28.9.1997

Fjölmiðlun og stjórnmál

Snemma árs 1976 fór Geir Hallgrímsson forsætisráðherra til viðræðna við Harold Wilson starfsbróður sinn í Bretlandi í því skyni að leysa þorskastríðið við Breta vegna úfærslunnar í 200 sjómílur. Starfaði ég þá sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og var í fylgd með Geir ásamt fleiri embættismönnum og sérfræðingum auk þingmannanna Þórarins Þórarinssonar frá Framsóknarflokki og Guðmundar H. Garðarssonar frá Sjálfstæðisflokki. Er þetta eftirminnileg ferð, þótt ekki bæri hún þann árangur, sem að var stefnt. Ytri umgjörðin er til dæmis minnisstæð, því að rætt var saman í fundarherbergi bresku ríkisstjórnarinnar, á sveitasetri breska forsætisráðherrans Chequers og í skrifstofu forsætisráðherrans í þinghúsinu. Í minn hlut kom að svara fyrirspurnum breskra blaðamanna, sem höfðu mikinn áhuga á málinu. Hins vegar var það stefna viðræðuaðila að láta ekkert spyrjast um einstök atriði í viðræðunum og halda upplýsingum sem mest innan dyra hjá sér eins og eðlilegt er, þegar setið er að samningum um viðkvæm mál. Svaraði ég blaðamönnum á þennan veg og sagðist ekki geta upplýst þá um gang mála. Engu að síður skrifuðu þeir fréttir, sem byggðust á ímyndunarafli þeirra sjálfra. Sumir drógu greinilega taum bresku stjórnarinnar án þess að geta nokkurra heimildarmanna. Minnkaði við þessa reynslu traust mitt á breskum fjölmiðlum og oft var haft á orði í þessari deilu, að breska útvarpið, BBC, dregi taum breskra stjórnvalda og togaramanna.

Síðan er nokkuð vatn runnið til sjávar og ég hef sjálfur sinnt blaðamennsku og nú síðustu ári verið beinn þátttakandi í stjórnmálastarfi. Að sjálfsögðu er rangt að halda því fram að bresk blöð séu hlutlaus, þau taka afstöðu í forystugreinum sínum og hika ekki við að fylgja einum flokki frekar en öðrum. Samskipti ritstjóra og stjórnmálamanna eru mikil og dálkahöfundar eru ekkert að fara í launkofa með að þeir styðja einn stjórnmálaflokk eða leiðtoga frekar en annan. Eigendur blaða hika ekki heldur við að láta í ljós skoðanir sínar eða hverja þeir styðja, nægir þar til dæmis að nefna Conrad Black, Kanadamanninn sem á Daily Telegraph, útbreiddasta virta blaðið í Bretlandi, ef þannig er unnt að draga skil á milli slíkra blaða og hinna, sem byggjast meira á uppslætti og æsifréttum. Black er ekki síður alþjólegur blaðakóngur en Ástralinn Rupert Murdoch, sem studdi Margaret Thatcher á sínum tíma en hallar sér nú að Tony Blair. Black og blöð hans styðja til dæmis bresku konungsfjölskylduna eindregið en Murdoch er frekar talinn hafa horn í síðu hennar.

Í Bretlandi eins og alls staðar, þar sem starfandi er öflugt ríkisútvarp, verður spenna milli stjórnmálamanna annars vegar og ríkisútvarpsins hins vegar. Er þó jafnan erfitt að skilgreina slíka spennu eftir flokkslínum, því að innan flokka eru ólík sjónarmið á málum sem þessum. Þannig segir Margaret Thatcher til dæmis frá því í æviminningum sínum, að hún hafi viljað afnema afnotagjöld BBC, breska ríkisútvarpsins, og heimila auglýsingar í staðinn, en ekki náð því fram meðal annars vegna andstöðu frá Willie Whitelaw, sem gekk henni næst í ríkisstjórninni og hótaði að segja af sér sem ráðherra, ef þessi breyting yrði gerð. Thatcher og stjórn hennar sá nauðsyn þess að breyta BBC og hún segir á einum stað: "Of course, one could only do so much by changing the framework of the system: as always, it was the people who operated within it who were the key." Þetta á við hér eins og annars staðar. Menn hafa séð þetta vera að gerast í bankakerfinu. Þar hefðu ekki orðið þær breytingar, sem við blasa nema vegna þess að innan bankanna var áhugi á þeim. Eða hjá Pósti og síma. Þar sáu stjórnendurnir, að breyta yrði starfsreglum og skipulagi fyrirtækisins til að það stæðist áraunina við nýjar aðstæður.

Tvær stórar ríkisstofnanir á vegum menntamálaráðuneytisins þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum, það eru Ríkisútvarpið og Námsgagnastofnun. Hef ég lagt að stjórnendum beggja að huga að þessum þáttum. Sjálfur setti ég á laggirnar nefnd, sem samdi skýrslu um nauðsynlegar breytingar á útvarpslögunum og liggur hún fyrir. Þegar hún birtist snerust vinstrisinnar harkalega gegn öllum breytingum. Ég hvatti starfsmenn RÚV til þess á fundi að huga að innra starfi stofnunarinnar og er átakið Betri rekstur meðal annars unnið í þeim anda. Hefur tillögum um breytingar á þeim forsendum verið hrundið í framkvæmd, skipulaginu hefur verið breytt og nýir starfsmenn ráðnir í samræmi við það. Til dæmis á að færa stjórn fjármála og tæknimála meira í hendur framkvæmdastjóra sjónvarps og útvarps en verið hefur, en hjá sjónvarpinu einu er verið að ráðstafa meira en 1500 milljónum króna árlega og tæknilegt umhverfi sjónvarpsins breytist nú örar en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er fráleitt að leggja mál þannig upp eins og gert var í fréttatíma hljóðvarps ríkisins í vikunni, að framkvæmdastjóri sjónvarpsins væri yfirdagskrárstjóri og hlutverk hans fælist einkum í því að skipta fé á milli dagskrárliða. Ég heyrði reyndar ekki neinn borinn fyrir þessari frétt og ekki var ég spurður, sem auglýsti þó stöðuna og réð í hana.

Ég hef áður minnst á það hér, að Dagur Tíminn hafi einkum lagt sig fram um að ræða starfsmannamál RÚV og hefur áhuginn mest beinst að fréttastjóra sjónvarpsins, sem ráðið var í til bráðabirgða á dögunum, eða á meðan Bogi Ágústsson er í leyfi frá störfum. Hefur líklega aldrei verið gert meira veður út af slíkri bráðabirgðaráðningu. Nú upplýsir DT, að Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður og fulltrúi Alþýðubandalagsins í útvarpsráði, hafi leikið tveimur skjöldum í þessu máli. Hún hafi látið í veðri vaka, að hún myndi styðja Elínu Hirst með Sjálfstæðisflokknum til að draga sjálfstæðismenn á asnaeyrunum og svíkja þá á úrslitastundu. Fyrir þetta afrek verður Guðrún maður vikunnar í DT. Skyldi Guðrún kunna þeim DT-mönnum nokkrar þakkir fyrir þennan heiður? Eftir að hún hætti þingmennsku tók hún sæti í ýmsum ráðum fyrir Alþýðubandalagið og ef ég man rétt situr hún meðal annars í Þjóðleikhúsráði og tryggingaráði auk útvarpsráðs. Varla fagnar Guðrún því, að DT segi hana sitja á svikráðum við þessi störf sín og heiðri hana sérstaklega fyrir vikið?

Þessi tilnefning DT byggist að sjálfsögðu á því, að um hápólistíska afgreiðslu hafi verið að ræða í fréttastjóramálinu og þar hafi vinstrimenn tekið höndum saman á móti sjálfstæðismönnum eftir að einn, komminn eins og DT kallar Guðrúnu, hafi beitt vísvitandi blekkingum um nokkurn tíma. Birgir Guðmundsson, aðstoðarritstjóri DT, fjallar hins vegar um niðurstöðuna í fréttastjóarmálinu í kjallaragrein fimmtudaginn 25. september og segir: "Í öllu falli er niðurstaðan líkleg til að skapa frið úti í þjóðfélaginu um fréttastofuna - og auka tiltrú manna á henni sem ópólitískri deild innan RÚV. Þá skiptir kannski ekki öllu hvort sá ópólitíski stimpill fékkst vegna nálægðar hinna hápólitísku sveitarstjórnakosninga eða einhvers annars - friðurinn fékkst."

Í þessum orðum sannast það, sem ég fjallaði um í síðasta pistli mínum hér á heimasíðunni, að framsóknarmenn telja mál af þessu tagi ópólitísk, ef þeir mynda meirihluta í útvarpsráði. Þau minna á hræsnina, sem setur fljótt svip sinn á umræður um stjórnmál og fjölmiðla. Fjölmiðlamenn eru hvorki utan né ofan við stjórnmálin og þeir hafa fullan rétt til að hafa sínar stjórnmálaskoðanir. Starfi þeir hins vegar við óhlutdræga miðla eiga þeir að fylgja þeim reglum í störfum sínum. Að sjálfsögðu hljóta allir að óska eftir því, að flokkspólitískur friður verði um fréttastofu sjónvarps. Traust á henni ræðst af því. Flokkspólitísk atkvæðagreiðsla í útvarpsráði um fréttastjóra til bráðabirgða tryggir það ekki heldur störf þeirra, sem á fréttastofunni starfa.