12.12.1999

Löggjafarvald - ráðuneyti - enn um vítamín

Mikið er um að vera á alþingi um þessar mundir eins og jafnan þegar dregur að jólum. Skipulag þingstarfa er meira og betra en áður, og nú er tekinn frá tími, sem eingöngu er varið til nefndastarfa, en á fundum nefndanna og á vegum þeirra er mesta starfið unnið á alþingi. Umræðurnar í þingsalnum, sem fara fram fyrir opnum tjöldum, eru aðeins toppurinn á ísjakanum, ef þannig má að orði komast.

Í vikunni tók ég þátt í fundi með mönnum, sem líta á alþingi úr fjarlægð, og þar kom fram það mat, ef menn litu til löggjafarvaldsins annars vegar og framkvæmdavaldsins hins vegar, virtist sem svo, að alþingi hefði greinilega undirtökin og forystu. Minntist ég þess þá, sem var almennt viðhorf, þegar ég stundaði laganám á sjöunda áratugnum, að alþingi væri ekki annað en afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, úr stjórnarráðinu kæmu menn með einskonar fyrirmæli til alþingis, og þar sætu þægir þjónar valdsins og greiddu atkvæði eins og embættismannavaldið vildi. Sagðist ég þess vegna undrandi á að heyra þetta mat nú á tímum, að alþingi hefði meira en náð sínum hlut og hefði í raun undirtökin.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að alþingi og stjórnarráðið ættu að beita sér fyrir fræðilegri úttekt á sögu og þróun þingræðis á Íslandi til að leggja mat á samskipti þings og framkvæmdavalds. Næsta ár kemur út saga kristni á Íslandi og hefur alþingi staðið að baki þess mikla starfs, sem þar hefur verið unnið. Þá er verið að leggja drög að því, að saga Stjórnarráðs Íslands frá 1964 til 2004 verði rituð, það er frá þeim tíma, sem fjallað er um í hinu mikla riti Agnars Kl. Jónssonar. Er stefnt að því, að þessi saga verði skrifuð fyrir 100 ára afmæli stjórnarráðsins í febrúar árið 2004.

Með hliðsjón af mörgu, sem slegið er fram um starfshætti innan stjórnarráðsins og samskipti framkvæmdavalds og alþingis, er brýn þörf á því að fyrir liggi sem gleggstar upplýsingar um þetta efni. Skrýtið er til dæmis, ef menn telja það af hinu illa, að hugmyndir að löggjöf eða tillögur um efni hennar, komi frá mönnum utan stjórnarráðsins, eða þingmenn fái sérfróða menn til að aðstoða sig við gerð frumvarpa og tillagna.

Störf stjórnmálamanna snúast einmitt um að bregðast við hugmyndum, hlusta á þá, sem hafa eitthvað nýtt fram að færa og finna leiðir til að koma því í framkvæmd, ef opinber afskipti eru nauðsynleg. Í þjóðfélagi, þar sem slík samskipti þróast og dafna, eru meiri líkur á að nýir hlutir gerist, en þar sem menn sitja og bíða eftir að alráðum stjórnarherrum detti eitthvað nýtt í hug. Vilji menn kynna sér slík þjóðfélög eiga þeir að líta til Stalíns, Hitlers, Maós og Kastrós nú á tímum. Þessir einræðisherrar setja þá einfaldlega í fangelsi, sem hreyfa nýjum hugmyndum, falli þær ekki að þeirra eigin skoðunum.

Á þeim fáu árum, sem ég hef setið á alþingi, hefur jafnt og þétt verið búið betur að þingmönnum í því skyni að auðvelda þeim að fjalla um flókin viðfangsefni. Val í þingnefndir er með þeim hætti, að í sumum þeirra hafa sömu menn setið í mörg kjörtímabil og þess vegna aflað sér mikillar þekkingar á viðkomandi málaflokki. Þingmenn eru því hvorki eins háðir ráðgjöf embættismanna úr stjórnarrráðinu og ella væri né eru þeir jafnháðir slíkri ráðgjöf og áður, því að starfslið alþingis stundar sjálfstæða upplýsingasöfnun og mat fyrir nefndirnar.

Engar sérstakar reglur gilda um það, hvernig unnið er að smíði lagafrumvarpa á vegum ráðherra eða ráðuneyta. Hafa menn frjálsar hendur í því efni. Stundum eru skipaðar nefndir, sem vinna að því að semja frumvarp um ákveðið efni. Stundum eru það embættismenn, sem semja frumvörp. Stundum fær ráðherra eða ráðuneyti mann utan ráðuneytisins til að semja frumvarp. Hef ég valið allar þessar leiðir sem menntamálaráðherra og hafa þær hver um sig skilað góðum árangri.

Sé unnið að frumvarpi, sem snertir hagsmuni margra, hef ég til dæmis valið þann kost að láta semja það innan ráðuneytisins eða með aðstoð manna utan þess og síðan kynnt hinn fullbúna texta fyrir þeim, sem málið snertir mest. Gefið þeim færi á að gera athugasemdir og síðan gjarnan efnt til fundar, þar sem farið er yfir málið lið fyrir lið. Slík yfirferð er einungis fyrsta nálaraugað, sem frumvörp fara um, áður en þau verða að lögum.

Menntamálaráðuneytið er eitt mannflesta ráðuneytið og þar búa margir yfir mikilli þekkingu á þeim málaflokkum, sem um er að ræða. Undanfarin ár hafa starfsmenn ráðuneytisins sýnt frumkvæði, sem hefur orðið öðrum fyrirmynd. Ráðuneytið var fyrst til að móta eigin stefnu um nýtingu upplýsingatækninnar á starfssviði sínu. Menntamálaráðuneytið var í fararbroddi, þegar unnið var að því að koma málaskránni svonefndu í gagnið, það er tölvuvæddri skjalaskráningu og eftirliti með gangi og afgreiðslu. Er mikill áhugi á þróunarstarfi á þessu sviði innan ráðuneytisins. Góð rækt hefur verið lögð við heimasíðu ráðuneytisins og þar er unnt að finna meira af upplýsingum en almennt sést á slíkum síðum íslenskra ráðuneyta, vefslóðin er www.mrn.stjr.is. Ráðuneytið hefur rutt brautina í gerð samninga við stofnanir á starfssviði sínu um nýtingu opinberra fjármuna, svonefnda árangursstjórnunarsamninga. Þá hefur öllu íslenska skólakerfinu verið búinn nýr starfsrammi á undanförnum árum og gífurlegt þróunarstarf verið unnið undir forystu ráðuneytisins. Hver sá, sem kynnir sér starf ráðuneytisins, hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að þar taki starfsmenn á málum af miklum metnaði.

Í síðasta pistli mínum hér á vefsíðunni sagði ég stuttlega frá samskiptum mínum við Lyfjaeftirlit ríkisins vegna óska um að fá að kaupa hér á landi vítamínið VM-75 frá bandaríska fyrirtækinu Solgar. Þessi frásögn varð tilefni frétta í tveimur dagblöðum Degi og DV, sem birtust báðar fimmtudaginn 9. desember. Þar er rætt við Guðrúnu S. Eyjólfsdóttur, forstöðumann Lyfjaerftirlits ríkisins, sem lýsir undrun sinni yfir því, að ég skuli hafa hreyft þessu máli hér á síðunni, sérstaklega vegna þess, að hún og samstarfsmenn hennar hafi verið svo barnalegir að halda, að þeir hefðu gefið mér endanlegt svar í bréfi, sem þeir sendu mér 26. maí 1998. Ég myndi spyrja þá frekar, ef mér þætti svarið ófullnægjandi.

Nauðsynlegt er vegna þessara umræðna að bæta við fyrri frásögn, því að málinu lauk ekki 26. maí 1998. Eftir að bréfið frá 26. maí barst mér, en þar sagðist Lyfjaerftirlitið aldrei hafa fengið þetta vítamín til skoðunar, beitti ég mér fyrir því, að nákvæm lýsing á efninu var send til eftirlitsins með bréfi dags. 3. júní 1998. Síðan fékk ég afrit af svari til þess, sem efnið sendi, er svarbréfið dagsett 10. júlí 1998, en þar segir, að vegna anna sé ekki unnt að gefa endanlegt svar fyrr en í ágúst 1998, það er þetta svar, sem ég hef hins vegar aldrei séð. Þess vegna gat ég þess í pistli mínum, að ég teldi málinu ekki lokið.

Ég hef sem sé verið í góðri trú um að Lyfjaeftirlit ríkisins væri enn að athuga, hvort ég mætti kaupa þetta vítamín hér á landi. Í bréfinu frá 10. júlí 1998 koma fram vangaveltur um, að það kunni að vera hættulegt að selja þetta efni hér vegna þess, að það sé of mikið af B-vítamíni í því og er þá tekið mið af ráðleggingum Manneldisráðs um B-vítamín magn og styrkleika. Ég hef ekki forsendur til að blanda mér í deilur um hæfilegan skammt af B-vítamíni og viðurkenni, að líklega fer ég ekki alltaf eftir því, sem Manneldisráð telur skynsamlegast.

Mál þetta hefur borið á góma í samtölum mínum við fólk, eftir að fjölmiðlar fóru að segja frá þessum pistli mínum. Hef ég heyrt dæmi um margt, sem er bannað hér en leyft í öðrum löndum. Efnið Melantonin hefur meðal annars verið nefnt, en það er unnt að kaupa í öllum heilsubúðum í Bandaríkjunum og er meðal annars mælt með því til að vinna gegn áhrifum tímamunar á ferðalögum, margir taka það einnig til að auðvelda sér svefn. Þetta efni er víst stranglega bannað hér á landi og að sögn jafnvel erfiðara að fá það út á lyfseðil en sterk svefnlyf.

Síst af öllu ætla ég að vanmeta störf Lyfjaerftirlitsins eða Manneldisráðs og annarra opinberra stofnana, sem eiga að vera okkur til trausts og halds á lífsgöngunni. Á hinn bóginn dreg ég í efa, að setja þurfi okkur Íslendingum strangari reglur í umgengni við fæðubótarefni en öðrum þjóðum eða banna okkur að kaupa í eigin landi slík efni, sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar.

Raunar bar ég fram þau rök í bréfi mínu til Lyfjaeftirlitsins, að á sínum tíma, þegar ég var formaður utanríkismálanefndar, og vann að því að koma samningnum um aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu í gegn á alþingi, kannaði ég sérstaklega, hvort við ættum ekki að sitja við sama borð og aðrar þjóðir á svæðinu með aðgang að náttúrulyfum. Var ég fullvissaður um, að svo væri. Til að verja þá stefnu sína að banna okkur Íslendingum aðgang að slíkum lyfjum hér, þótt hann sé heimilaður annars staðar, nefnir Lyfjaerftirlitið meðal annars í bréfi sínu frá 26. maí 1998, að Finnar banni sölu á lýsi nema gegn lyfseðli. Sjá allir Íslendingar, hve vitlaus slík stefna er og síst af öllu til eftirbreytni að vera með sérvisku af þessu tagi, þegar um það er að ræða, að fólk leitar leiða til að rækta heilbrigði sitt og heilsu.

Umræður á alþingi undanfarna daga, þegar síðasta hönd er lögð á fjárlagafrumvarp næsta árs, hafa að verulegu leyti snúist um útgjöld til heilbrigðismála. Eru allir á einu máli um, að óvinunandi sé að starfsemi á þessu sviði fari hvað eftir annað langt út fyrir lögbundin mörk. Ber að leita allra leiða til þess, mestu skiptir að sjálfsögðu að efla heilbrigði þjóðarinnar og draga úr þörf sem flestra til að þurfa á dýrri læknishjálp og sjúkravist að halda.