3.1.1998

Við áramót

Nýtt ár er gengið í garð. Við upphaf þess færi ég lesendum þessara pistla farsældar á árinu 1998 og þakka þeim samfylgdina á liðnum árum. Sérstaklega vil ég þakka Miðheimamönnum, sem gera mér kleift að halda þessari síðu úti.

Er þetta fjórða árið, sem pistlar af þessu tagi birtast hér á síðunni. Ég veit ekki, hve margir hafa skoðað þá en vona, að þeir séu einhverjum fleirum til ánægju en sjálfum mér. Vegna úthaldsins eru þessir vikulegu pistlar orðnir að einskonar opinberri dagbók um ráðherrastörf mín og ættu sem slíkir að gefa nokkra mynd af því, sem í því felst að gegna slíku embætti. Vil ég þó árétta, sem ég hef áður sagt, að hér er sagt frá þeim störfum, sem snúa út á við en ekki greint frá fundum, einkasamtölum, samkvæmum, afmælum og jarðarförum, svo að nokkuð sé nefnt. sem haldið er utan síðunnar. Frá upphafi hef ég litið þannig á, að hér sé ekki um vikubréf til annarra að ræða heldur hugleiðingar fyrir sjálfan mig, sem aðrir hafa fulla heimild til að kynna sér.

Ég veit ekki, hve margir stjórnmálamenn nota netið með þessum hætti. Hér á landi hef ég ekki orðið var við neinn. Frá Norðurlöndunum eru síður þeirra Carls Bildts, leiðtoga hægriflokksins í Svíþjóð, og Uffe-Ellemanns Jensen, leiðtoga Venstre í Danmörku, þekktar. Carl Bildt hefur póstlista og geta menn skráð sig á hann og fengið vikubréf hans sent á tölvuna sína. Ég myndi rita slíkt bréf með öðru hugarfari en pistil, sem menn gera sér ferð til að skoða.

Ýmsum finnst líklega ekki við hæfi, að stjórnmálamenn noti netið með þessum hætti. Sérstaklega á þetta þó við um þá, sem sæta gagnrýni viðkomandi stjórnmálamanna. Er þá gripið til þess að segja, að það sæmi þeim ekki að láta skoðanir sínar í ljós með þessum hætti. Þetta er fráleitt sjónarmið. Stjórnmálamenn eru dæmdir með orðum, í ræðu og riti. Á hverjum tíma hljóta þeir, að nota þann miðil, sem þeir kjósa til að lýsa sjónarmiðum sínum. Hitt er annað mál, hvort menn eru sammála þeim eða ekki. Stjórnendur hefðbundinna fjölmiðla hafa ef til vill horn í síðu þessarar nýju leiðar til almennings, vegna þess að hún liggur ekki um skrifborðið hjá þeim.

Á síðasta ári birti ég 48 pistla, þannig að ég náði ekki að skrifa þá vikulega. Á síðunni, sem geymir ræður menntamálaráðherra, er 61 lína, sem vísar til þess, sem ég hef sagt við ólík tilefni á árinu 1997 eða skrifað í blöð. Mér sýnist, að á síðunni séu allar ræður, sem ég hef flutt af blöðum á árinu. Hins vegar segir það alls ekki allt um ræður mínar og ávörp, því að vafalaust eru þau ekki miklu færri, sem flutt eru blaðalaust. Þá eru síður en svo allar greinar eftir mig birtar á þessari vefsíðu, til dæmis enginn pistlanna um erlend málefni, sem ég ritaði í DV á síðasta ári. Þegar á þetta allt er litið, er kannski ekki að undra, að stundum sé spurt, hvort ekki sé nóg að gert í þessu efni og ástæða til að halda að sér höndum. Líklega má segja, að það sé mér nokkur ástríða að skrifa um málefni líðandi stundar, bæði innlend og erlend, og ég fái útrás fyrir hana með þessum hætti. Raunar starfaði ég við þetta í 12 ár á Morgunblaðinu og enn eimir eftir af þeirri áráttu, sem mótaðist þar, að fjalla um efnistök fjölmiðla og segja einkum löst á þeim, en á Morgunblaðinu, þótti mér ekki síst skemmtilegt að skrifa Staksteina, en á þeim tíma gátu menn sýnt þar hóflegt gáleysi (nú hefur dálknum verið breytt í úrklippudálk). Sjá menn það líklega við lestur pistla minna, að fjölmiðlar eru stöðugt umræðuefni. Á vettvangi blaðanna hefur þróunin orðið þannig, að þau skrifa hvert fram hjá öðru frekar en deila sín á milli. Er það mikið frávik frá hefðum í blaðaútgáfu hér á landi.

Við sátum nokkrir félagar um daginn og ræddum um liðið ár, áramótahugleiðingar landsfeðra og framtíðina. Vorum við sammála um, að hið mikla upplýsingaflæði og stöðugur aðgangur að upplýsingum ylli því, að ekki væri með sama hætti og áður unnt að slá því föstu, að einn atburður væri minnisstæðari en annar. Við búum einnig við það frekar en áður, að menn eru hættir að gera mun á því, sem miklu skiptir, og hinu, sem er lítils eða einskis virði, þegar skýrt er frá atburðum.

Mér dettur í hug í þessu sambandi, að um þetta leyti á síðasta ári, voru margir, sem töldu, að stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri einkum ógnað vegna ósamkomulags um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Var þá rætt um, að ég yrði sem menntamálaráðherra að beygja mig undir vilja forsætisráðherra og utanríkisráðherra og leggja fram lagafrumvarp, sem gengi þvert á orð mín og stefnu. Reyndin varð önnur. Samkomulag náðist milli stjórnarflokkanna um málefni LÍN á forsendum að mínu skapi. Lögum LÍN var breytt og sjóðurinn starfar nú friðsamlega samkvæmt þeim og við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998 kom í ljós, að með góðri stjórn á sjóðnum, skynsamlegum skuldbreytingum og öðrum aðgerðum hefur tekist að halda vel á fjármálum sjóðsins og lánsþörf hans minnkar en eykst ekki. Enginn minnist heldur á LÍN um þessi áramót og engar umræður eru um hann á Alþingi, en síðan 1991 hafði sjóðurinn verið eitt helsta hitamál íslenskra stjórnmála.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur segir í áramótapistli í DV 3. janúar um hvatningu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í áramótaávarpi sínu um þjóðarátak gegn eiturlyfjum: "Ég er viss um að herra Ólafur Ragnar Grímsson verður tekinn á orðinu og ótal nefndir og ráð munu gefa sig fram og biðja um fjárframlög." Raunar mátti sjá merki um þetta í Degi strax þennan sama dag, því að Þórarinn Tyrfingsson, læknir hjá SÁA, segir að auka þurfi forvarnarsjóð úr 50 í 500 milljónir króna. Að sjálfsögðu gefur það alls ekki rétta mynd af stöðu mála að láta eins og stjórnvöld hafi ekkert gert til að sporna við þessum vágesti. Á árinu 1997 var einmitt gengið til verks með nýjum hætti í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Þá hefyr verið stofnað til ýmiss konar samstarfsverkefna. Í áramótaskaupi sjónvarpsins var sagt, að málið væri leyst, af því að Ísland ætti að verða fíkniefnalaust árið 2002 samkvæmt opinberri áætlun og átaki! Forvarnarstarf skiptir vissulega miklu. Hef ég til dæmis kynnst því, hvernig Jafningjafræðslu framhaldsskólanema hefur tekist að virkja tugi og hundruð ungmenna í forvarnastarfi og haft samand við mörg þúsund skólanema um allt land. Að lokum skiptir þó mestu, sem Einar Már nefndi í pistli sínum, að veita æskulýð landsins andlega birtu. Einar Már segir : "Kynslóðirnar þurfa að miðla menningunni hver til annarrar. Það þarf að opna hugann, virkja stóriðjuna í kollinum, efla smáiðnað andans."

Fyrsta opinbera embættisverk mitt á nýju ári var að flytja ræðu ) á fyrsta starfsdegi nýs Kennaraháskóla Íslands, þar sem fjórir skólar eru sameinaðir í einn háskóla. Í þessum skóla verður miðstöð menntunar fyrir þá kennara í leikskólum og grunnskólum, sem móta munu hugarfar ungra Íslendinga. Nýi skólinn er hinn fyrsti sem starfar á grundvelli nýrra laga um háskóla, sem gengu í gildi 1. janúar 1998 og marka þáttaskil í þróun háskólastarfs í landinu. Það er tekið úr viðjum einstakra stofnana og á nú að þróast samkvæmt almennum kröfum, sem taka mið af alþjóðlegum námskröfum. Í umræðum um þessar mikilvægu lagabreytingar hefur athyglin beinst að einstökum framkvæmdaatriðum að því er varðar ákvæði um að ráðherra skipi rektor og tilnefni tvo menn í háskólaráð. Á fyrsta starfsdegi nýja Kennaraháskóla Íslands ræddu menn þó ekki um þessi atriði heldur hitt, sem meira skiptir, að háskólamenntun verði sem víðtækust hér á landi og hún þróist í samræmi við strangar kröfur í öflugum, sjálfstæðum skólum.

Bent hefur verið á, að í áramótaræðum sínum hafi Davíð Oddsson forsætisráðherra og Ólafur Ragnar Grímsson verið að öndverðum meiði í afstöðu sinni til umhverfismála. Í sjálfu sér er of fast að orði kveðið að segja, að málum sé þannig háttað, því að í umhverfismálum hafa allir sama markmið, að hlú að náttúrunni til lands og sjávar og koma í veg fyrir að líf eyðist á jörðunni vegna mengunar andrúmsloftsins. Ég tek hins vegar heilshugar undir með Davíð, þegar hann varar við heimssplitaspámönnunum og segir : "Menn verða að fara afar sparlega með stórslysaspárnar og forðast að skapa ótta hjá fólki með vísun til fræða, sem byggja á veikum grunni." Ólafur Ragnar ítrekaði hins vegar stórslysaspárnar með því að vitna í bandarískan vísindamann, sem hefði sagt, að vegna loftslagsbreytinga yrði Ísland þakið jöklum allt til stranda og við íbúar þess yrðum að yfirgefa það. Ólafur Ragnar sagði: "Þessi lýsing er ekki heimsendaspá eða efnisþráður í skáldlega hryllingssögu heldur kjarninn í vísindalegum niðurstöðum fræðimanna sem skipa hina formlegu ráðgjafasveit ríkja heims, niðurstöðum sem lýsa því sem gæti hafist á æviskeiði þeirra Íslendinga sem nú eru börn í skóla."

Í síðasta pistli sagði ég, að bókin um Einar Benediktsson vekti spurningu um átakaás í íslenskum stjórnmálum, það er um varðveislu þjóðernis og þátttöku í alþjóðasamstarfi. Hinar ólíku áherslur Davíðs og Ólafs Ragnars minna á annan átakaás í stjórnmálum, milli borgaralegra íhaldsmanna annars vegar og sósíalískra vinstrisinna hins vegar. Íhaldsmenn aðhyllast almennt ekki heimsslitastefnu og sagan hefur sem betur fer hingað til sannað réttmæti skoðana þeirra!

Bendi ég mönnum til dæmis á að lesa prýðilega úttekt á þessum málum í jólahefti vikuritsins The Economist. Þar segir meðal annars í upphafi: "Í þessari grein er því haldið fram, að hrakspár í umhverfismálum, þar á meðal hinar nýjustu, hafi reynst svo hrikalega ótraustar, að menn ættu að taka þeim af varúð í stað þess að lepja þær upp með góðri lyst. Vegna eigin hagsmuna munu þrýstihópar, blaðamenn og framagosar áreiðanlega halda áfram að bjóða umhverfisstórslys af jafnmiklum ákafa. Þótt einkennilegt sé virðist þetta fólk telja það sér til tekna, að það hefur undantekningarlaust haft rangt fyrir sér til þessa, og telur það raunar sanna, að það hafi líklega rétt fyrir sér í framtíðinni. Fyrir okkur hin er best að rifja upp, þegar við heyrum næstu heimsslitum spáð, hvað í ósköpunum varð um hin síðustu."

Sósíalistar eru gjarnan með stórslys á vörunum og nota spár um þau til að réttlæta forsjárhyggju og hvers kyns afskipti af einkahögum manna. Má til dæmis minnast deilnanna um kjarnorkuvopnin frá því fyrir tveimur áratugum, þegar látið var í veðri vaka, að yrðu settar upp meðaldrægar bandarískar kjarnaflaugar í Evrópu til mótvægis við hinar sovésku og yrði Ronald Reagan kjörinn forseti Bandaríkjanna væri næsta víst, að til kjarnorkustyrjaldar kæmi og síðan heimsslita. Ekkert af þessu gekk eftir. Umræðurnar höfðu hins vegar þau áhrif á suma námsmenn, að þeir sáu ekki ástæðu til að halda áfram háskólanámi, því að það tæki því ekki vegna yfirvofandi heimsendis og má vísa til Stúdentablaðsins til að finna þessum orðum stað. Við skulum vona, að spár um Ísland sem íshellu verði ekki til þess að draga úr námsáhuga barna, sem nú sitja í íslenskum skólum.