9.8.1997

Oxfordráðstefna

Um nokkurt árabil hafa háskólamenn í Bandaríkjunum í samvinnu við starfsbræður sína í Bretlandi staðið fyrir ráðstefnum um skólamál í Oxford. Leigð er aðstaða hjá einum skólanna innan Oxford-háskóla og þangað stefnt stjórnmálamönnum, skólamönnum, fulltrúum stórfyrirtækja og hugbúnaðargerðar til viðræðna frá sunnudegi til föstudags, sem er óvenjulega langur tími, þegar litið er til þess að venjulega telja athafnamenn sig ekki geta verið lengur frá starfstöð sinni en tvo þrjá daga. Fundarmenn búa og borða á stúdentagarði og fá auk fundarhalda tækifæri til að kynnast skólastarfinu í Oxford, sögu þess og þróun. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Pembroke College, en svo vill til að þrír vinir mínir hafa einmitt stundað þar nám, dr. Þór Whitehead prófessor, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og nú síðast Jakob F. Ásgeirsson. Hann hefur lokið við að skrifa drög að doktorsritgerð, en vörn hennar er óráðin. Á sínum tíma leigðum við fjölskyldan íbúð Hannesar Hólmsteins í Oxford og dvöldumst nokkrar vikur á þessum sögufræga stað í góðu yfirlæti, en í bænum er mjög sérstakt andrúmsloft og má segja, að finna megi þar menningarstraumana, sem mótast hafa á undanförnum 800 árum í þessari þriðju elstu háskólaborg Evrópu.

Við vorum frá Namibíu, Venezuela, Malawi, Uganda, Bangladesh, Ghana, Hvíta-Rússlandi, Fiji, Papúa Nýju-Guineu og Íslandi menntamálaráðherrarnir, sem tókum þátt í þessu Oxford International Round Table on Education Policy. Má nærri geta, að þessar þjóðir eru á ólíku stigi, þegar litið er til þróunar skólakerfisins. Hins vegar er ljóst, að viðfangsefnin eru alls staðar hin sömu, að skapa hæfilegar forsendur fyrir árangri og huga að því stjórn- og skólakerfi, sem nær þessum árangri. Menn ganga að því sem vísu, að munur sé milli sjálfstæðra ríkja og ríkja á ólíkum þróunarstigum. Hitt held ég, að hafi komið okkur þátttakendum frá öðrum ríkjum en Bandaríkjunum sérstaklega á óvart, að hlusta á og kynnast því, hve ólíkt hin einstöku ríki Bandaríkjanna standa að vígi. Hafði ég að minnsta kosti ekki gert mér grein fyrir þessum mun og hinum ólíku viðhorfum til úrræða, sem fram komu. Miðað við þá áherslu, sem Bill Clinton hefur lagt á menntamál og gerði sérstaklega í stefnuræðu sinni við upphaf nýs kjörtímabils í janúar sl. mætti ætla, að sambandsstjórnin í Washington hefði þessi mál í hendi sér, en svo er alls ekki. Menntamálin eru verkefni einstakra ríkja og þau keppa sín á milli og glíma hvert og eitt við sín sérstöku verkefni. Þannig er málum til dæmis háttað, að í Kaliforníu tala 23% nemenda í grunnskólum annað tungumál en ensku og sagði öldungadeildarþingmaður þaðan, að Kalifornía væri orðið að ríki minnihlutahópa, því að enginn hópur væri þar í meirihluta.

Í Papúa Nýju Guineu eru töluð meira en 800 tungumál, það er ólíkar tungur en ekki mállýskur. John Waiko menntamálaráðherra þar lýsti fyrir okkur, hvernig ætlunin er að ýta undir að þessir ólíku menningarheimar gætu haldið áfram að dafna innan sömu landamæra. Sjálfur sagðist hann ekki komast heim í fæðingarþorp sitt án þess ganga síðasta spölinn og lægi þá tveggja daga leið í gegnum frumskóg og krókódílapytti. Eitt kvöldið fögnuðum við afmæli hans og spurði ég hann, hvað hann væri gamall. Hann sagðist því miður ekki vita það nákvæmlega, þar sem hvorki faðir hans né móðir hefðu kunnað að lesa eða telja. Móðir sín hefði sagt sér, að hann hefði fæðst um það leyti, sem Japanir réðust á heimabyggð þeirra og hefði hún orðið að leita skjóls í frumskóginum til að ala barn sitt, þess vegna teldi hann sig fæddan einhvern tíma í ágúst 1944. Waiko hefur lokið doktorsprófi í sögu og gerði kröfu um að gera það á móðurmáli sínu, en á þeim tíma var land hans hluti Ástralíu og urðu áströlsk yfirvöld að verða við þessari kröfu hans. Gerði hann kvikmynd um þennan þátt ævi sinnar og hefur hún hlotið verðlaun á hátíðum.

Ég rifja þetta upp hér til að minna á hvað skilur á milli þjóða og dregið var fram á þessum fróðlega fundi í umræðum um skólamálin og stefnuna í menntamálum. Flutti ég erindi og lagði fram gögn um íslensk skólamál, en með mér á fundinum var Jónmundur Guðmarsson, verkefnisstjóri í námskrárgerð fyrir grunn- og framhaldsskóla. Á sínum tíma nam Jónmundur alþjóðastjórnmálafræði í Jesus College í Oxford, en Vice Chancellor Oxford-háskóla, það er rektor skólans, er nú dr. Peter North, sem var skólastjóri í Jesus College, þegar Jónmundur var þar.

Peter North flutti ræðu á ráðstefnunni og fór meðal annars yfir þær tillögur, sem nú liggja fyrir um breytingar á háskólastarfi í Bretlandi. Þar eins og annars staðar standa menn frammi fyrir því, að aðsókn að háskólum er mun meiri en nokkru sinni fyrr og vaxandi. Bregst stjórn Blairs meðal annars við þeim vanda með því að leggja 1000 punda (120 þús. kr.) skólagjöld á alla breska nemendur, sem fara í háskóla, þeir hafa hingað til verið undanþegnir slíkum gjöldum en útlendingar greiða 7-8000 pund í skólagjöld. Taldi North þetta skynsamlegan kost eins og málum væri háttað, því að ljóst væri, að háskólarnir hefðu stöðugt fengið minna fé árlega undanfarin ár. Vildi hann, að sérhver nemandi greiddi 1000 pund og fengi til þess lán, ef með þyrfti, en ekki yrði farin sú leið að ákveða gjaldið 1000 pund og lækka það, ef nemendur sýndu fram á, að þeir hefðu ekki efni á að inna greiðsluna af hendi. Breska stjórnin hefur valið seinni leiðina. North lagði áherslu á, að háskólar yrðu að taka áherslur í starfi sínu til athugunar og þótt rannsóknir væru mikilvægar væri hitt ekki minna virði að sinna kennslunni vel og af alúð, ættu skólar að leggja meiri áherslu á það en áður, því að velmenntaðir og starfhæfir einstaklingar væru það, sem væri besta afurð háskólanna, ef þannig mætti orða það.

Í nýjustu skýrslu OECD um efnahagsmál á Íslandi er lagt til að hér á landi verði tekin upp skólagjöld í háskólum til að mæta þeim vanda, sem við stöndum frammi fyrir, því að ekki sé unnt að leggja sífellt aukin útgjöld á skattgreiðendur til að standa undir kostnaði vegna sífellt meiri fjölda háskólastúdenta. Í Bandaríkjunum er munur á skólagjöldum eftir því, hvort um einka- eða ríkisskóla er að ræða. Einkaskólarnir taka mun hærri skólagjöld og fá nemendur lán til að greiða þau, geti námsmenn ekki staðið í skilum við lánveitanda hleypur stjórnin í Washington undir bagga með skuldaranum og kom fram, að um 15% af lánum lendi þannig í vanskilum, en skólarnir beri engan skaða vegna þess. Einkaskólarnir dragi þannig til sín meira opinbert fé en ella með háum skólagjöldum auk þess sem þeir fái einhverja ríkisstyrki beint. Skólagjöld í ríkisskólum séu hins vegar ákveðin af kjörnum fulltrúum og stjórnmálamönnum og því séu þau lægri, þannig að skólarnir fái sífellt minna fé í sinn hlut í samkeppni við einkaskólana.

TIMSS-skýrslan kom nokkuð til umræðu og lýstu Bandaríkjamenn, Dani og ég óánægju með útkomuna úr könnunni hjá okkur. Bandarískur sérfræðingur benti á, að allir væru sammála um, að líklega væri skólakerfið hvergi betra en í Danmörku og þar veittu menn í senn miklu fé til skólamála og kæmu í ríkum mæli til móts við þarfir einstakra nemenda, samt væri árangurinn ekki meiri í TIMSS. Spyrja mætti, hvað væri mælt. Þannig hefði hann hlýtt á viðtal í bandarískri útvarpsstöð við kennslukonu í Tékklandi eftir að niðurstöður í TIMSS lágu fyrir, en Tékkar voru með þeim allra hæstu. Hún sagðist ekki undrandi á þessu, því að í Tékklandi bæri skólakerfið þess enn merki, að ekki væri lögð nein áhersla á sjálfstæða sköpun eða landafræði, sögu og samfélagsgreinar, því að menn þyrðu ekki að tala um slík mál í skólastofunum vegna þess að skuggi sovéska einræðisins væri enn yfir þeim að þessu leyti. Nemendur mættu ekki spyrja neins og yrðu að hlýða í þögn, þess vegna hentaði vel að troða í þá stærðfræði og náttúrufræði, sem allir hefðu fengið meira en nóg af og síst af öllu vekti það hjá þeim neina gleði að ná þessum árangri í TIMSS! Þeir hötuðu þessar námsgreinar!!

Allir binda nokkrar vonir við fjarkennslu en vandinn er sá, að í löndum þar sem hvorki er rafmagn né sími er hún næsta fjarlægur draumur. Á Papúa Nýju Guineu er verið að koma upp sólarrafhlöðum til að búa til orku á afskekktum stöðum og er greinilega áhugi á slíku á Fiji, sem er myndað af um 300 eyjum, þar sem tæpar 200 eru byggðar og sumar mjög afksekktar. Fulltrúi frá Boeing félaginu, sem hefur 220.000 manns í vinnu, sagði, að þar stefndu menn að því að senda á loft innan fárra ára lágfleyga gervihnetti, sem gerði öllum heimsbúum færi að nýju og öruggu fjarskiptasamband. Yrði tæknin innan tíðar þannig að menn kæmust inn á Internetið með tæki, sem þeir væru um úlnliðinn eins og armbandsúr nú á dögum. Þá kom það fram hjá tölvufræðingi, sem starfar hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Simon & Schuster, að þar væru menn að komast að þeirri niðurstöðu að óhagkvæmnin við að gefa út bækur væri svo mikil, að líklega yrði því hætt innan tíðar.

Hér ætla ég að láta staðar numið við upprifjun á þessum fróðlegu umræðum, sem minntu mig á, hve nauðsynlegt það er að hverfa af og til út úr hinum fastmótuðu daglegu viðfangsefnum og gefa sér tíma til að hlaða batteríin eins og það er kallað. Raunar er það svo, að góður árangur í menntamálum skiptir allar þjóðir og framtíð þeirra svo miklu, að huga verður vel að öllum þáttum þeirra og hvernig best er að ná árangri með eins litlum byrðum á skattgreiðendur og unnt er. Stjórnmálamenn vilja ekki hækka skatta, að minnsta ekki þeir, sem hafa lofað að gera það ekki. Til þeirra eru hins vegar gerðar kröfur um að tryggja betri og meiri opinbera þjónustu, ekki síst í menntamálum.

Nýjar háskólagreinar eiga til dæmis oft undir högg að sækja á meðan þær eru að ryðja sér rúms og þótt ákvarðanir hafi verið teknar, sem byggjast á því, að háskóla sjálfir ráðstafi því fé, sem þeir hafa til umráða, og forgangsraði dregur jafnan til þess, að þess er krafist af stjórnmálamönnunum að þeir taki af skarið um einstök viðfangsefni. Nú hefur meira að segja verið búið þannig um hnúta að yfirstjórn háskóla hefur heimild til að greiða mönnum mismunandi há laun. Ein af röksemdum OECD fyrir skólagjöldum er meðal annars sú, að þau tryggi þeim greinum meiri fjármuni, sem veiti menntun til hæst launuðu starfanna. Nú er sagt, að hvorki kennarar né nemendur haldist í tölvunarfræðum af því að það sé boðið svo hátt í þá á almenna markaðnum. Í þessu tilviki ætti að stofna til mun nánara samstarfs milli háskóla og atvinnulífs en gert hefur verið og finna skynsamlegar leiðir til að deila kostnaði við námið með öðrum hætti. Fyrirtækin hafa hag af því að nemendurnir menntist sem mest og best og það geta þau ekki tryggt nema starfandi sé öflug háskóladeild á þessu sviði, bæði þau og háskólinn eiga að hafa þann sveigjanleika að unnt sé að svara hinni miklu þörf fyrir menntað fólk án þess að það strandi á einhverjum kerfissjónarmiðum eða samkeppni um opinbert fé, sem alltaf verður af skornum skammti háskólum.