12.6.1999

Þingsetning - Færeyjaferð

Alþingi var sett þriðjudaginn 8. júní. Davíð Oddsson flutti stefnuræðu þriðja ráðuneytis síns við þingsetninguna og sama kvöld voru umræður um hana. Fráleitt er að halda því fram, að stefna ríkisstjórnarinnar sé ekki skýr. Áherslurnar í henni eru nútímalegar og horfa fram á veginn og þess vegna í hróplegri andstöðu við boðskap stjórnarandstöðunnar. Vinstri/grænir undir forystu Steingríms J. Sigfússonar eru lengst frá nútímanum í málfluningi sínum. Þeir halda fast í úrelta utanríkisstefnu og eru einnig andvígir því að ríkið dragi saman seglin til að skapa einstaklingum og fyrirtækjum þeirra aukið svigrúm. Fullyrða má, að í Evrópu sé ekki að finna stjórnmálaflokka, sem hafa staðnað með sama hætti. Fylking vinstrisinna er ekki trúverðug og innan hennar eru menn ekki samstiga í mikilvægum málum.

Athygli vakti í tilefni af þingsetningunni, að uppi voru deilur innan Framsóknarflokksins vegna kjörs þingflokksformanns, en þeir Kristinn Gunnarsson og Ólafur Örn Haraldsson kepptu um formennskuna, hafði Kristinn betur og sættir Ólafur Örn sig ekki við það, meðal annars á þeirri forsendu, að Kristinn sé andvígur utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar. Utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins hefur tekið af öll tvímæli um, að kjör Kristins þýði enga breytingu á utanríkisstefnu flokksins.

Þeim fækkar nú óðfluga, sem sátu á alþingi, þegar ég tók þar sæti fyrir átta árum. Hefur orðið mikil endurnýjun þingmanna á þessum lokaáratug aldarinnar. Þannig hafa aðeins þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins setið lengur en tvö kjörtímabil sem kjörnir þingmenn, þeir Halldór Blöndal, Árni Johnsen og Geir H. Haarde. Þingstörfin hafa einnig tekið miklum breytingum og eru enn í þróun, þannig boðaði Halldór Blöndal þingforseti, að hann mundi beita sér fyrir því að ný þingskapalög kæmu til sögunnar.

Fyrstu viðbrögð nýrra þingmanna eru oft þau, að þeim finnst tíma sínum ekki alltaf vel varið, þegar setið er og beðið eftir því að umræðum ljúki, sem breyta í sjálfu sér litlu, því að öll sjónarmið er unnt að kynna á skemmri tíma. Eftir því sem þeim þingmönnum fjölgar, sem sætta sig ekki við tímasóun og skipulagsleysi, er líklegra að takist að setja þingskapalög, sem skipuleggja starf þingmanna betur án þess að útiloka, að allir getið látið ljós sitt skína. Það er mikill misskilningur, að lýðræði sé best tryggt með því, að hinir málglöðustu geti talað endalaust. Þeir gera það yfirleitt á kostnað hinna hógværari, sem geta ekki síður lagt gott til mála.

Miðvikudaginn 9. júní hélt ég til Færeyja ásamt Kartias H. Gunnarsdóttur, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, og urðum að fara í gegnum Kaupmannahöfn. Veðrið var stillt og gott þegar við lentum. Tilefni ferðarinnar var fundur menningarmálaráðherra Norðurlandanna, sem var haldinn í Tinganesi, stjórnarsetri Færeyinga. Að kvöldi komudagsins var okkur boðið í Norðurlandahúsið, sem nú lýtur stjórn Helgu Hjörvar. Fundahöldin daginn eftir snerust ekki síst um fjárlög Norðurlandaráðs, en okkur menningarmálaráðherrunum þykir það ekki í samræmi við markmið og forsendur norræns samstarfs að vega sérstaklega að menningarliðum norrænu fjárlaganna fyrir næsta ár. Var samstarfsráðherrum sent bréf og fundið að tillögum þeirra. Þá vorum við vottar að því, að menningarmálaráðherrar Færeyja og Danmerkur rituðu undir samkomulag um að danska Þjóðminjasafnið afhenti því færeyska forngripi. Minntist ég þess í því sambandi, að við gerð samningsins um afhendingu handritanna, féllum við Íslendingar frá kröfum um íslenska gripi úr danska Þjóðminjasafninu. Afhending fornritanna til okkar og forngripanna til Færeyinga er til marks um einstakan hug Dana. Er afar sjaldgæft, að þjóðir sýni þennan hug í samskiptum við aðra. Umræður milli þjóða um dýrgripi af þessu tagi einkennast almennt af allt öðru.

Við þáðum boð til Kikjuböar, þar sem Páll Patursson bóndi kynnti sögu staðarins og fjölskyldu sinnar sem þarna hefur búið síðan um 1500. Einnig hitti ég tvíburabróður hans, Tránd, sem er kunnur myndlistarmaður og er að taka við formennsku í Nordisk Kunstforening. Þáðum við síðan kvöldverð í hinni tæplega 900 ára gömlu reykstofu, þar sem Sverrir konungur lék sér barn að aldri.

Lokadaginn, föstudaginn 11. júní, efndum við til fundar fulltrúar Færeyja, Grænlands og Íslands og ræddum sameiginleg mál undir vestnorrænum merkjum. Siðan var haldið í siglingu með sluppnum Norðurlýsinu. Sigldum við í kringum Hestey og fórum þar í hella. Veðrið var einstaklega gott og nutum við þess að vera úti við. Sérkennilegt var að sjá hina miklu straumólgu, sem er á milli eyjanna og þurfti skipstjórinn að haga ferðum sínum í samræmi við straumáttina. Síðdegis var beint flug til Íslands og til að við, sem tókum það, gætum bæði þáð boðið í siglinguna með Norðurlýsinu og náð vélinni, var brugðið á að ráð að láta hraðbát sigla með okkur frá Gömlu rætt, sem er skammt frá Kirkjubö, til Miðvogs, næsta bæjar við flugvelli á Vagar. Brunuðum við á 25 mílna hraða á milli eyjanna og skoðuðum meðal annars Tröllkonufingur, sem teygir sig tugi metra upp úr haffletinum. Þangað var farið með konung í heimsókn hans til Færeyja fyrir löngu. Heimamaður vann það afrek að klífa fingurinn mikla konungi til heiðurs, þegar hann var kominn niður, hafði hann gleymt hanska sínum uppi, kleif hann þá aftur til að sækja hanskann, náði upp en hrapaði og lét lífið. Hvarvetna er tilefni til sagna eins og þegar farið er um Ísland og í Tinganesi skaga steinar út í gangbraut, því að ekki er hróflað þar við bústöðum huldufólks frekar en á Íslandi.

Þegar við komum til Miðvogs var sagt, að flugferðin til Íslands frestaðist um sólarhing vegna bilunar í vél færeyska flugfélagsins, Atlantic Airways. Sem betur fer sendi Flugfélag Íslands Fokker að heiman til að sækja okkur og komumst við heim um miðnætti eða um sex tímum eftir áætlun. Kom í sjálfu sér ekki að sök að dveljast lengur í veðursældinni á Vagar og ganga þar í kyrrðinni.