norður-Ameríku. Jón Sigurðsson úr Alþýðuflokknum er bankastjóri Norræna fjárfestingabankans í Helsinki. Ólafur Ragnar Grímsson er orðinn forseti Íslands án pólitískrar ábyrgðar. Steingrímur Hermannsson hefur dregið sig í hlé fyrir aldurs sakir.

Kjarninn í þingflokki sjálfstæðismanna, sem kom á þing í kosningunum 1991, hefur haldið vel saman og staðið fast að baki formanni flokksins og stutt hann til allra góðra verka án ágreinings eða illdeilna. Hefur verið allt annað yfirbragð yfir þingflokki sjálfstæðismanna síðustu ár en á níunda áratugnum, þegar allt logaði þar í illdeilum. Ýmsir þeirra, sem stóðu í þeim stórræðum, hafa snúist gegn hinum gamla flokki sínum, einkum með vísan til stefnunnar í kvótamálum, sem þessir menn áttu þó meiri þátt í að móta og hrinda í framkvæmd en við, sem tókum við af þeim. Þeir misstu glæpinn að nokkru leyti á dögunum, þegar hæstiréttur komst að þeirri viturlegu niðurstöðu, að kvótalögin brytu ekki í bága við stjórnarskrána.

Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrkst á alla lund undir öruggri forystu Davíðs hefur yfirbragð annarra flokka breyst, í stað þeirra tveggja, sem lögðu upp laupana höfum við Samfylkinguna, fylkingu vinstri manna, og Vinstri/græna, en þessir tveir flokkar endurspegla í raun þann ágreining, sem löngum var milli Alþýðuflokks og Alýðubandalags. Staða Framsóknarflokksins sem miðjuflokks hefur að ýmsu leyti orðið erfiðari en áður vegna þess að skilin á milli andstæðra fylkinga mótast ekki jafnmikið og áður af hugmyndafræðilegum ágreiningi. Hann hefur einnig fengið til liðs við sig menn, sem ekki vildu sætta sig við uppskiptin við brotthvarf A-flokkanna, og nægir þar að nefna Kristinn H. Gunnarsson, formann þingflokks framsóknarmanna, sem áður var í Alþýðubandalaginu.

Stjórnmálaskrif og umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál hafa einnig tekið töluverðum breytingum á síðustu níu árum. Þróunin er hin sama hér og víða annars staðar, að fjölmiðlamenn skipa sér almennt vinstra megin við miðju stjórnmálanna og nálgast almennt viðfangsefni sín frá vinstri, er jafnvel sjaldgæfara hér en í nágrannalöndunum, hvort heldur austan hafs eða vestan, að dálka- eða pistlahöfundar og umsjónarmenn þátta eða ritstjórar skipi sér í raðir þeirra, sem gagnrýna stjórnmál eða þjóðfélagsþróunina frá hægri.

Raunar má segja, að meiri lognmolla sé yfir íslenskum fjölmiðlum en þjóðlífinu almennt, enda eru fjölmiðlamenn almennt hættir að deila innbyrðis um annað en áhorf eða upplagstölur. Einstakir blaðamenn taka rokur af og til út af einhverjum málum, sem oft eru blásin út yfir öll mörk, en menn lesa slíka texta frekar til að átta sig á því í hverju sérviskan felst hverju sinni heldur en til að fá nýja vitneskju í því skyni að meta mál frá nýjum sjónarhóli. Í dálkum, þar sem menn birta gjarnan hálfsannleika eða hreinan uppsuna, er leitast við að koma höggi á stjórnmálamenn eða upphefja þá, eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni. Þeirri kenningu er haldið á loft af sumum blaðamönnum, einkum þeim, sem þrifust best á pólitísku upplausnarskeiði níunda áratugarins, að nú sé ekkert varið í að fjalla um stjórnmálin, allt sem er spennandi gerist í viðskiptalífinu. Aukið frelsi í viðskiptum hefur vissulega aukið fréttaefni um viðskiptamál og vegna aukinnar hlutafjáreignar alls almennings er meiri áhugi en áður á stöðu og rekstri fyrirtækja. Ástæðulaust er þó að gleyma því, að þetta frelsi er ekki sjálfgefið, því að það er á valdi stjórnmálamanna, ríkisstjórnar og alþingis, að setja þessar leikreglur.