22.4.1999

Leikskólar - stjórnmálafræðingar

Þriðjudagskvöldið 20. apríl flutti ég ræðu á tveimur fundum og svaraði fyrirspurnum.

Í fyrsta lagi fór ég á fund í Garðabæ, þar sem var rætt um leikskólamál í bænum en ég fenginn til að vera þar í upphafi til að greina frá stefnunni, sem kynnt hefur verið undir kjörorðinu: Enn betri leikskóli. Fundurinn var fjölmennur og er ljóst, að gerðar eru vaxandi kröfur til leikskólans, foreldrar vilja bæði að börn geti dvalist sem lengst í honum dag hvern og einnig að þau geti komist í hann sem yngst. Spurning kom fram um það, hvor ekki ætti að lögbinda rétt barna til aðgangs að leikskólum. Einnig var spurt, hvort ekki ætti að skylda börn til að fara í leikskóla, ef litið væri á þá sem fyrsta skólastigið eins og gert er í nýju námskránni og með þeirri ákvörðun að boða aðalnámskrá fyrir leikskóla í stað uppeldisáætlunarinnar. Svör við þessum spurningum fást ekki í þeirri stefnu, sem ég hef boðað. Svaraði ég þeim þannig á fundinum, að ekki væri unnt að ákveða breytingar í þessa vegu einhliða af hálfu ríkisvaldsins eða löggjafarvaldsins, heldur yrði að hafa um þetta náið samráð við sveitarfélögin, sem standa að rekstri leikskólana og bera ábyrgð á honum. Verða íbúar sveitarfélaga jafnframt að svara spurningum um fjárhagslegar hliðar þessara mála, áður en ákvarðanir eru teknar um stóraukin útgjöld til leikskóla. Hins vegar held ég, að öllum sé ljóst, hvert hugur foreldra stefnir í þessu máli.

Þjóðfélagsgerð okkar er að taka meiri breytingum en við skynjum hvert og eitt, fer mat okkar á berytingunum að sjálfsögðu eftir aldri okkar, starfsvettvangi og reynslu. Í samræðum mínum við grunnskólakennara verð ég sífellt meira var við, að þeir telja, að starf sitt sé að verða erfiðara með hverju árinu sem líður. Þetta felst ekki í því, að nemendur hafi tekið stakkaskiptum heldur hinu, að ætlast er til að skólinn sinni meira uppeldishlutverki en áður, taki við verkefnum, sem áður var talið sjálfsagt og eðlilegt að sinna innan veggja heimilanna. Nemendur eru meira einir heima fyrir og hafa ekki sama umhverfi þar og áður, fá ekki tækifæri til að tjá tilfinningar sínar eða njóta ekki þeirrar umhyggju, sem þeir þarfnast.

Síðari fundurinn þetta þriðjudagskvöld var á vegum stjórnmálafræðinga. Var stjórnmálafræðingum og stjórnmálamönnum stefnt saman í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fyrri hluti fundarins byggðist á erindum fjögurra stjórnmálafræðinga og síðari hlutinn á því að við fulltrúar stjórnmálaflokkanna höfðum fimm mínútur hver til að skýra stefnu okkar og síðan sátum við fyrir svörum. Tveimur erindum var lokið, þegar ég kom til fundarins. Dr. Auður Styrkársdóttir var að í miðju erindi sínu, þegar ég settist. Athyglisvert var, að hún lét þessi ekki getið, þegar hún dró saman niðurstöður í lok máls síns, að færi fram sem horfir, leiðir framboð fylkingar vinstrisinna til þess, að konum fækkar á þingi, skautaði fyrirlesari framhjá þessu almennum orðum en var þeim mun beinskeyttari, þegar hún vék gagnrýnisorðum að Sjálfstæðisflokknum og formanni hans.

Auður er eiginkona Svans Kristjánssonar prófessors og hafa þau bæði starfað við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og koma oft fram undir fræðilegu yfirbragði, þegar þau eru að boða vinstristefnu sína. Svanur er frægur fyrir póltíska spádóma í fjölmiðlum, sem reynast síðan út í hött. Þetta kvöld gat hann ekki leynt stuðningi sínum við fylkingu vinstrisinna, þegar pallborðsumræðurnar hófust, þóttist hann þó yfir aðra hafinn vegna einhverrar fræðilegrar óhlutdrægni. Tvískinnungur af þessum toga er jafn ámælisverður, þegar hann kemur fram hjá fræðimönnum og fjölmiðlamönnum.

Meðal þeirra sem fluttu þarna stjórnmálafræðileg erindi var Stefanía Óskarsdóttir, sem kennir við félagsvísindadeild og skipar 11. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Var það meðal annars verkefni hennar að skilgreina miðjuflokka í stjórnmálum. Var hún í pallborðsumræðunum beðin um álit á því, hvernig hún skilgreindi fylkingu vinstrisinna, hvort hún fetaði til dæmis í fótspor Blairs í Bretlandi. Niðurstaða Stefaníu var sú, að svo væri ekki, því að Blair hefði farið inn á miðjuna og leitast við að ná í atkvæði frá Íhaldsflokknum til hægri. Höfuðmarkmið fylkingarinnar væri að sameina vinstri menn og til þess héldi hún sig til vinstri, í stefnu hennar mætti kenna marxíska strauma. Þegar minnst var á Karl Marx hrökk Svanur við og afneitaði honum, gaf hann til kynna, að Stefanía væri ómarktæk, af því að hún væri í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég blandaði mér í þessar umræður og lýsti stuðningi við niðurstöðu Stefaníu, enda væri það höfuðmarkmið fylkingarinnar að sameina vinstrisinna. Stefna fylkingarinnar væri einnig dæmigerð vinstri stefna, aukin ríkisumsvif með meiri skattheimtu, ætlunin væri að fara dýpra ofan í vasa kjósenda og ná þaðan fé til að auka hlut ríkisins á kostnað einstaklinga. Þá greip Svanur til þess að afneita því, að þetta væri stefna fylkingarinnar og nefndi Ágúst Einarsson, alþingismann og 5. mann á lista fylkingarinnar í Reykjaneskjördæmi til sögunnar, minnir mig, að hann segði hann eina þingmanninn í þessari kosningabaráttu, sem hefði boðað skattalækkanir og gætu menn lesið það í Morgunblaðsgrein eftir Ágúst. Ég sagði þá, hvort líta ætti á Ágúst sem talsmann fylkingarinnar í skattamálum og hvort taka ætti meira mark á blaðagrein eftir hann en stefnuskrá fylkingarinnar, þar sem kynntar eru skattahækkanir í fimm liðum, hvort Svanur teldi orð Ágústs vega þyngra í þessu en Margrétar talsmanns. Vissulega væri erfitt að átta sig á talsmannakerfi fylkingarinnar en ég tæki meira mark á stefnu fylkingarinnar og Margréti talsmanni en Ágústi Einarssyni og væri furðulegt að heyra Svan flytja mál sitt á þessum forsendum. Þá brást Svanur þannig við að spyrja, hvað ég væri að gera þarna, hvort Davíð væri ekki talsmaður flokksins, hvort ég væri þá ekki marklaus að eigin mati. Fylkingarfólki á fundinum þótti prófessornum greinilega takast vel upp með þessari vitlausu athugasemd og klappaði honum lof í lóa, kannski hefur það viljað trúa því, að Ágúst Einarsson boðaði skattastefnu fylkingarinnar en hana væri hvorki að finna í stefnuskrá hennar né hjá Margréti talsmanni.

Ég lýsi þessu svona nákvæmlega hér vegna þess, að í Degi, 22. apríl, er sagt frá þessum orðaskiptum á allt annan veg. Birti ég þá frásögn til fróðleiks:

„Kosningafundur Félags stjórnmálafræðinga í Ráðhúsinu á þriðjudagskvöldið varð að köflum mjög líflegur. Fræðimennirnir Svanur Kristjánsson og Stefanía Óskarsdóttir lentu í mikilli rimmu þegar Svanur gerði athugasemd við þá „fræðimennsku“ Stefaníu að segja að hugmyndafræði Samfylkingarinnar byggði á Marxískum grunni og benti hann á að Stefanía væri í 11. sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Rimman leiddi til umræðu um meint vandræði Samfylkingarinnar vegna leiðtogaleysis og skaut Björn Bjarnason inn háðsglósum um að Samfylkingin ætti sér bara talsmann en engan leiðtoga. Svanur spurði á móti hvers vegna nauðsynlegt væri að hafa einn sterkan leiðtoga og hvað Björn væri þá að gera á fundinum (en ekki Davíð). Er óhætt að segja að þarna hafi skapast hávaðarifrildi af allt of sjaldséðri tegund....“

Varla hefur höfundur þessarar frásagnar verið á fundinum, hafi hann verið þar, fer hann ekki að ráðum Ara fróða að hafa það, sem sannara reynist. Það er gamalkunn aðferð hjá þeim, sem hafa lélegan málstað, að misnota heiðarleika andstæðinga sinna. Stefanía Óskarsdóttir er ekki að fela hvar hún stendur í flokki. Einmitt þess vegna leggur hún sig sérstaklega fram um að leggja hlutlæg rök fyrir stjórnmálafræðilegum skoðunum sínum eins og hún gerði á þessum fundi og var mun málefnalegri en Svanur Kristjánsson.