31.1.2000

Menningarárið hefst - skólaheimsóknir - nemendaviðtöl

Líklegt er, að almennt telji menn mest að gera hjá stjórnmálamönnum á hvers kyns fundum, þegar dregur að kosningum. Vissulega er þá mikið um að vera á því sviði, en þess á milli er ekki síður mikið um fundahöld, leggi menn sig á annað borð eftir því að vera í sambandi við umbjóðendur sína, hvort sem það er á pólitískum vettvangi eða á því starfssviði, sem þeir sinna sérstaklega.

Ræður og fundir setja mikinn svip á störf mín um þessar mundir og líklega verða fáir dagar með sama sniði og laugardagurinn 29. janúar, þegar menningarárið hófst með formlegum hætti, það er verkefninu Reykjavík - menningarborg Evrópu árið 2000 var hrundið í framkvæmd.

Einhver sagði í Borgarleikhúsinu að kvöldi 29. janúar, að hann hefði hlýtt á mig flytja sjö ræður þann daginn. Ég held, að þær hafi að vísu ekki verið nema fimm, og þar af eiga þrjár að vera tiltækar á þeim hluta þessarar vefsíðu, þar sem ræður birtast.

Ánægjulegt var að skynja virka þátttöku fólks í öllu, sem í boði var þennan laugardag. Strax klukkan 8.15 var fjölmenni í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem dagurinn hófst með því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri opnaði skjalaböggul frá Erlendi í Unuhúsi, sem var trúnaðarvinur margra helstu listamanna þjóðarinnar á fyrri hluta aldarinnar. Urðu menn ekki fyrir vonbrigðum, þegar þeir kynntu sér innihald böggulsins. Strax eftir að efni böggulsins hafði verið kynnt, kom það í minn hlut að opna Tónlistarvef Tónskáldafélags Íslands, en hann virðist mjög vel úr garði gerður og ætti að auðvelda alla kynningu á íslenskum tónskáldum. Þau láta verulega að sér kveða í tilefni menningarársins og stendur Tónskáldafélagið að tæplega 30 tónleikum á árinu, hafa tveir þeirra verið haldnir nú þegar, síðdegis á sunnudegi, það er upphafstónleikar menningarársins í Borgarleikhúsinu með Kammersveit Reykjavíkur að kvöldi 29. janúar og upphafstónleikar í Ými, tónlistarhúsi Karlakórs Reykjavíkur síðdegis 30. janúar.

Klukkan 10.00 var hópur fólks upp við Sandskeið, þar sem borgarstjóri kveikti á Íslandsvitanum, útilistaverki eftir Ítalann Claudio Parmiggiani, sem einnig sýnir verk í Listasafni Íslands. Mun vitinn standa þarna með ljósi eins lengi og hann þolir, en hann er gerður úr kortenstáli og flúorlömpum. Listamaðurinn flutti innblásna ræðu um gildi vitans og hvers vegna hann lýsti hér á landi. Sama dag var gefin út prentuð lýsing á Íslandsvitanum á íslensku, ensku og ítölsku með textum eftir Ester Coen og Ólaf Gíslason, er þetta útgáfa í 1000 eintökum, í stóru broti, en auk textans er þar að finna myndir. Þá er birt ljóð eftir Parmiggiani. þar sem hann lýsir vitanum meðal annars sem einmanalegri framréttri hönd úr járni og ljósi, háreistu og stoltu ljósmerki trúar, Hann segir Ísland ímynd hinnar þrautseigu náttúru, hins þolgóða anda. Verður það öllum ógleymanlegt, að hafa tekið þátt í þessari athöfn við Íslandsvitann í froststillu og sjá sólina teygja sig yfir austurfjöllin og slá fyrstu geislum sínum á hlíðar Esjunnar. Parmiggiani virðist einkar hógvær og alvörugefninn listamaður, sem segist njóta þess að koma hingað til lands og kynnast því, sem hér er að finna hjá landi og þjóð. Í tilefni af þátttöku hans í menningarárinu kom hingað sérlegur fulltrúi menningarmálaráðherra Ítalíu sem gestur menntamálaráðuneytisins og ítalski sendiherrann, sem er búsettur í Ósló.

Þá var ekki síður eftirminnilegt að fá leiðsögn Æsu Sigurjónsdóttur listfræðings um ljósmyndasýningu Sigríðar Zoëga í Hafnarborg auk þess sem Bryndís Jónsdóttir, dóttir Sigríðar, gekk með okkur snögga ferð um sýninguna í hinum mikla fjölda, sem tók þátt í að opna hana. Ég hafði ekki leitt að því hugann, fyrr en fór að kynna mér það í tilefni af þessari sýningu, að ljósmyndun er talin ein af fáum nýjungum 19. aldar, sem Íslendingar voru fljótir að tileinka sér. Fyrir 100 árum kveinkuðu menn sér undan því, hve þeir nytu lítils af verklegum nýjungum hér á landi. Annað verður sagt um þá tíma, sem við nú lifum, þegar við erum í hópi hinna fyrstu, sem tileinka sér allt, sem nýtt er, ef ekki fyrstir.

Nokkur hópur erlendra gesta kom hingað til lands í tilefni þess, að menningarárið var að hefjast og buðum við Rut þeim í stutta stund í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu á milli atriða síðdegis 29. janúar, Rut þurfti auk þess að búa sig undir tónleikana í Borgarleikhúsinu um kvöldið sem konsertmeistari og listrænn stjórnandi Kammersveitar Reykjavíkur. Fyrir tónleikana vorum við Ingibjörg Sólrún í Borgarleikhúsinu og tókum þátt í beinni fréttaútsendingu sjónvarps ríkisins þaðan, en borg og ríki leggja fram meginhluta þess fjármagns, sem nýtt er til að standa undir kostnaði við menningarborgarverkefnið, framkvæmdin hvílir að sjálfsögðu meira á borg en ríki.

Var klukkan komin undir miðnætti, þegar skyldum lauk þennan fjölbreytta og skemmtilega dag.

Í vikunni hélt ég áfram að heimsækja framhaldsskólana. Fór í Vélskóla Íslands, Fjölbrautaskólann í Garðabæ, Borgarholtsskóla og Menntaskólann í Kópavogi. Átii ég klukkutíma fund með nemendum annars vegar og kennurum hins vegar.

Hver þessara skóla hefur sín sérkenni og það, sem efst er á baugi innan þeirra, er ólíkt eftir aðstæðum þeirra. Húsnæðismál og ósk um að fá vélskólapróf viðurkennt sem aðgöngupróf að háskóla settu mestan svip á umræður í Vélskólanum. Í Garðabæ var töluvert rætt um inntak í námskránum, fartöluvuvæðingu, ágæti þess eða ókost, að nemendur mótuðu námsleiðir sínar meira en áður. Í Borgarholtsskóla vorum við jafnframt að vígja nýjan samkomusal og mötuneyti nemenda. Þar er námsframboð fjölbreytt og spurðu menn meðal annars um stöðu nemenda í sérdeildum, starfsnám og námskrár en tillögur að þeim eiga að koma frá starfsgreinaráðum. Þótt Menntaskólinn í Kópavogi hafi nýlega verið stækkaður, fjölgar nemendum í Kópavogi meira en húsrými skólans leyfir. Þannig gæti ég haldið lengi áfram að ræða umræðuefnin, því að margt ber á góma. Alls staðar hafa nemendur búið sig vel undir fundina og koma með markvissar spurningar.

Til undirbúnings háskólaþingi, sem boðað er til af menntamálaráðuneytinu 12. febrúar næstkomandi, hef ég boðið tveimur eða þremur nemendum úr háskólum til mín í ráðuneytið og rabbað við þá um málefni skóla þeirra, viðhorf til námsins og almennt um menntamál. Hefur verið ánægjulegt að hitta þetta áhugasama unga fólk og heyra viðhorf þess.