12.3.2000

Styrkur Davíðs - Össur í framboð - Austurland - Þjóðminjasafn

Hinn 10. mars voru 9 ár liðin frá því að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Er þegar orðið ljóst, að þess atburðar verður lengi minnst sem meðal hinna merkustu í stjórnmálasögu þjóðarinnar á síðari hluta 20. aldarinnar.



Eftir að Davíð tók við stjórnartaumum í Sjálfstæðisflokknum hefur hann ekki aðeins notið mikils trausts til að stjórna flokknum heldur einnig ríkisstjórnum, sem hafa skilað þjóðinni miklum árangri. Íslenska þjóðfélagið hefur tekið meiri og betri breytingum á þessum níu árum en við, sem þær lifum, getum í raun skilgreint.



Heitar umræður síðustu daga um skoðanir Davíðs á fjármálum stjórnmálaflokkanna og framgöngu manna undir merkjum Öryrkjabandalagsins sýna, að hann situr ekki á sjálfskipuðum friðarstóli heldur ýtir rösklega frá sér, ef honum þykir ástæða til þess. Umræðurnar staðfesta það einnig, sem oft hefur verið nefnt hér á þessum stað, að andstæðingar Davíðs ganga ekki á hólm við hann á alþingi, því að þar er stjórnarandstaða ákaflega veik og máttlítil, heldur eru það jafnan sömu mennirnir á síðum dagblaðanna eða í föstum útvarpsþáttum, sem taka sér fyrir hendur að vega að Davíð á vettvangi, þar sem enginn er í raun til andsvara.



Sérkennilegt er, ef Öryrkjabandalagið velur áfram þann kost að skipa sér alfarið í andstöðu við forsætisráðherra og stjórnarflokkana. Er forherðing af því tagi orðin næsta sjaldgæf í þjóðfélagi okkar, þar sem æ fleiri eru að átta sig á því, að með viðræðum og samstarfi næst frekar árangur en með því að hafa hnefann á lofti. Síðustu daga hefur þetta enn sannast í viðræðum um kaup og kjör. Þeir hafa náð árangri, sem ræða saman af einurð og á málefnalegum forsendum. Hinir sitja eftir með sárt enni, sem hafa í heitingum og hótunum.



Deilur um fjárframlög til stjórnmálaflokka eru allsstaðar mikið hitamál. Þær hafa til dæmis sett mikinn svip á baráttuna um forsetaembættið innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Umræður um stjórnmál í mörgum Evrópuríkjum snúast um þessi mál og hafa valdið miklu uppnámi eins og til dæmis í Þýskalandi. Þótt hart sé deilt um þessi mál, og ekki að ástæðulausu erlendis, er ekkert tilefni til að fella þann dóm yfir íslenskum stjórnmálamönnum og flokkum, að hér sé ekki allt með eðlilegum hætti í þessum málum.



Nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka komst að þeirri niðurstöðu eftir ýtarlega athugun á reglum um fjárstreymi til stjórnmálaflokka, að ekki væri ástæða til að setja sérstaka löggjöf um þetta efni hér á landi. Álit þessarar nefndar liggur fyrir öllum til skoðunar og var það meðal annars til umræðu, þegar síðast var gengið til þingkosninga hér, enda voru þá uppi raddir um nauðsyn sérstakrar löggjafar um þetta efni. Þetta er mál, sem eðlilegt er að ræða, en umræðurnar breyta ekki hinu, sem Davíð nefndi á alþingi í umræðum síðastliðinn mánudag, að undir merkjum Samfylkingarinnar, fylkingar vinstri sinna, ganga menn hræsnisfullir til umræðna um fjármál stjórnmálaflokkanna.



Þar gætir mjög þeirrar áráttu Jóhönnu Sigurðardóttur að ala á tortryggni og öfund. Töldu ýmsir, að með þessu nýjasta upphlaupi sínu væri hún að búa sig undir þátttöku í formannskjöri í fylkingunni.



Á sínum tíma vakti ég máls á því hér, að DV hefði gengið rösklega og skipulega fram til að kynna Össur Skarphéðinsson sem næsta forystumann fylkingarinnar. Forráðamenn DV telja að allt slíkt tal eigi við lítil rök að styðjast og um skeið mátti efast um, að hið skipulega frumkvæði Össurar skilaði honum því, sem að var stefnt, enda kom í ljós, að ýmsir forystumenn fylkingarinnar drógu úr því, sem DV sagði ótvíræðan stuðning þeirra við Össur.



Nú blasir það hins vegar við, að hvorki Guðmundur Árni Stefánsson né Jóhanna Sigurðardóttir ætla að sækjast eftir formennsku í fylkingunni, en átök þeirra við Össur hefðu verið einskonar endurtekning á gömlum erjum innan Alþýðuflokksins.



Þá hefur Svanur Kristjánsson prófessor lýst yfir, að hann gefi ekki kost á sér til formennsku, enda beið hann eftir því að fólk flykktist í húsagarðinn hjá honum og hvetti hann til dáða. Bendir því allt til þess, að Össur verði sjálfkjörinn, enda er hann kampakátur.



Margrét Frímannsdóttir, talsmaður fylkingarinnar, sagði á sínum tíma, að hún vildi gjarnan sjá þann í forystu fyrir nýjum flokki, sem ekki hefði verið lengi að berjast á stjórnmálavettvangi. Það verður ekki sagt um Össur Skarphéðinsson. Hann hefur marga hildi háð í stjórnmálum og verið á ferð frá vinstri til hægri undanfarin ár, frá því að hann var í háskóla og síðan ritstjóri Þjóðviljans um skeið. Hann yfirgaf Alþýðubandalagið meðal annars á þeirri forsendu, að flokkurinn væri ekki nægilega einarður í uppgjöri við hinna kommúnísku fortíð sína.



Nú sýnist Össur ætla að ganga fram undir merkjum Blairs og annarra jafnaðarmanna, sem vilja slíta öll tengsl við sósíalismann. Hefur þetta vakið illvígar deilur innan Verkamannaflokksins í Bretlandi. Til þessa hefur Blair tekist að halda þeim í skefjum vegna þess hve flokknum var mikið í mun að komast að nýju til valda. Þessi friðartími er þó liðinn í Bretlandi.



Ken Livingstone, Rauði Ken, hefur nú sagt Blair stríð á hendur með sprengiframboði til borgarstjóra í London. Aðstæður eru aðrar hér en í Bretlandi vegna þess að vinstri/grænir starfa vinstra megin við fylkinguna, þeir halda í senn í rauða og græna litinn. Össur sýnist ekki ætla að stefna í átök við vinstri/græna heldur róa lengra inn á miðjuna í von um að ná þar í fleiri atkvæði. Hann á vafalaust eftir að stýra fylkingunni, verði hann formaður, með því að efna til flugeldasýninga af ýmsu tagi. Prikin eftir slíkar sýningar eru oft illa sviðin.



Í vikunni hélt ég áfram að heimsækja framhaldsskólana. Fórum við að þessu sinni til Austfjarða og ætluðum að heimsækja alla fjóra skólana þar, en það tókst því miður ekki í þessu atrennu, þar sem ekki var unnt að fljúga til Norðfjarðar. Skólarnir þrír, sem ég heimsótti, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu bera hver sitt svipmót.



Menntaskólinn er þungamiðja í framhaldsskólastarfi á Austurlandi en af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á samvinnu skólanna á Austfjörðum auk þess sem menn þar hafa haft forgöngu um samstarf framhaldsskóla og háskóla.



Var það enn staðfest á Höfn í Hornafirði, þar sem við tókum einnig þátt í því með Páli Skúlasyni, rektor Háskóla Íslands, og heimamönnum að stofna Nýheima, og tók sé fyrstu skóflustungu að húsi, þar sem framhaldsskóli, rannsóknastofnanir og bóksafn fá aðstöðu.



Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað er einkarekinn og starfar við einstakar aðstæður. Nemendum hefur því miður fækkað þannig að framtíð skólans er í óvissu vegna þess en hugur er í þeim, sem að skólanum standa, og vilji til að þróa námsframboð og ná til fleiri nemenda.



Töluvert var rætt um Þjóðminjasafnið og stjórn þess í vikunni. Þriðjudaginn 7. mars voru umræður um málefni safnsins utan dagskrár á alþingi að frumkvæði Kolbrúnar Halldórsdóttur vinstri/grænum.



Það einkennir umræður af þessu tagi, að þingmenn velta upp mörgum spurningum og er vitað fyrirfram, að ógjörningur er að svara þeim öllum eða gera tilraun til þess, því að tíminn leyfir það ekki.



Ef menn halda sig ekki við skýrt og afmarkað efni fara umræðurnar út um víðan völl. Þetta gerðist þegar rætt var um málefni Þjóðminjasafnsins. Var erfitt að fóta sig á því, hvaða atriði það var í raun og veru, sem ætlunin var að upplýsa með umræðunni.



Tilgangurinn með því að kasta fram spurningum og fullyrðingum er oft sá einn að geta síðan staðið upp og sagt, að ekki hafi fengist nein viðunandi svör. Við þessar aðstæður er skynsamlegast fyrir ráðherra að velja nokkrar spurningar og láta aðrar fara lönd og leið.



Þegar ég las fréttir af þessum umræðum á alþingi, varð mér enn einu sinni ljóst, að Sigurdór Sigurdórsson, þingfréttaritari Dags, gekk enn og aftur erinda stjórnarandstöðunnar. Hann segir lesendum blaðs síns í frétt sinni af þessum umræðum, að ég hafi fáu svarað og að menn séu litlu eða engu nær um þau deilumál, sem hafa verið innan Þjóðminjasafnsins síðustu vikur að umræðunum loknum.



Umræðurnar snerust ekki um þessi deilumál heldur var tilgangurinn að reyna að koma höggi á mig sem menntamálaráðherra og einnig formann Þjóðminjaráðs.



Í svörum mínum kom fram, að ekki eru nokkur rök fyrir því, að áhugaleysi hafi verið á málefnum Þjóðminjasafns á meðan ég hef starfað sem menntamálaráðherra. Þvert á móti hefur meira verið gert en nokkru sinni í sögu safnsins til að búa því og safnkosti þess hinar bestu aðstæður, hefur verið ákveðið að verja allt að 1100 milljónum króna í þessu skyni og er markvisst unnið að framkvæmdum. Þá er unnið að því að endurskoða lög á þessu sviði til að þau samræmist sem best nýjum kröfum.



Vinstri/grænum og Stöð 2 þótti það helst sæta tíðindum, að ég skýrði frá þeirri staðreynd, að einkaaðilar, Fornleifastofnun Íslands og Reykjavíkurakademían, væru að láta að sér kveða á því starfssviði, sem fellur undir núgildandi þjóðminjalög. Var greinilegt að ríkisforsjársinnunum í röðum vinstri/grænna varð ekki um sel, þegar ég gat um aukinn áhuga einkaaðila á þessu sviði. Mátti skilja viðbrögð þeirra á þann veg, að nú hefði sannast, að ég ætlaði að leyfa mér að láta einkaframtakið njóta sín betur á þessu sviði menningarstarfseminnar. Féllu orð Ögmundar Jónassonar á þann veg, að með því að leyfa einkaaðilum að koma að Iðnskólanum í Hafnarfirði, hefði ég sýnt mitt sanna frjálshyggjueðli og nú ætlaði ég að dirfast til að huga að einkaframtaki við þjóðminjavörsluna.



Hvað gerðist svona hryllilegt í Iðnskólanum í Hafnarfirði? Jú, einkaaðilar reistu nýtt hús yfir hann á 10 mánuðum! Allri starfsaðstöðu skólans var breytt á fáeinum árum með einkaframkvæmd.



Föstudaginn 10. mars gengum við Þór Magnússon þjóðminjavörður frá samningi um starfslok hans við safnið. Hann lætur af stjórnunarskyldum frá og með 1. apríl en sinnir áfram rannsóknaverkefnum. Er gott að kraftar hans nýtast áfram í þágu þjóðminjarannsókna. Starf þjóðminjavarðar hefur þegar verið auglýst laust til umsóknar.