12.8.1999

Listaháskóli Íslands - tilboð Hafnarfjarðar

Föstudaginn 10. september var Listháskóli Íslands settur í fyrsta sinn með hátíðlegri og skemmtilegri athöfn að Kjaravalsstöðum. Er langþráður draumur margra þar með orðinn að veruleika. Ég hef unnið að þessu máli frá því í nóvember 1992, þegar Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, bað mig um að verða formann í nefnd um það, hvernig best væri að því staðið að koma Listháskóla Íslands á fót. Rakti ég aðdraganda málsins í stórum dráttum í ræðu við setningu skólans.

Á þessu hausti færist myndlista- og handíðanám á háskólastigið. Lengi hefur legið fyrir, að nám í Myndlista- og handíðaskólanum væri viðameira en kröfur eru um á framhaldsskólastigi. Hins vegar hefur ekki verið unnt fyrr en núna að skilgreina það sem háskólanám. Er ég viss um það skref eitt leysir nýja krafta úr læðingi. Jafnframt hefur verið unnið mikilvægt stefnumótunarstarf undir forystu Hjálmars H. Ragnarssonar rektors og samstarfsmanna hana. Í raun er hér miklu meira í húfi en að stofna nýjan skóla á eigin grunni, því að í fyrsta sinn bætist háskólavídd við allt menningarlíf landsins, sem nú stendur með miklum blóma.

Áður en nefndin tók til starfa haustið 1992 hafði verið ákveðið, að Listaháskóli Íslands fengi inni í svonefndu SS-húsi á Laugarnestanga, sem ríkið keypti á sínum tíma, þegar gerðar voru ráðstafanir til að treysta fjárhagslegan grundvöll SS og endurskipuleggja fyrirtækið. Húsið var sem sagt reist með slátur- og kjötvinnslu í huga. Hluti af starfsemi Myndlista- og handíðaskólans fluttist í þetta hús og hafa nemendur og kennarar verið misjafnlega ánægðir með aðstöðuna þar. Hefur oftar en einu sinni verið hugað að því í tíð minni sem menntamálaráðherra, hvort annað húsnæði kæmi til álita fyrir skólann. Niðurstaðan hefur jafnan orðið sú, að ekki ætti að sleppa SS-húsinu. Eftir að Listaháskóli Íslands var formlega stofnaður, fékk eigin stjórn og síðan rektor, hafa ákvarðanir um aðsetur hans flust til stjórnenda hans, en LÍ er einkaskóli. Hefur meðal annars verið leitað eftir rými í miðborg Reykjavíkur. Borgaryfirvöld brugðust þannig við því erindi, að borgarstjóri ritaði mér og fjármálaráðherra bréf og óskaði eftir viðræðunefnd með fulltrúum okkar um málið. Ég svaraði á þann veg, að þetta væri málefni, sem stjórnendur LÍ og Reykjavíkurborgar yrðu að leysa sín á milli.

Nú hefur það gerst, að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa boðið LÍ að fá til afnota húsnæði á hafnarsvæði í bænum, þar sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var áður til húsa. Kvikmyndasafnið er í hluta þessara miklu bygginga og þar hefur einnig verið staðið myndarlega að leiklist undir merkjum Hermóðs og Háðvarar. Ef LÍ flyttist til Hafnarfjarðar myndi skólinn og starfsemi hans setja mikinn svip á miðbæjarlífið þar og vafalaust gjörbreyta ímynd bæjarins. Er ánægjulegt að verða var við þennan áhuga Hafnfirðinga og er hann samræmi við margt annað gott, sem þeir eru að gera í skólamálum um þessar mundir. Þeir hafa til dæmis staðið mjög vel að því að kynna nýjar námskrár grunnskólans. Í samvinnu við ríkið standa þeir að því að farin er ný leið við gerð skólamannvirkja með byggingu Iðnskólans í Hafnarfirði, en hún er fyrsta einkaframkvæmdin í skólasögunni. Þeir hafa einnig lagt sig fram um að nýta upplýsingatæknina með stórhuga og markvissum hætti innan Flensborgarskóla og þannig mætti áfram telja.

Í nefnd þeirri, sem skipuð var í nóvember 1992 sat fulltrúi tilnefndur af borgarstjórn Reykjavíkur. Var við alla gerð tillagna nefndarinnar, sem sáu dagsins ljós á árinu 1993, gengið að því sem vísu, að Reykjavíkurborg ætti fulltrúa í stjórn LÍ og kæmi með markvissum hætti að skipulagi hans, stjórn og uppbyggingu. Á þessum árum voru sjálfstæðismenn í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Var ég sem nefndarformaður í sambandi við borgarstjóra um málið auk þess fulltrúi borgarstjórnar mótaði allar ákvarðanir nefndarinnar. R-listinn náði meirihluta í borgarstjórn 1994. Á því ári og fram á haust var unnið að því í menntamálaráðuneytinu að semja frumvarp til laga um listmenntun á háskólastigi, sem síðan var samþykkt einróma á alþingi snemma árs 1995. Í þeirri vinnu allri og meðferð þingnefndar á frumvarpinu var gengið að því sem vísu, að borgarstjórn Reykjavíkur skipaði fulltrúa í stjórn LÍ og borgaryfirvöld tækju þátt í því að koma skólanum á legg.

Eftir að frumvarpið var orðið að lögum og ég tók sem menntamálaráðherra að vinna í samræmi við það, kom í ljós, að R-listinn taldi Reykjavíkurborg ekki hafa neinum sérstökum skyldum að gegna. Hinn 31. janúar 1998 lýsti ég þessum samskiptum í Morgunblaðsgrein, en þennan dag var efnt til prófkjörs R-listans í Reykjavík. Í greininni stóð meðal annars:

„Á síðasta kjörtímabili í Reykjavík, fyrir valdatöku R-listans, varð að samkomulagi að stofna Listaháskóla í Reykjavík með þátttöku Reykjavíkurborgar. Síðan gerist það eftir að R-listinn nær völdum, að borgarstjóri og embættismenn hennar lýsa Listaháskóla alfarið verkefni ríkisins, sem komi Reykjavíkurborg ekki við. Öll viðleitni meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hefur miðast við að losna undan afskiptum af hinum nýja skóla.

Eins og áður sagði fer nú fram prófkjör R-listans og biðla frambjóðendur til kjósenda á ýmsum forsendum.

Í Morgunblaðinu 27. janúar sl. birtist grein eftir Árna Þór Sigurðsson, borgarfulltrúa R-listans úr Alþýðubandalaginu, undir fyrirsögninni Háskólinn og Reykjavík. Þar segir meðal annars: „Núverandi meirihluti Reykjavíkurlistans hefur í verki sýnt jákvæðan hug sinn til Háskólans og viðurkennt mikilvægi menntunar fyrir borgina og mættu margir opinberir aðilar taka Reykjavík sér til fyrirmyndar í þessu efni.“

Því miður blasir þessi mynd ekki við þeim, sem unnið hafa að málefnum framhaldsskólanna og að því að stofna Listaháskóla í Reykjavík undanfarin ár. Þar hefur Reykjavík síður en svo verið til fyrirmyndar heldur dregið lappirnar og beint umræðum inn á þá braut, að hún hafi engum skyldum að gegna vegna háskóla, auk þess séu henni settir ósanngjarnir kostir með því að standa að Myndlistar- og handíðaskólanum og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hefur borgin einhliða dregið úr fjárveitingum til Tónlistarskólans, stjórnendum hans til mikilla vandræða.

Í nýútkomnu Stúdentablaði ræða Hrannar B. Arnarsson, Guðjón Ólafur Jónsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Magnea Marinósdóttir og Helgi Hjörvar, frambjóðendur í prófkjöri R-listans, fjálglega um Reykjavík sem háskólaborg. Hinn síðastnefndi segir: „Reykjavíkurlistinn hefur á skömmum tíma sýnt skilning á mikilvægi háskólaborgarinnar.“

Æskilegt væri að þessir nýju frambjóðendur kynntu sér viðhorf R-listans til Listaháskóla í Reykjavík, þar sem gert var ráð fyrir virkri þátttöku Reykjavíkurborgar fyrir valdatöku listans. Síðan R-listinn fékk meirihluta í borgarstjórn hefur Reykjavík lagt höfuðkapp á að þurfa ekki að koma nærri þeim háskóla“.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir svaraði þessari grein með alkunnum þjósti í Morgunblaðinu 4. febrúar 1998, þar sem hún sakar mig um „dáðleysi“ í málefnum LÍ og segir það „handvömm“, að í lögunum um listmenn á háskólastigi sé gert ráð fyrir því að Reykjavíkurborg komi að LÍ. Hún telur einnig, að Reykjavíkurborg hafi unnið að lausn listaháskólamálsins með því að taka þátt í bráðabirgðastjórn vegna skólans með því skilyrði, að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga í tónlistarkennslu yrði endurskoðuð, en þetta taldi borgarstjóri „lykilatriði við lausn Listaháskólamálsins“ eins og hún orðar það og kemst síðan að þeirri niðurstöðu að málið hafi lent „úti í mýri“.

Listaháskólamálið er komið í höfn án nokkurra R-lista skilyrða frá Reykjavíkurborg. Allir, sem unnu heilshugar að framgangi málsins, sáu, að skynsamlegast væri að ónáða ekki borgarstjóra eða aðra á hennar vegum frekar vegna þess.

Ég hitti Magnús Gunnarsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði, við setningu LÍ að Kjarvalsstöðum en sá ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra í Reykjavík. Einn af varaborgarfulltrúum R-listans kom hins vegar til mín og fagnaði deginum með hamingjuóskum en sagði síðan: Við treystum því, að þú sjáir um, að skólinn fari ekki til Hafnarfjarðar!