26.3.2000

Námskrárumræður - íþróttaþing

Frá bæjardyrum okkar, sem höfum verið að vinna að því undanfarin ár, að semja nýjar námskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla má segja, að tímabært hafi orðið, að um þær yrðu nokkrar umræður í fjölmiðlum. Hins vegar hefur enn sannast sú kenning, að aldrei er unnt að reikna það út, hvað kveikir umræðurnar og hvenær þær kvikna. Nú eru rétt tvö ár síðan ég fór um landið og efndi til funda undir kjörorðinu: Enn betri skóli og kynnti megininntak nýju skólastefnunnar, sem var löð til grundvallar við gerð námskrárinnar. Þar var nemandinn settur í öndvegi, frelsi hans og ábyrgð. Þar var boðað að grunnskóla mundi ljúka með því að nemandi hefði rétt til að taka samræmd próf, sem síðan veittu honum réttindi. Þar var einnig vakið máls á því, að ekki ætti að brjóta fjölbreytni á framhaldsskólastigi á bak aftur.

Áhugi fjölmiðla á þessari miklu vinnu undanfarin tvö ár hefur ekki verið mikill miðað við það, sem gerst hefur undanfarna daga. Hvers vegna kviknaði þessi áhugi núna? Jú, vegna þess að innan eins skóla Verslunarskóla Íslands heyrðust óánægjuraddir, af því að nemendur þar töldu, að ætlunin væri að afnema sérstöðu skólans. Eins og ég sagði á fundi í skólanum: Hefði verið ætlunin að kollvarpa Verslunarskóla Íslands hefði það verið gert fyrir opnum tjöldum en ekki með því að lauma ákvæðum inn í námskrána, sem settu allt skólastarfið í kreppu. Skólinn getur að sjálfsögðu starfað áfram á þeim forsendum, sem hafa verið einkenni hans, að allir nemendur taki verslunarpróf og bæti síðan við sig námi til stúdentsprófs. Það er í samræmi við lög og reglur, því að námi af starfsnámsbrautum, sem veita sérstök réttindi eins og þau, sem felast í verslunarprófinu, lýkur ekki síður með stúdentsprófi en námi á bóknámsbrautum, veiti prófið aðgang að háskólastiginu, en enginn dregur í efa, að lokapróf úr Verslunarskóla Íslands gera það.

Eftir því sem umræður hafa orðið meiri um þetta mál, þeim mun meira undrandi verð ég á því, hvernig þessi misskilningur á námskránni gat kviknað í jafngóðum skóla og Verslunarskóla Íslands.

Eftir fund minn með nemendum og kennurum í Verslunarskóla Íslands mánudaginn 20. mars voru fjölmiðlamenn mjög áhugasamir um þennan þátt skólamálanna, einnig fengu þeir áhuga á styttingu náms til stúdentsprófs eftir að Morgunblaðið sagði sunnudaginn 19. mars frá háskólaritgerð um þjóðhagslega hagkvæmni þess að stytta námstíma með því að lengja skólaárið.

Í vikunni var viðtal við mig (21. mars) í Speglinum í hljóðvarpi ríkisins um fækkun námsáranna og daginn eftir var ég í Kastljósi í sjónvarpinu um nýju námskrána en mánudaginn 20. mars tók sjónvarpið við mig fréttaviðtal um málið, einnig komu blaðamenn DV á minn fund og tóku mig í yfirheyrslu, en hún hefur ekki enn birst í blaðinu. Í dag sunnudaginn 26. mars var ég síðan á fundi með fulltrúaráði Félags framhaldsskólanema og þangað kom fréttamaður frá RÚV, sem er mjög óvenjulegt og hefur ekki gerst síðastliðin fimm ár, sat fundinn og tók viðtal við mig og nemendur að honum loknum. Var fréttamaður líklega undrandi á því, að nemendur voru alls ekki með hugann við námskrárnar, enda er það ekki rétt mynd af framkvæmd þeirra, að um hana sé almennt deilt innnan framhaldsskólana. Önnur mál voru nemendum ofar í huga en námskráin. Rétt er að taka fram, að nemendur í Verslunarskóla Íslands taka ekki þátt í Félagi framhaldsskólanema og eiga þess vegna ekki aðild að þeim fundum, sem ég held reglulega með fulltrúaráði þess.

Íþróttaþing var haldið í annað sinn dagana 24. til 26. mars á Akureyri, en það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem heldur þingið. ÍSÍ eru fjölmennustu samtök á landinu og æ fleirum verður betur ljóst, hve miklu skiptir, að hér dafni öflugt íþróttastarf. Rökin fyrir því eru svo augljós, að óþarfi er að tíunda þau. Íþróttahreyfingin er meðal þeirra fáu, sem njóta tekna af lottói, en ýmislegt bendir til þess, að sá tekjustofn sé ekki eins öflugur nú og áður auk þess sem umfangsmeira starf og harðandi samkeppni um fjárstuðning og á sviði íþróttanna veldur því að leita þarf nýrra leiða til að styrkja starfsgrundvöll hreyfingarinnar og sérsambanda innan hennar. Allt var þetta tíundað við setningu íþróttaþings. Í ræðu sem ég flutti þar, sagði ég, að mestu skipti, að menn kæmu sér saman um velskilgreind samstarfsverkefni og beittu sér sameiginlega fyrir úrlausn þeirra. Ríkið hefur til dæmis komið að rekstri Vetraríþróttamiðstöðvar á Akureyri, sem hefur styrkt forsendur vetraríþrótta í landinu. Sé ég fyrir mér, að með samvinnu ríkisins, Kennaraháskóla Íslands og íþróttahreyfingarinnar mætti skapa bætt skilyrði fyrir innlenda og erlenda afreksmenn á Laugarvatni, svo að dæmi sé nefnt.

Við setningu íþróttaþings var mér sýndur sá mikli sómi, að Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, sæmdi mig heiðurskrossi ÍSÍ.