18.11.1997

Góðir gestir - Akureyrarferðir - stúdentafundur

Undanfarnir dagar hafa verið óvenjulega annasamir bæði vegna fundahalda, gesta og ferðalaga. Verður þessi pistill því lítið annað en dagbókarbrot, enda frá litlu að segja nema því, sem á dagana hefur drifið.

Síðdegis laugardaginn 8. nóvember fórum við Rut á tónleika hjá Fóstbræðrum í Hallgrímskirkju.

Að kvöldi sunnudagsins 9. nóvember efndum við til kvöldverðar heima hjá okkur fyrir Robert S. Harrison, menntamálaráðherra í Nova Scotia í Kanada, eiginkonu hans og aðstoðarmann, en þau voru að koma frá Svíþjóð og höfðu áður verið á UNESCO-aðalráðstefnunni í París. Erindi hans hingað var að kynna áhuga þeirra í Nova Scotia á því að efla samstarf við Íslendinga í menntamálum og vísindum. Er ljóst, að flug Flugleiða til Halifax hefur skapað alveg nýjar forsendur fyrir samstarfi á milli landanna. Þá hafa þeir í nokkrum fylkjum Kanada mótað sér nýja stefnu fyrir háskóla, sem felst í því að efla þá sem fyrirtæki og markaðssetja skólana með nýjum hætti. Hófst þetta á vesturströndinni í British Columbia og hefur verið að færa sig til fleiri fylkja vegna þess, hve góða raun þetta hefur gefið þar. Sat ráðherrann meðal annars fund með stjórnendum skóla á háskólastigi, sem Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, stóð fyrir. Er ljóst, að í þessu máli eru ýmsir möguleikar, sem vert er að kanna fyrir okkur.

Eftir að hafa borðað saman fórum við á tónleika Kammermúsikklúbbsins í Bústaðarkirkju. Var þar fullt hús að venju og sýndu tónleikagestir listamönnunum mikið þakklæti í lokin og sýndist mér hinir kanadísku gestir njóta þess vel að fá að kynnast þessari hlið íslenskrar menningar.

Síðdegis mánudaginn 10. nóvember fór ég í Námsflokka Reykjavíkur og afhenti Guðrúnu Halldórsdóttur og samstarfsfólki hennar viðurkenninguna frá Hamborg og 10 þúsund marka ávísun, en Námsflokkarnir fá þetta úr þýska sjóðnum Kinder helfen Kinder fyrir nýbúafræðslu fyrir börn. Klukkan 18. vorum við Rut síðan í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem Vigdís Finnbogadóttir las úr Egilssögu við upphaf norrænnar bókasafnsviku.

Síðdegis þriðjudaginn 11. nóvember fórum við Ásdís Halla í heimsókn í Viðskipta- og tölvuskólann, þar sem Jón Árni Rúnarsson sýndi okkur hina glæsilegu starfsaðstöðu hans við Faxafen. Hef ég æ sterkari sannfæringu fyrir því, að skynsamlegt sé að fela einkaaðilum í eins ríkum mæli og kostur er að annast tölvukennslu og æskilegt sé fyrir einstaka skóla að semja við þá. Breytingarnar eru svo örar á þessu sviði, að nýjar leiðir þarf að fara til að nýta sér nýjungar til fullnustu.

Eins og venjulega voru viðtöl hjá mér miðvikudagsmorguninn12. nóvember. Tekst mér enn að halda þannig á málum, að ekki er um óralangan biðlista að ræða og sjaldan þurfa þeir, sem óska eftir að hitta mig, að bíða lengur en tvær til þrjár vikur eftir viðtali.

Síðdegis þennan miðvikudag fórum við Rut í Þjóðarbókhlöðuna, þar sem Eyvindur Pétur Eiríksson rithöfundur hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness á vegum Vöku-Helgafells hf.

Síðdegis fimmtudaginn 13. nóvember flaug ég norður á Akureyri og flutti þar setningarávarp á ráðstefnu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands um vetraríþróttir. Flaug ég til baka um kvöldið og var þá svo óheppinn, að það var tveggja tíma seinkun hjá Flugleiðum vegna vélarbilunar.

Klukkan 9 föstudagsmorguninn 14. nóvember ( þann dag varð ég 53ja ára) flutti ég ræðu við upphaf þings Hins íslenska kennarafélags. Þaðan fór ég beint á ríkisstjórnarfund og síðan klukkan 12 á hádegi í Háskóla Íslands, þar sem Stúdentaráð Háskóla Íslands boðaði til fundar undir fyrirsögninni: Kúvending í menntamálum og vísaði þar til frumvarps til laga um háskóla, sem ég hef lagt fram á Alþingi. Auk formanns SHÍ vorum við Páll Skúlason rektor framsögumenn á fundinum, sem haldinn var í stofu 101 í Odda og var stofan þétt setin. Ég er undrandi á málflutningi formanns SHÍ um þetta mál og tel hann tala á röngum forsendum, enda felst engin kúvending í menntamálum í þessu frumvarpi. Ágreiningsefnin varða stjórnsýslu háskóla, en staðreynd er, að þörf er á nýrri skipan í Háskóla Íslands. Höfum við Páll Skúlason rætt ítarlega um alla þætti þessa máls og tel ég, að ekki sé um þann ágreining að ræða í því, sem ekki sé unnt að brúa. Kom það raunar fram á þessum fundi og finnst mér málflutningur Röskvumanna í þessu máli bera gamalkunnan keim af viðleitni þeirra til að koma pólitísku höggi á menntamálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum án tillits til málefnalegra raka, enda báru sumar spurningar Röskvumanna á fundinum þess merki, að þeir vildu gera hlut okkar sjálfstæðismanna sem verstan. Allt var það heldur á veikum grunni og hjáróma. Hafði ég gaman af því að sitja þennan fund og rökræða frumvarpið, því að eftir því sem það er meira rætt kemur betur í ljós, hve vel hefur tekist til við gerð þess.

Klukkan 14.00 þennan föstudag var ég kominn í Perluna til að opna tölvusýningu þar, sem efnt var til undir heitinu Tækni-lífstíll. Var þar ýmislegt forvitnilegt að sjá fyrir þá, sem vilja nýta sér tölvutæknina til hins ýtrasta.

Klukkan 15.30 var fundur í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík í Höfða.

Klukkan 11 laugardaginn 15. nóvember hófst málræktarþing Íslenskrar málstöðvar á Hótel Sögu, flutti ég ræðu þar og opnaði orðabanka málstöðvarinnar, sem er ómetanlegt hjálpartæki fyrir þá, sem vinna með íslenska tungu.

Um kvöldmatarleytið flugum við Rut til Akureyrar og fórum um kvöldið og sáum Hart í bak hjá Leikfélagi Akureyrar, gistum síðan á Hótel Kjarnalundi, sem opnað var í Kjarnaskógi þessa helgi vegna þess, að öll önnur hótel í bænum voru full.

Sunnudaginn 16. nóvember var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í annað sinn á 190 ára afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Við vorum komin rúmlega 10 um morguninn á Akureyrarflugvöll til að taka á móti gestum okkar frá Reykjavík. Fórum við síðan undir leiðsögn Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, og skoðuðum hið nýja og glæsilega bókasafn skólans, þaðan síðan í Davíðshús og Sigurhæðir, þar sem Matthías Jochumsson bjó. Þar er Erlingur Sigurðarson nýtekinn við sem forstöðumaður sýndi hann okkur húsið og lauk dvöl okkar þar með því að hann flutti Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar fyrir okkur blaðalaust og sagðist hafa lært kvæðið af föður sínum fimm ára.

Ég hvarf frá hádegisverði í Fiðlaranum á þakinu upp í Háskólann á Akureyri aftur og settist þar fyrir framan gagnvirkt sjónvarpstæki, sem sýndi frá athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem verið var að kynna vefsíðu um Jónas Hallgrímsson, sem er í bókasafni Wisconsin-háskóla í Madison í Bandaríkjunum. Af þessu tilefni bauð menntamálaráðuneytið þeim dr. Richard (Dick) Ringler, höfundi síðunnar, og Kenneth Frazier yfirbókaverði til landsins. Fluttu þeir báðir ræður í Þjóðarbókhlöðunni en það kom í minn hlut að opna síðuna formlega frá Akureyri og ávarpa gesti í Reykjavík og einnig í Madison í gegnum hið gagnvirka sjónvarp. Gekk það allt að óskum, þótt við hefðum ekki heyrt neitt af því, sem gerðist fyrir sunnan á Akureyri, af því að tæknimenn í Reykjavík höfðu slökkt á hljóðnemanum þar, því að í upphafi samkomunnar heyrðist skvaldur í okkur fyrir norðan og einhverjar setningar, sem trufluðu áhreyendur. Í stað þess að slökkva aðeins á okkur, var allt hljóðsamband rofið. Þegar ég byrðjaði að tala endurómuðu orð mín norður sekúndu eftir að ég hafði sagt þau, sem fipaði mig, þar til skrúfað hafði verið niður í endurvarpinu.

Klukkuna vantaði aðeins nokkrar mínútur í þrjú þegar ég hafði lokið ávarpi mínum, hlupum við þá út í rútuna og héldum beint í Menntaskólann á Akureyri, þar sem athöfn hófst klukkan 15.00 á sal skólans. Þar flutti ég ræðu í tilefni dagsins og afhenti síðan Gísla Jónssyni verðskuldum verðlaun vegna framlags hans til íslenskrar tungu. Þá afhenti ég Sigurði Líndal, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, og Sverri Kristinssyni bókaverði félagsins viðurkenningu fyrir framlag bókmenntafélagsins til varðveislu íslenskrar tungu.

Síðan fórum við í Nonnahús og snæddum loks kvöldverð í Gamla lundi, áður við tókum flugvélina til Reykjavíkur rétt fyrir klukkan 21.

Að kvöldi mánudagsins 17. nóvember buðum við Rut Dick Ringler og Kenneth Frazier til kvöldverðar á heimili okkar. Var ánægjulegt að ræða við þá og er ótrúlegt hve Ringler er vel að sér um Jónas og Ísland, auk þess sem hann setur Jónas skemmtilega í evrópkst samtíma- samhengi.

Síðdegis þriðjudaginn 18. nóvember fór ég í Kramhúsið og afhenti forráðamönnum þess viðurkenningu frá Hamborg fyrir starf með ungmennum, sem nutu meðferðar að Tindum.

Eins og af þessu má sjá hafa dagarnir verið viðburðaríkir undanfarið. Meðal ákvarðana sem ég hef tekið má nefna, að með bréfi dags. 14. nóvember heimila ég Ríkisútvarpinu að flytja alla starfsemi sína í Efstaleiti.