14.9.1997

RÚV-starfsmenn

Umræður um afskipti stjórnmálamanna eða útvarpsráðs af vali á nýjum starfsmönnum við Ríkisútvarpið ættu að hafa gengið sér til húðar. Ég hafði á orði við fréttamann Bylgjunnar, að mér þætti þetta sífellda tal um pólitískt mat annars vegar og faglegt hins vegar bera keim af hræsni. Þetta væri áróðursbragð, sem menn gripu til í því skyni að koma ómaklega höggi á einstaklinga. Á meðan ríkið rekur fjölmiðil lýtur hann að lokum pólitískri forsjá, því að stjórnmálamenn eða fulltrúar þeirra í stjórn ríkisstofnana bera lokaábyrgð á rekstri slíkra stofnana og það fer eftir lögum hverju sinni, hvernig þeir koma að því, þegar starfsfólk er ráðið. Í útvarpslögum er beinlínis mælt fyrir um afskipti útvarpsráðs af því, þegar ráðnir eru starfsmenn til dagskrárgerðar.

Hinn mikli áhugi frétta- og dagskrárgerðarmanna Bylgjunnar og Stöðvar 2 af því, hvaða starfsfólk ræðst til Ríkisútvarpsins hefur vakið sérstaka athygli. Í ríkisstofnun eru ákvarðanir um ráðningu manna teknar samkvæmt formlegum reglum, sem eru gegnsæjar. Innan útvarpsráðs eru greidd atkvæði og þar skiptast menn stundum í fylkingar en eru þó oftar sammála. Því er ekki haldið leyndum fyrir neinum, hvernig að afgreiðslu mála er staðið og unnt er að krefjast þess af útvarpsstjóra, að hann rökstyðji niðurstöðu sína. Engar sambærilegar reglur gilda hins vegar um ráðningu starfsmanna á fjölmiðla í einkaeign, þar hafa eigendur síðasta orðið bæði um ráðningar- og uppsagnarreglur, eða hverjir það eru, sem taka ákvarðanir um starfsmenn. Ætla mætti af umræðunum um starfsmannahald RÚV, að einungis þar kunni að vakna spurningar um það, hvort svokallað faglegt mat ráði við val á starfsmönnum. Auðvitað hlýtur það að koma alls staðar til álita, þar sem fólk er ráðið til starfa. Sá er hins vegar munurinn, að krafist er miklu vandaðri vinnubragða hjá ríkisfjölmiðlum en annars staðar í fjölmiðlaheiminum.

Ég hef sagt við fulltrúa starfsmanna RÚV, að stjórnmálamenn muni með einum eða öðrum hætti hafa afskipti af stofnuninni, á meðan hún er ríkisfyrirtæki. Vilji þeir starfa við aðrar aðstæður, verði þeir að leita eftir störfum hjá öðrum en RÚV. Þá segi það mér ekki allt um hæfni manna til að gegna hvaða starfi sem er innan stofnunarinnar, að þeir hafi góða útvarpsrödd, komi vel fyrir í sjónvarpi eða séu lagnir spyrlar í umræðuþáttum. Loks sé það RÚV gagnlegt eins og öllum öðrum stofnunum að endurnýjast með nýju fólki á öllum stigum starfseminnar.

Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur var lengi ritstjóri Tímans og hefur fylgst með íslenskri fjölmiðlun í marga áratugi segir í dálki sínum Sjónvarp á laugardegi, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 13. septemer sl., að í umræðum um starfsmenn RÚV sé einkum áberandi nú til dags að borið sé við að vanti faglega þekkingu í heilabú þeirra sem fá störfin á sama tíma og þeir sem fá þau ekki séu að springa af faglegri þekkingu. Varla sé þó átt við meðferð á míkrófónum eða þekkingu á meðferð upptökutækja, heldur faglega þekkingu á mannlífinu almennt eða pólitík. Kemst Indriði því að þeirri niðurstöðu, að gagnrýnin á ráðningarnar sé í eðli sínu flokkspólitísk en ekki fagleg.

Indriði G. var um langan aldur helsti menningar- og fjölmiðlamaður Framsóknarflokksins og er þess vegna ástæða til að huga sérstaklega að afstöðu hans. Látið hefur verið í veðri vaka, að framsóknarmenn vilji beita flokkspólitísku valdi til að knýja fram ákveðna niðurstöðu gegn einum umsækjanda um starf fréttastjóra sjónvarps. Á forsíðu Dags-Tímans sagði þriðjudaginn 9. september í fjögurra dálka fyrirsögn: Ríkisútvarpið - Pólitískur skjálfti í stjórnarflokkunum. Í fréttinni kom fram, að Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður Páls Péturssonar félagsmálaráðherra og formaður Sambands ungra framsóknarmanna, væri óánægður með það, sem hann kallar pólitískar mannaráðningar hjá RÚV. Samkvæmt skilgreiningu hans er fólk ráðið pólitískt, ef framsóknarmenn greiða því ekki atkvæði í útvarpsráði! Í sömu frétt, sem samin er af hinum nýja blaðamanni Dags-Tímans Sigurdóri Sigurdórssyni, sem hefur (líklega á faglegum forsendum) verið fluttur frá DV til DT, segir, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji sjá Elínu Hirst sem fréttastjóra sjónvarps en framsóknarmenn hafni henni. Má skilja fréttina þannig að ungir framsóknarmenn telji sig eiga að hafa einskonar neitunarvald um það, hverjir ráðist til starfa hjá RÚV. Ég les þessa frétt með miklum fyrirvara, því að reynslan hefur kennt mér, að ekki sé unnt að treysta Sigurdóri Sigurdórssyni sem fréttamanni og nægir í því efni að benda lesendum heimasíðu minnar á það, sem ég sagði á sínum tíma um skrif Sigurdórs um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en frásagnir hans um pólitískan skjálfta í stjórnarflokkunum vegna þess máls voru allar orðum auknar og stundum hreinn skáldskapur.

Nokkrum dögum eftir að þessi mikla forsíðufrétt birtist í DT var í nafnlausum dálki um fjölmiðla í sama blaði rætt um fyrirhugaða ráðningu fréttastjóra sjónvarps ríkisins, það sagði meðal annars föstudaginn 12. september: "Framsóknarmenn fara nú hamförum vegna ótta síns við að Elín Hirst verði ráðin fréttastjóri Sjónvarpsins og segja þá ráðningu munu verða pólitíska. Með slíkum fullyrðingum er gert æði lítið úr hæfileikum Elínar Hirst. Elín Hirst er ekki pólitísk puntudúkka. Hún sýndi í starfi sínu á Stöð 2 röggsemi og dugnað, og reif fréttadeildina upp úr lægð. Slíka manneskju virðist sárlega vanta á fréttadeild Sjónvarps."

Verður ekki að telja þetta faglegt mat? Hins vegar bendi ég, að þarna skín jafnframt í gegn sú hugsun, að pólitískt mat geti ekki verið faglegt. Er þess þá jafnframt að geta, að menn telja störf útvarpsráðs ekki pólitísk nema ráðið skiptist í meiri- og minnihluta. Virðist af því mega draga þá ályktun, að hið faglega mat byggist á einhverjum absólút reglum, sem leiði ekki til ágreinings, en eins og kunnugt fer því víðsfjarri, að fagaðilar séu ávallt sammála í mati sínu. Ágreiningur í útvarpsráði er því alls ekki til marks um, að þar sé ekki starfað á faglegum forsendum.