12.7.1998

Samfylking - Hvalfjarðargöng

Þegar ég las Morgunblaðið í morgun og níðbréfið, sem Indriði Aðalsteinsson frá Hólmavík ritaði um Davíð Odddsson forsætisráðherra, datt mér í hug, hvort það væru skrif af þessu tagi, sem yllu því, að aðeins 8% þjóðarinnar treystir Morgunblaðinu, hefur þetta hlutfall lækkað úr 11% um árið, þegar Hrafn Jökulsson komst þannig að orði, að álíka margir treystu blaðinu og kysu Alþýðuflokkinn. Nú getur að vísu enginn kosið Alþýðuflokkinn framar, því að hann úr sögunni í sinni gömlu mynd, orðinn að regnhlífarsamtökum alls kyns vinstrisinna á borð við fyrrgreindan Indriða, sem telur sér trú um, að þessi hugsjóna- og leiðtogalausa samfylking geti ýtt Sjálfstæðisflokknum til hliðar og er níðgrein hans um Davíð liður í því að styrkja stöðu samfylkingarsinna. Strandamaðurinn Hermann Jónasson ætlaði einnig að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar með hræðslubandalagi krata og framsóknarmanna 1956. Upp úr því kom fyrsta vinstri stjórnin undir forsæti Hermanns með þeim afleiðingum eftir rúm tvö ár, að kratar hlupu í fang sjálfstæðismanna og voru þar öll viðreisnarárin 1959 til 1971.

Samfylkingin undir stjórn þeirra Margrétar Frímannsdóttur og Sighvats Björgvinssonar hefur ekki farið vel af stað, þótt þau njóti stuðnings allra þriggja dagblaðanna, Dags, DV og Morgunblaðsins. Ekki er nóg með að Alþýðuflokkurinn sé að hverfa heldur er Alþýðubandalagið einnig orðið upplausninni að bráð. Ljóst er, að samfylkingarsinnar þar áttu ekki von á hinum harkalegu viðbrögðum Steingríms J. Sigfússonar. Þeir höfðu sannfærst um, að það yrði þeim aðeins til framdráttar, að Hjörleifur Guttormsson hyrfi úr flokknum, þeir vita hins vegar ekki, hvernig bregðast skuli við brotthlaupi hinna. Skipa þeir félagar sér vinstra megin við samfylkinguna.

Sérkennilegust er staða Svavars Gestssonar, þingflokksformanns Alþýðubandalagsins. Hann situr á girðingunni og virðist telja, að þingflokkurinn sé enn starfhæfur, þrátt fyrir að vera þverklofinn. Svavar kann að vera í erfiðari aðstöðu en ella vegna stöðu Guðrúnar Ágústsdóttur, eiginkonu sinnar, innan R-listans og meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, en Helgi Hjörvar, sem bar sigurorð af Guðrúnu í prófkjöri Alþýðubandalagsins vegna borgarstjórnarkosninganna, er helsti talsmaður samfylkingarinnar í fjölmiðlum. Þau Guðrún og Svavar lögðust gegn tillögunni um samfylkingu á landsfundi Alþýðubandalagsins á þeirri forsendu, að menn ættu að gefa sér meiri tíma. Er óskiljanlegt, þegar litið er til baka, að Margrét skyldi ekki fara að ráðum þeirra, sem vildu lengri tíma og draga þá þar með enn frekar inn á samfylkingarbrautina. Hafa Margréti verið mislagðar hendur í þessu máli og hún hefur ekki ráðið við það, eftir að landsfundinum lauk. Á Svavari sýnist ætla að sannast, að hika sé sama og tapa, því að hann hefur ekki grætt á því að sitja svona lengi á girðingunni, heldur skapar hann sér óvinsældir jafnt meðal þeirra sem styðja samfylkinguna og einnig hinna, sem fylgja Steingrími J.

Þeir, sem hafa fylgst með framgöngu Alþýðubandalagsins á Alþingi, vita, að án Steingríms J., Hjörleifs og Ögmundar er flokkurinn harla bitlaus, Svavar hefur vissulega gengið hart fram fyrir flokkinn, en frekar vegna þingstarfanna en málefna. Hann lét þó skólamál til sín taka, þegar ég lagði fram frumvarp um breytingar á svonefndum lögverndunarlögum kennara. Ræður hans þá báru þess vott, að hann fylgdist alls ekki vel með því, sem var að gerast á þeim vettvangi. Raunar eru alltaf öðru hverju umræður um, að Svavar hafi hug á að hverfa að öðru en stjórnmálum. Á sínum tíma sóttist hann eftir að verða ritstjóri Dags-Tímans, þegar einn helsti talsmaður samfylkingarinnar, Stefán Jón Hafstein, var ráðinn. Nú hefur Svavar verið orðaður við sendiherrastarf í Helsinki í DV, það er í þeim dálki blaðsins, Sandkorni, sem ritstjórarnir nota til að koma sjónarmiðum og óskum sínum á framfæri. Leggjast menn misjafnlega lágt í þessum dálki. Til dæmis var þar einhverju sinni snúið út úr ræðu, sem ég flutti hjá Íslensk-ameríska félaginu, var tilgangurinn greinilega sá að sanna fyrir lesendum, að ég kynni ekki ensku.

Hjörleifur Guttormsson og Svavar Gestsson hafa veitt nokkra innsýn inn í átakasögu Alþýðubandalagsins í blaðagreinum. Hjá báðum kemur fram, að Ólafur R. Grímsson hafi í formannstíð sinni ýtt undir innanflokksátök með því að stuðla að því að stofnuð yrðu mörg flokksfélög í sama kjördæmi, sem síðan tækjust á sín á milli. Þetta er sérkennileg herstjórnarlist í stjórnmálaflokki og sýnir enn, hve vinstrisinnar eru sundraðir og eiga erfitt með að starfa saman.