14.6.1998

Sagnfræði - RÚV

Eftir rúma viku verður efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu hér í Reykjavík um Norðurlöndin og kalda stríðið. Dr. Valur Ingimundarson sagnfræðingur hefur haft veg og vanda að því að koma þessari ráðstefnu á laggirnar og kalla þá saman sem hingað koma. Er ljóst, að í þeim hópi verða margir kunnustu sagnfræðingar í heimi á þessu sviði. Eftir lok kalda stríðsins og hrun Sovétríkjanna hafa menn orðið að endurmeta skoðanir sínar í mörgu tilliti og mun vafalaust margt fróðlegt koma fram á þessari ráðstefnu eða að minnsta kosti munu viðhorfin skýrast, því að fyrir þá, sem ekki eru innvígðir í umræður af þessu tagi, kann oft að vera erfitt að átta sig á skoðanaágreiningi eða blæbrigðum í framsetningu hinna færustu manna, sem hafa skoðað málinn ofan í kjölinn og metið verk hver annars í bókum og tímaritsgreinum. Verða ekki allir á einu máli, sem þarna koma saman.

Gagnrýni í fræðaheiminum getur tekið á sig ýmsar myndir og þar berjast menn ekki síður harkalega en á stjórnmálavettvangi. Gleymi ég aldrei umræðum um það efni, þegar ég var með Geir Hallgrímssyni forsætisráðherra í hádegisverði í sveitasetri breska forsætisráðherrans í Chequers, skammt fyrir utan London, í janúar 1976, en þá var Harold Wilson forsætisráðherra. Var boðið til málsverðarins í tengslum við viðræður ráðherranna um lausn á þorskastríðinu vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur. Fórum við þá í Downing stræti 10 og áttum fundi í fundarsal bresku ríkisstjórnarinnar, einnig til Chequers og loks í skrifstofu Wilsons í breska þinghúsinu. Alls staðar var þráttað um tonnatölur án þess að samningar tækjust. Í þessum málsverði snerust umræður um hörku í stjórnmálabaráttunni. Þá sagði Wilson, að það væri eitt, að takast á við menn á stjórnmálavettvangi, hitt væri þó öllu verra að glíma við þá innan háskólasamfélagsins, því að þar væri átökin miklu grimmari og harðvítugri, það gæti hann staðfest af eigin reynslu eftir að hafa starfað bæði sem háskólakennari og stjórnmálamaður.

Tímaritið Saga, sem Sögufélag gefur út, geymir marga ritdóma um rit sagfræðilegs efnis, sem gefin eru út á íslensku. Er almennt talið, að þetta sé eitt mest lesna efni ritsins, enda er oft skemmtilega á málum tekið í þessum ritdómum og brugðið nýju ljósi á ýmislegt eða bent á veika punkta í efnistökum höfundar. Þykir mönnum oft ekki síður fengur af því að lesa vel ígrundaðar aðfinnslur en rækilega rökstuddar kenningar eða niðurstöður af rannsóknum. Sjálfur fékkst ég talsvert við það á Morgunblaðinu að ritdæma bækur um samtímaefni, einkum ævisögur eða hreystisögur samtímanna. Var vafalaust oft fljótaskrift á því, sem fest var á blað í holskeflu jóla-bókaflóðsins. Þegar til baka er litið rifjast hins vegar upp, að á bókum eru til miklar upplýsingar um stjórnmálabaráttu áratuganna eftir 1970, sem eru festar á blað með það að leiðarljósi að skýra málstað, störf og afrek manna, sem líklega verða aldrei taldir hafa verið neinir megináhrifavaldar, þegar litið er á söguna í heild. Hins vegar kunna slíkar bækur að þjóna þeim tilgangi einum, þegar upp er staðið, að viðkomandi einstaklingar gleymist ekki með öllu við athugun á meginstraumþunga sögunnar og hverju menn áorkuðu í raun og veru, hver með sínum hætti.

Í nýjasta hefti Sögu minnir Einar Laxness sagnfræðingur, sem meðal annars hefur tekið saman Íslandssögu með alfræðisniði í þremur bindum, ómetanlegt hjálparrit, bæði höfunda sagnfræðibóka og ritdæmendur þeirra á nauðsyn þess að huga vel að hverju atriði, sem sett er á blað. Segir Einar, að hann hafi ákveðið að birta athugasemdir sínar um bókina Í Babýlon við Eyrarsund eftir að hann las jákvæðan ritdóm um hana í Sögu 1997. Færir Einar síðan ýtarleg rök fyrir þeirri skoðun sinni, að betur hefði mátt fara og getur lesandi greinar hans ekki annað en tekið undir með honum. Ekki er unnt að gera þá kröfu til gagnrýnanda í kapphlaupi við tímann fyrir jól, að hann liggi yfir bókum með sama hætti og Einar hefur gert í þessu tilviki. Á hinn bóginn hafa gagnrýnendur alltaf sinn heiður og trúverðugleika að verja ekki síður en höfundurinn sjálfur og gerðar eru aðrar kröfur til þeirra, sem skrifa ritdóma í tímarit á borð við Sögu eða í dagblöð. Raunar er ástæða til að sakna þess, hve dagblöðin gera lítið af því að nota bækur til þess að vekja upp almennar umræður um samtímann eða fortíðina. Finnst mér minna gert af því hér en í erlendum blöðum. Hér er þetta allt með töluverðum afgreiðslublæ í blöðum, birtir eru kaflar úr bókum fyrir jól, skylduviðtöl við höfunda, þar sem gætt er að dálksentimetrar séu svipaðir í hverju tilviki, og síðan ritdómar í hraðriti og látið þar við sitja.

Þegar ný tíðindi gerast er sjaldgæft, að vitnað sé í bækur til að skoða málflutning þeirra, sem kveða sér hljóðs. Nú hafa þeir til dæmis báðir gengið fram á stjórnmálavöllinn Sverrir Hermannsson og Matthías Bjarnason, sem sendu frá sér ævisögubækur, þegar þeir kvöddu stjórnmálin og þingflokk sjálfstæðismanna. Þessar bækur ber frekar að líta á sem langa blaða- eða tímaritsgrein en sagnfræðirit byggð á rannsóknum, þær lýsa skoðunum söguhetjunnar á mönnum og málefnum en veita ekki endanlega vitneskju um allar hliðar mála.

Indriði G. Þorsteinsson skráði sögu Sverris Hermannssonar eftir honum sjálfum. Þar segir hann meðal annars frá aðdraganda þess, að hann var bankastjóri með þessum hætti:

"Þess ber að geta, að það var ekki Þorsteinn Pálsson fyrst og fremst, sem myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks í júlíbyrjun 1987. Aðaldriffjaðrir þeirrar stjórnarmyndunar voru ritststjórar Morgunblaðsins, Matthías og Styrmir; Matthías með kunningsskap sínum við Steingrím Hermannsson og Styrmir með vinskap og venslum við Jón Baldvin Hannibalsson.

Ef þetta þykja tíðindi er rétt að svo merkilegar sögulegar staðreyndir bókist. Svo aðgangsharðir voru ritstjórarnir í málinu, að þeir brugðust ókvæða við þegar þeir fengu ekki að ráða öllum ráðherralista Sjálfstæðisflokksins og Matthías Á. Mathiesen slapp inn í Samgönguráðuneytið að óvilja þeirra, eins og lesa mátti í leiðara Morgunblaðsins. Ég vil taka fram, að ég var eins og þeir ritstjórar mjög eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að mynda þá ríkisstjórn og undir forystu Sjálfstæðisflokksins. En frekar en þá óraði mig ekki fyrir að hún fengi þann ömurlega endi, sem raun varð á 14 mánuðum síðar.

Sverrir undi sér orðið illa í pólitíkinni og vann sér til frægðar að sofna á framboðsfundi, eins og áður hefur verið getið. Honum fannst að hann væri orðinn fyrir þeim sem vildu stjórna sjálfir. Svo kom að því strax í ágúst 1987 að ljóst varð að bankastjórastaða í Landsbankanum myndi losna. Þá varð að ráði að Sverrir sótti um þá stöðu. Það mætti auðvitað andstöðu.

Eins og alls staðar þar sem ég er á ferðinni, sagði Sverrir. Ég á mína hörðu mótstöðumenn og ég hef ekki kunnað því illa að longmolla væri engin í kringum mig. Ég er ekki langrækinn eða heiftrækinn. Fjarri lagi. Það var ráðið mál að ég færi í Landsbankann. Ég vara bara svona statisti í pólitíkinni þennan síðasta vetur á þingi. Ég sagði af mér þingmennsku 17. maí 1988 og byrjaði í bankanum. Þetta var 95. afmælisdagur föður míns, en hann lést tæplega 89 ára í nóvember 1981."

Þannig lýsir Sverrir brottför sinni úr stjórnmálunum fyrir 10 árum. Nú segist hann vilja koma aftur í pólitíkina, þótt hann hafi verið farinn að sofna á framboðsfundum. Hann hefur ritað svo magnaðar greinar í Morgunblaðið, að mörgum þykir nóg um heiftina. Blaðið telur Landsbankamálið svonefnda "eitt mesta mál, sem upp hefur komið á síðari helmingi þessarar aldar í íslenzku þjóðlífi" eins og það var orðað í Reykjavíkurbréfi, sem birtist 7. júní sl. Er það svo? Vissulega eru það stórtíðindi, að þrír bankastjórar segi af sér við þessar aðstæður. Spurning er hins vegar, hvort ekki verði litið á mál þessara þriggja einstaklinga og blaðaskrifin vegna þeirra sem storm í vatnsglasi. Mestu skiptir að sjálfsögðu, hvernig og hvenær tekst að breyta Landsbankanum úr ríkisfyrirtæki í einkafyrirtæki. Það eru stórtíðindin en ekki hitt, að það gusti um Sverri Hermannsson. Hann hefur aldrei viljað hafa neina lognmollu í kringum sig.

Góð blöð eiga að vera góðar heimildir um það, sem er að gerast. Hér eins og annars staðar hafa menn hins vegar hvað eftir annað deilt um þær áherslur, sem ritstjórar eða fréttastjórar leggja á einstök mál eða hvernig þau eru á borð borin. Ýmsum þykir til dæmis Morgunblaðið hafa lagt alloft mikið rými undir Landsbankamálið. Dálksentimetrar í blaði á líðandi stundu segja ekkert um það, hvernig sagan dæmir viðkomandi atburði. Síðari tíma menn geta þvert á móti orðið enn meira undrandi en samtímamenn yfir því, hvers vegna eitthvert mál fær slíka fjölmiðlaathygli eða hvers vegna einhverjum einstaklingi er hampað með sérstökum hætti. Síðan ræðst traustið til fjölmiðla og þeirra, sem í þá rita að sjálfsögðu af því, sem þeir segja og hvernig þeir setja það fram. Af lestri blaða má til dæmis ráða, að einhverjir telja, að Davíð Oddsson hafi gert Sverri að bankastjóra, eftir að Davíð varð formaður flokksins 1991. Þannig verður grein Guðmundar Andra Thorssonar í DV 13. júní varla skilin á annan veg en þann. Hefði Guðmundur Andri kynnt sér sögu Sverris, áður en hann festi þetta á blað hefði hann varla dottið í þennan pytt. Nema tilgangurinn hafi ekki verið að hafa það, sem sannara reynist? Í þeim anda geta menn auðvitað ritað um sagnfræðileg efni bæði í bækur og blöð. Þá kemur að gagnrýnendum eða öðrum að benda á hið rétta og það gerir Einar Laxness með eftirminnilegum hætti í Sögu 1998 og minnir okkur alla, sem ritum um samtímann og söguna án skáldaleyfis á nauðsyn þess að virða staðreyndir, viljum við vera trúverðugir og trausts verðir. Við getum síðan lagt út af staðreyndunum hver með sínum hætti.

Í tilefni af ráðstefnunni um Norðurlöndin og kalda stríðið hefur komið fram, að hér er vaxandi áhugi á sagnfræði hjá ungu fólki. Er það gleðilegt, því að full þörf er á því að efla hér áhuga og skilning á nauðsyn þess, að fjallað sé um mál í stærra samhengi en með stundaratburði eða fjölmiðlarispur í huga. Á tímum kalda stríðsins var alið á því af andstæðingum stefnunnar í utanríkis- og varnarmálum, að staðið hefði verið að mótun hennar og framkvæmd með sviksamlegum undirlægjuhætti. Rannsóknir sýna hið gagnstæða og nú gefst einstakt tækifæri til að skoða þennan málatilbúnað allan í nýju ljósi og með ný sagnfræðileg gögn sér til halds og trausts.

------

Umræðurnar um RÚV halda áfram í Degi. Þar kemur fram, að framsóknarmenn líta á sig sem vini RÚV, eins og það er orðað, hvað sem í þeirri vináttu felst. Jafnframt er gefið til kynna, að sjálfstæðismenn séu óvinveittir RÚV. Má segja, að ég hafi verið kominn milli tveggja elda. Annars vegar eru þeir í Sjálfstæðisflokknum, sem vilja, að RÚV sé selt. Hins vegar hafa þeir verið í Framsóknarflokknum, sem snúast gegn öllum hugmyndum um breytingar á RÚV og telja, að með tali um þær sé meira að segja verið að vega að stofnuninni. Þar hefur Gissur Pétursson, annar fulltrúi framsóknarmanna í útvarpsráði og varaformaður þess, verið fremstur í flokki.

Í Degi birtist fimmtudaginn 10. júní viðtal við Árna Gunnarsson, formann Sambands ungra framsóknarmanna (SUF), þar sem segir, að um þessa helgi muni SUF halda upp á 60 ára afmæli sitt og ætlunin sé að beina spjótum (svo!) sínum að málefnum RÚV. Segir Árni, að RÚV sé undir "pólitískum járnhæl Sjálfstæðisflokksins og sú starfsaðstaða sem dagskrárgerðarfólki og fréttamönnum er boðið upp á, er óviðunandi. Við erum að leita leiða til að komast út úr þessu. Eitt af því sem okkur dettur í hug er að Ríkisútvarpinu verði breytt í almenningshlutafélag, þar sem útvarpið yrði fært þjóðinni að gjöf að hluta eða öllu leyti með því að senda hlutabréfin heim til landsmanna."

Árni Gunnarsson vann formannskjörið í SUF með einu atkvæði. Í fréttum var hins vegar sagt, að allt logaði í illdeilum meðal ungra framsóknarmanna og ásakanir gengju manna á milli um kosningasvik. Ég bíð nú spenntur eftir því, hvort niðurstaðan hafi orðið sú hjá ungum framsóknarmönnum, að einkavæða eigi RÚV að tillögu formanns þeirra. Þarna kann hann nefnilega að hafa dottið ofan á skynsamleg leið, sem skoða megi betur. Sé hún til þess fallin að skapa sátt um RÚV við gjörbreyttar og nýjar aðstæður bæði tæknilegar og á fjölmiðlamarkaði, má ekki ýta henni frá sér að óathugðu máli. Vandinn í sambandi við breytingar á RÚV hefur hingað til verið sá, að það hefur ekki skapast nægilega breið pólitísk samstaða um neitt úrræði.