21.5.1999

Sérkennilegur tími - Stephanopoulos - Giddens

Frá því á kjördag hefur verið sérkennilegt að gegna ráðherrastörfum vegna óvissu um framtíðina. Ríkisstjórnin hefur ekki sagt af sér og með hverjum deginum verður skýrara, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa fullan hug á að starfa áfram saman. Málefnaviðræður hafa verið jákvæðar og Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur átt einkaviðræður við þingmenn flokks síns meðal annars um val á mönnum til setu í ríkisstjórn. Almennt séð ríkir því engin óvissa í landstjórninni, en innan einstakra ráðuneyta er staðan þannig að menn bíða eftir því, hverjum verði falið að stýra þeim næstu fjögur árin. Þennan biðtíma er unnt að nota til að ganga frá ýmsum málum en menn setjast ekki niður til að leggja á ráðin um framtíðina.

Ég hef stundum getið þess hér á þessum stað, hve margir eru á biðlista eftir viðtali við mig sem menntamálaráðherra, en hvern miðvikudagsmorgun hafa ráðherrar almennan viðtalstíma fyrir þá, sem óska eftir að hitta þá að máli. Þegar gengið var til kosninganna voru um 10 nöfn á viðtalslistanum hjá mér og leit ég þannig á, að umræðuefnin væru ekki þess eðlis, að knýjandi væri að kalla á viðkomandi í viðtal á kjörtímabilinu. Síðan hafa ekki margir bæst á listann, enda þykir mörgum vafalaust til lítils að óska eftir að ræða við mann, sem ef til vill hverfur til annarra starfa eftir fáeina daga vegna breytinga á ríkisstjórninni.

Hvar sem komið er á mannamót er spurt, hvort nokkuð sé að frétta af myndun ríkisstjórnar. Síðan er spurt, hvernig skiptingu ráðuneyta verði háttað, hvort flokkarnir eigi eftir að skipta með sér verkum á annan hátt en verið hefur. Þá fikra menn sig inn á þær brautir að forvitnast um, hvort búið sé að velja fólk til ráðherrasetu og loks, hvort maður sjálfur hugsi sér til hreyfings eða ætli að óska eftir að vera á sama stað. Síðan taka við vangaveltur af ýmsu tagi. Líklega fáum við, sem erum til umræðu, síðast að vita um allt, sem verið er að spá og spekúlera.

Ég ætla ekki að kveða fastar að orði um þessi mál hér en annars staðar og aðeins árétta þá staðreynd, að á þessu stigi veit ég jafnlítið um hina endanlegu niðurstöðu og hver annar. Lyktirnar ráðast, þegar formenn flokkanna, sem ætla að starfa saman, setjast niður með allar upplýsingar og þræði í höndum sér og stilla saman strengi sína. Eins og allir vita, sem koma að því að taka ákvörðun, ræðst hún að lokum af vilja þess, sem hefur lokaorðið samkvæmt umboði sínu og áhrifum. Fyrir farsælt framhald skiptir mestu, að sæmileg sátt ríki um skynsamlega og vel rökstudda niðurstöðu.


Mér hefur gefist tóm til að lesa bókina All too Human, a Political Education eftir George Stephanopoulos, kosningaráðgjafa Clintons, þegar hann sigraði í bandarísku forsetakosningunum 1992 og starfaði síðan sem pólitískur ráðgjafi hans á fyrra kjörtímabilinu í Hvíta húsinu. Bókin kom út fyrir fáeinum vikum.

Í bókinni lýsir höfundur samskiptum sínum við Clinton, sem voru mjög náin, einkum í kosningabaráttunni, og hvernig þau urðu smátt og smátt minni, þar til Stephanopoulos ákvað að hætta störfum í Hvíta húsinu en hann sinnir nú háskólakennslu auk þess sem hann er ráðgjafi ABC-sjónvarpsstöðvarinnar eða sérfræðingur meðal annars varðandi forsetaembættið. Þegar Stephanopoulos lét af störfum hafði hann gefið forsetanum alla krafta sína og meira en það, því að hann var undir læknis hendi vegna of mikils álags og streitu. Var svo komið um skeið, að hann varð að safna skeggi til að hylja streitueinkennin, útbrot í andlitinu. Var hann þó hættur, þegar mest reyndi á starfslið forsetans, eftir að upplýst var, að hann hafði farið með rangt mál um samband sitt við Monicu Lewinsky. Hvaða skoðun sem menn hafa á Clinton er ekki annað hægt en dást að úthaldi hans og pólitísku þreki eða konu hans Hillary, en Stephanopoulos lýsir nokkuð áhrifum hennar og afskiptum af töku ákvarðana á vettvangi Hvíta hússins.

Spennan í bandarískum stjórnmálum er mikil og áreitið á forsetann kemur úr mörgum áttum. Hann hefur her manns umhverfis sig til að veita sér ráð, vinna úr málum og leggja á ráðin um stefnuna en að lokum er það forsetinn, sem tekur af skarið. Geri hann það með þeim hætti, að aðstoðarmenn og ráðgjafar sitji eftir með sárt enni er voðinn vís, einkum ef hann lætur þá ganga í vatnið fyrir sig. Þetta reyndi Stephanopoulos. Hann lýsir samskiptum við fjölmiðlamenn en Stephanopoulos tók slaginn við þá fyrir Clinton og stundaði það, sem á ensku er kallað spin fyrir forsetann og felst í því að leitast við að gera hið besta úr hverjum hlut, sem snertir forsetann.

Spyrja má, hvort það eitt lýsi mikilli vinsemd í garð Clintons og konu hans, að jafnnáinn samstarfsmaður þeirra og Stephanopoulos riti bók um samstarf sitt við þau, á meðan þau eru enn í Hvíta húsinu og standa í miklum átökum og baráttu, þótt seinna kjörtímabilið sé að renna sitt skeið. Hér á landi þætti slík bók ekki vinargreiði og ólíklegt að höfundurinn eigi upp á pallborðið hjá forsetahjónunum. Hins vegar er hefð fyrir því í Washington að nánir samstarfsmenn forsetans safna þeim molum, sem þeir geta í von um að geta nýtt þá síðar. Samskipti manna á þessari bylgjulengd í Bandaríkjunum eru á þeim forsendum, að þeir skrifa bækur um þau, sem geta. Bókin eftir Stephanopoulos ber þess merki, að hann er að skrifa sig frá forsetanum. Hann er að losa sig við byrðar, ábyrgð á hinu vonda í fari Clintons. Honum finnst Clinton góður forseti en vondur maður, bókin er rökstuðningur fyrir þeirri skoðun.

Anthony Giddens, félagsfræðingur og rektor London School of Economics (LSE), var hér í vikunni í boði þeirra, sem stundað hafa nám í LSE. Heimsókn hans vakti verðskuldaða athygli með hliðsjón af hlutverki hans hjá þeim vinstrisinnum, sem eru að þróa stjórnmálaskoðanir sínar til hægri eða inn á miðjuna. Hann hefur fyllt hugmyndafræðilegt tómarúm með boðskap sínum. Bækur hans hef ég ekki lesið en umsögn vikuritsins Economist um þá bók hans, sem hefur vakið mestan áhuga og fjallar um þriðju leiðina svonefndu, varð mér ekki hvatning til að eignast hana. Bókinni er lýst þannig að hún sé ógnarlega, valdsmannslega og á sinn hátt óþægilega innantóm. Ég ætla ekki að tíunda rök Economist fyrir þessum dómi en í blaðinu hafa birst fleiri greinar, þar sem gert er lítið úr þriðju leiðinni. Lesendur Economist hafa verið rækilega bólusettir gegn því, að unnt sé að finna skynsamlega leið á milli jafnaðarmennsku og markaðshyggju og skilgreina hana sem upphaf á hnattrænum heimsborgarabrag í stjórnmálum. Mátti raunar heyra á þeim, sem hlýddu á fyrirlestra Giddens hér og ræddu málið í Víðsjá RÚV síðdegis föstudaginn 21. maí, að okkur Íslendingum væri brýnt að hefja umræður okkar upp á heimsborgaralegra stig, við byggjum við forystu manna, sem litu á gönguferð kringum Tjörnina duga til að víkka sjóndeildarhring sinn.

Vissulega er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að hafa gluggana galopna og líta til þess sem er að gerast úti í hinum stóra heimi og ræða það á okkar forsendum, draga af því ályktanir og síðan taka ákvarðanir um framtíð okkar. Heimsókn Giddens gefur okkur gott tækifæri til að kynnast nýjum viðhorfum og ræða þau. Heimsóknin er ekki síður til þess fallin að kynna þjóðfélag okkar og það, sem hér er efst á baugi, fyrir áhrifaríkum manni. Staðreynd er, að menn eins og Giddens undrast yfir þeim árangri, sem við höfum náð á okkar eigin forsendum. Hann sagði til dæmis, þegar hann kom og ræddi við mig í menntamálaráðuneytinu að morgni föstudagsins 21. maí, að það væri í raun einstakt, að tekist hefði að halda verðbólgu í skefjum, draga úr atvinnuleysi og auka hagvöxt með þeim hætti, sem við Íslendingar hefðum gert undanfarin ár. Hann hafði einnig áhuga á að fræðast um skólakerfi okkar og menntastefnu ekki síst háskólastigið. Var fróðlegt að heyra skoðanir hans á stöðu LSE í alþjóðlegri samkeppni háskóla. Hann sagði lykilatriði fyrir háskóla, vildu þeir þróast og dafna, að þeir fengju að afla sér tekna með skólagjöldum. Það væri borin von, að unnt væri að auka ríkisútgjöld og þar með skattheimtu í samræmi við auknar fjárþarfir háskóla, sérstaklega þar sem hin alþjóðlega samkeppni þeirra byggðist á því að öflugustu skólarnir gætu aflað sér mikilla tekna með skólagjöldum. Er þetta sú stefna sem hann fylgir sem rektor LSE og hefur kynnt rækilega, hann er því eindreginn talsmaður þeirrar stefnu, sem ríkisstjórn Tonys Blairs hefur fylgt að innheimta í fyrsta sinn skólagjöld af öllum, sem innrita sig í breska háskóla.