12.10.1997

Prófskjörsbarátta - Tævanheimsókn

Sjálfstæðismenn í Reykjavík eru nú að hefja undirbúning borgarstjórnarkosninganna með prófkjöri, sem fer fram eftir tvær vikur. Frambjóðendur eru hver af öðrum að opna skrifstofur sínar. Vekur það skemmtilegar minningar að heimsækja þá og sjá hvernig ýtt er úr vör en einnig minnir það á að ekki næst árangur á þessu sviði frekar en öðrum án verulegs átaks. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og þeir, sem ekki hafa tekið virkan þátt í prófkjöri á hans vegum, eiga mjög erfitt með að átta sig á því, hve umfangsmikið er að ná til þeirra að minnsta kosti 14.000 kjósenda, sem eiga kosningarétt í prófkjörinu, auk þess sem fleiri geta tekið þátt í því með því að innrita sig í flokkinn. Tvisvar sinnum hef ég gengið í gegnum þessa baráttu. Í fyrra skiptið þótti sumum djarft leikið með því að sækjast eftir þriðja sætinu og í síðara skiptið var hart barist um sætið. Frambjóðandinn verður sjálfur að vera virkur í baráttunni til að hún skili því, sem að er stefnt og hann verður jafnframt að fá mjög breiðan hóp ötulla stuðningsmanna til liðs við sig.

Það hefur glatt mig að sjá, hve vinstrisinnar hafa brugðist illa við sumum þeirra, sem sækja nú fram undir merkjum Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sinn. Nefni ég þar sérstaklega þau Baltasar Kormák, Eyþór Arnalds, Ágústu Johnson og Júlíus Vífil Ingvarsson. Allt eru þetta einstaklingar, sem hafa hver á sínu sviði getið sér gott orð og koma með mikilvæga, nýja reynslu inn í borgarstjórnina. Öll eiga þau erindi til að gæta hagsmuna borgarbúa í sameiginlegri stjórn þeirra. Það hefur örlað á gamla hrokanum í sumum skrifum og ummælum vinstrisinna, það er að mennta- og listamenn eigi ekkert erindi í stjórnmál undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Reynsla mín sem menntamálaráðherra af samskiptum við Reykjavíkurborg undir stjórn R-listans segir mér á hinn bóginn, að þar ljómi ekki allt af áhuga á mennta- og menningarmálum. Ákvarðanaferlið er bæði langt og seinvirkt og leitast við að flækja mál frekar en leysa þau.

Á sama tíma og sjálfstæðismenn undirbúa almennt prófkjör sitt, þar sem allir sitja við sama borð, er skýrt frá kvótabundnu prófkjöri R-listans. Morgunblaðið slær því upp í fyrirsögn, að Ingibjörg Sólrún muni skipa áttunda sæti R-listans, sem ekki er nein frétt í sjálfu sér. Hitt er fréttnæmara, að Ingibjörg Sólrún hefur ákveðið í nafni R-listans, að þar skuli kosið um alla í kvótabundnu prófkjöri nema hana sjálfa. Hún þarf ekki að leggja á sig þátttöku í prófkjöri heldur úthlutar sjálfri sér áttunda sætið. Fjölmiðlum virðist þykja þessi afskræming á lýðræðinu sjálfsögð og eðlileg, sem staðfestir enn, að um Ingibjörgu Sólrúnu er fjallað með öðrum hætti í fjölmiðlum en aðra stjórnmálamenn. Þessi háttur vinstri- og jafnaðarmanna, að sumir séu jafnari en aðrir hefur að vísu verið tíðkaður á vettvangi Alþýðuflokksins, til dæmis þegar Jón Sigurðsson þjóðhagsstjóri fór í framboð en hann er nú bankastjóri Norræna fjárfestingabankans og býr í Finnlandi.

Innan Sjálfstæðisflokksins yrði ekki liðið, að einstakir menn yrðu leystir undan því að bjóða sig fram í prófkjöri, ef til þess er efnt á annað borð. Það yrði talið brot á lýðræðislegum leikreglum. Önnur lögmál gilda í upplausninni innan R-listans, gömlu glundroðakenningunni á að hafna með því að hafa Ingibjörgu Sólrúnu sem fastan punkt.

Faðir minn hafði stundum á orði, að sá væri munur á sjálfstæðismönnum og vinstrisinnum, að sjálfstæðismenn færu að settum leikreglum en vinstrisinnar vildu sníða reglurnar að eigin þörfum. Brýndi hann fyrir samstarfsmönnum sínum að átta sig á þessu. Má víða sjá merki um þetta, þar sem vinstrisinnar telja sig eiga að ráða lögum og lofum - þeir fjargviðrast yfir því ef listamenn leggja Sjálfstæðisflokknum lið og eru sérstaklega viðkvæmir þegar kemur að Ríkisútvarpinu.

-------

Um þessar mundir er ég að lesa ævisögu Maó eftir líflækni hans. Staðfestir hún alla fordóma mína um þennan einræðisherra, sem er samkvæmt heimsmetabók Guinness mesti fjöldamorðingi veraldarsögunnar. Þegar sagan er lesin og lýsingarnar á því, hvernig hann lifði algjörlega einangraður, umkringdur óttasleginni hirð, sem trúði á hann og fór að öllum duttlungum hans, er furðulegt að dýrkunin á honum náði á tímabili langt út fyrir Kína eins og menn geta séð með því til dæmis að kynna sér íslenska fjölmiðla, einkum í upphafi áttunda áratugarins. Þeir sem hafa lesið hina alþjóðlegu metsölubók Villta svani hafa fengið innsýn í kínverska þjóðarsál. Ætti raunar engum að koma neitt á óvart af því, sem gerist í Kína eða Kínverjum dettur í hug að taka sér fyrir hendur. Þeir hafa sjálfir dregið upp svörtustu myndina af stjórnarháttum kommúnista í landi sínu á síðari hluta 20. aldarinnar.

Íslendingar hafa dregist inn í hin hörðu átök milli kommúnista á meginlandi Kína og arftaka þjóðernissinnanna, sem lutu í lægra haldi fyrir kommúnistunum og fluttust til Tævan og stofnuðu þar ríki sitt 1949. Lætin sem urðu vegna komu varaforseta Tævans hingað sýna aðeins gauraganginn, sem enn er í stjórnmálasamskiptum þessara tveggja ólíku fylkinga í Kína, en á bakvið þau hefur þróast náið samstarf í verslun, viðskiptum og efnahags- og atvinnumálum. Tævanir eru stærstu fjárfestarnir á meginlandi Kína og fyrir hvern þann, sem vill vera öruggur í viðskiptum á meginlandinu er best að hafa Tævani sem milligöngumenn.

Ég fór í heimsókn til Tævans í nóvember 1994 en þá var ég formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Lýsti ég afstöðu minni til stjórnmálabaráttu Tævana í Morgunblaðsgrein, sem ég tel víst, að finna megi hér á vefsíðunni, en hún birtist í febrúar 1995. Vitnuðu fréttamenn til hennar í tilefni af heimsókn varaforsetans og virtist mér Stöð 2 nálgast málið þannig, að ég vildi ganga lengra en Davíð Oddsson forsætisráðherra. Hvergi er minnst á það í grein minni, að Ísland eigi að taka upp stjórnmálasamband við Tævan, hins vegar tel ég, að það beri að sýna Tævönum verðuga viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Vísa ég þar til þeirra sem mikillar viðskiptaþjóðar og fjárfesta.

Finnst mér Davíð Oddsson hafa farið með þetta vandasama mál af einstakri lipurð og festu undanfarna daga. Kínverjar, hvort heldur á meginlandinu eða í eyríkinu Tævan, ganga eins langt og þeim er frekast unnt og hugsa meira um sjálfa sig en viðmælendur sína. Bilið milli orða og athafna getur stundum verið töluvert. Þegar líflæknir Maós sagði við hann, að sér blöskraði krafa sumra embættismanna kommúnistastjórnarinnar um mútur vegna óska um að þeir sinntu skyldum sínum, svaraði einræðisherrann eitthvað á þá leið, að fiskar lifðu ekki nema í gruggugu vatni. Kínverjar fiska hins vegar gjarnan í gruggugu vatni, þegar þeir reyna að ná sínu fram gagnvart útlendingum.

Störf Alþingis hófust með skipulegum hætti í vikunni. Þriðjudag og miðvikudag voru umræður um fjárlagafrumvarpið. Stjórnarandstæðingar gerðu menntamál lítið að umtalsefni, enda erfitt að gagnrýna fjárveitingar til þeirra á þeirri forsendu, að um samdrátt sé að ræða. Að morgni fimmtudagsins var umræða utan dagskrár vegna Lánsjóðs íslenskra námsmanna, að þessu sinni um rétt nemenda í þeim deildum Háskóla Íslands, þar sem gilda fjöldatakmarkanir, til að fá tvisvar sinnum lán til náms á fyrsta ári. Hafði meirigluti stjórnar sjóðsins komist að þeirri niðurstöðu að hverfa bæri frá þessari skipan með vísan til jafnræðisreglna, ég andmæli ekki þeirri niðurstöðu en tel eðlilegt að ákvörðun um þetta komi í úthlutunarreglur að lokinni frekari lögfræðilegri athugun, jafnt á formi og efni málsins, en stjórn LÍN tók málið upp vegna álits umboðsmanns Alþingis um rétt hjúkrunarnema til námsláns.