23.4.2000

Ráðherraafmæli - Þjóðmenningarhús - Þjóðleikhús

Í dag, sunnudaginn 23. apríl, eru rétt fimm ár frá því að ég varð menntamálaráðherra en þá myndaði Davíð Oddsson annað ráðuneyti sitt og fyrir utan hann erum við fjögur, sem enn gegnum sömu embættum í ríkisstjórninni, það er Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Páll Pétursson félagsmálaráðherra og Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra auk mín.

Best er að kynnast því, sem á ráherradaga mína hefur drifið með því að lesa pistlana hér á þessum síðum og auk þess hef ég sett hér allar ræður, sem ég hef skrifað og flutt auk nokkurra blaðagreina og einnig eru örfá viðtöl við mig birt hér. Ég átta mig ekki á því, hvað þetta eru margar blaðsíður, sem ég hef skrifað undanfarin fimm ár, en held, að það yrði nokkuð þykk bók, ef hugað yrði að útgáfu efnisins með þeim hætti. Að ýmsu leyti er þetta líklega næsta einstök heimild um þátttöku í opinberu lífi, því að hér hef ég skráð flestar athafnir, sem ég hef sótt, þótt ekki geti ég um jarðarfarir, afmæli eða samkvæmi af margvíslegum toga. Þá eru margir fundir tíundaðir, þótt öllum föstum liðum sé sleppt, eins og ríkisstjórnarfundum eða viðtölum við hundruð ef ekki þúsundir manna á þessum fimm árum, en hvern einasta miðvikudagsmorgun, sem ég er ekki bundinn vegna annarra skylduverka hef ég verið með viðtalstíma í ráðuneytinu og hefur mér tekist bærilega að halda honum í horfinu, þótt sumir hafi þurft að bíða nokkuð lengi eftir að komast að, einkum nú í vetur vegna funda minna í framhaldsskólunum. Ekki hefur verið mikið um frí á þessum árum og stundum er sagt, að mest sé hjá menntamálaráðherra að gera um helgar vegna þátttöku í alls kyns athöfnum þá daga.

Vefsíðan hefur orðið kveikja umræðna víða í fjölmiðlum og annars staðar. Ég veit ekki, hvað margir hafa skoðað hana í áranna rás, en margir nota hana til að senda mér fyrirspurnir eða koma á framfæri athugasemdum um menn og málefni.

Vegna hinna miklu anna og skemmtilegra verkefna hefur tíminn liðið ótrúlega fljótt, starfið hefur gefið mér tækifæri til að kynnast fjölmörgu góðu fólki, ekki síst innan ráðuneytisins, þar sem allir hafa lagt sig fram af miklum metnaði. Þrír aðstoðarmenn hafa starfað með mér þessi ár, lengst Ásdís Halla Bragadóttir, sem hefur í vetur verið við nám í John F. Kennedy-háskólanum í Boston og tekur við forystustarfi í Háskólanum í Reykjavík við heimkomu sína í sumar, Jónmundur Guðmarsson, sem stjórnaði hinni miklu námskrárgerð af mikilli prýði og tók síðan við af Ásdísi Höllu en fór í vetur til Oxford til að reka hugbúnaðarfyrirtæki, og loks Jóhanna María Eyjólfsdóttir sagnfræðingur, sem gegnir starfi aðstoðarmanns núna.

Fimmtudaginn 20. apríl, sumardaginn fyrsta og skírdag, var mikið um að vera, því að þá var Þjóðmenningarhúsið opnað og einnig var 50 ára afmæli Þjóðleikhússins. Þjóðmenningarhúsið, gamla Safnahúsið við Hverfisgötu, á verður vonandi mörgum til gleði og ánægju. Húsið fær nú nýtt hlutverk og unnt er að skoða það hátt og lágt, þar eru sýningar, sem minna á mikilvæga þætti þjóðarsögunnar og minningarstofur um Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein. Hefur verið gengið frá öllu af einstakri smekkvísi eins og hæfir þessari glæsilegu byggingu.

Þjóðleikhúsið var á sínum tíma reist við hliðina á Safnahúsinu, af því að ríkið átti þar landspildu en Hannes Hafstein hafði þann hátt á, þegar hann réðst í að reisa Safnahúsið að fjármagna bygginguna með því að selja fasteignir landsjóðsins í Reykjavík og nota andvirðið til að kosta smíði hússins. Þegar litið er á myndir frá Reykjavík eftir að húsið reis, sést best, hve það hefur stungið í stúf við allt umhverfi sitt og gnæfir eins og höll. Jafnaðist Alþingishúsið aðeins á við Safnahúsið en báðum þessum byggingum var ætlað það hlutverk að vera umbúnaður um bókakost þjóðarinnar. Menningarlegur metnaður þeirra, sem réðu málum þjóðarinnar var mikill og Safnahúsið er öðrum þræði reist til heiðurs skáldum og rihöfundum með Snorra Sturluson í öndvegi.

Á sínum tíma kom eðlilega fram gagnrýni á að ráðist skyldi í slíkar stórframkvæmdir og enn þann dag í dag er það gagnrýnt, að ákveðið hefur verið að nota bygginuna sem umbúnað um það, sem við teljum helst vert að sýna. Er nauðsynlegt að minnast þess, að mannvirki stuðla að því að skerpa sjálfsmyndina og eru oft nauðsynleg til að sanna fyrir einstaklingum, hvar þeir eru á vegi staddir. Ég rifjaði það til dæmis upp í afmælisræðu vegna Þjóðleikhússins, að Kristján Albertsson taldi Þjóðleikhúsið gjörbreyta Reykjavík og gefa henni heimsborgarlegan svip og bæði hann og Jónas Jónsson frá Hriflu hafa orð á því, að með Þjóðleikhúsinu hafi orðið breyting á framgöngu og yfirbragði Íslendinga, þeir hafi klætt sig með virðulegri hætti og orðið hátíðlegri á mannamótum en áður.

Er ekki nokkur vafi á því, að með tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð ásamt hágæða hóteli við Reykjavíkurhöfn verður enn breyting á höfuðborginni og þar með á þjóðlífinu í heild. Þau mannvirki eiga sér eðlilega gagnrýnendur, sem telja, að opinberu fé megi verja á annan hátt. Við getum á hinn bóginn spurt, hvar við værum á vegi stödd, ef úrtölumenn hefðu ráðið ferðinni. Þá ættum við hvorki Þjóðmenningarhús né Þjóðleikhús.