21.6.1997

Helgarpósturinn - handrit - fótbolti - Kennarablaðið

Góðkunningi minn, sem fylgist náið með framvindu stjórnmála og fjölmiðlaumræðum, spurði mig, hvort ég gæti ímyndað mér uppnámið í stjórnmála- og fjölmiðlaheiminum, ef það hefði spurst, að með leynd hefði Sjálfstæðisflokkurinn eignast ráðandi hlut í Helgarpóstinum auk þess sem þannig hefði verið staðið að kaupunum, að þingmenn eða miðstjórnarmenn hefðu ekki fengið vitneskju um þau, síðan bærust fréttir um þetta leynimakk, þegar blaðið hefði í nokkrar vikur einbeitt sér að því að upplýsa lesendur sína um það, að Jón Ólafsson fjölmiðlaeigandi og stórathafnamaður væri flæktur í innflutning fíkniefna. Þá hefði jafnframt komið í ljós, að gengið hefði verið frá kaupunum fyrir þremur misserum og þess vegna bæri að skoða skrif blaðsins á þeim tíma, sem síðan er liðinn með hliðsjón af hagsmunum Alþýðubandalagsins.

Svar mitt var á þann veg, að ég hefði ekki leitt hugann sérstaklega að þessu, en þegar athygli mín væri vakin á því, sæi ég, að um Alþýðubandalagið gilti greinilega nokkuð annað en Sjálfstæðisflokkinn, þegar vandræðamál væru á ferðinni. Hér væri í raun um einstaklega skrýtið mál að ræða, þegar stjórnmálaflokkur, sem jafnan kveður fastast að orði um afskipti annarra af fjölmiðlum kýs leynd, þegar hann ákveður að reka Helgarpóstinn. Hitt er ekki síður sérkennilegt, að þetta skuli gerast án þess að helstu forystumenn flokksins séu hafðir með í ráðum eða látnir vita um framganginn.

Að mínu mati hafa fjölmiðlar umgengist Alþýðubandalagið eins og það ætti bágt vegna fortíðar sinnar og þess vegna ætti að sýna því sérstaka meðaumkun. Sjálfur hef ég oftar en einu sinni sett fram þá skoðun, að Alþýðubandalagið þurfi eins og aðrir kommúnistaflokkar að gera upp við fortíð sína að loknu kalda stríðinu - mér sýnist hins vegar æ fleiri verða þeirrar skoðunar hér, að þess sé ekki þörf að rifja upp þau vandræðamál og nægir þar að vísa til forystugreinar Morgunblaðsins um Mál og menningu 60 ára. Slík afstaða dugar þó ekki til að binda enda á umræður um þennan þátt Íslandssögunnar, hann verður þeim mun betur rifjaður upp síðar og jafnframt lagt mat á viðbrögð og ástæður þeirra, sem töldu þögnina besta úrræðið. Nægir því til staðfestingar að vísa til umræðna, sem verða allt í einu núna um hagfræðingaálitið svonefnda frá 1946, sem ég gerði að umtalsefni í vikupistli að loknu söguþingi. Nú hafa birst þrjár greinar um hagfræðingaálitið í Morgunblaðinu, ein eftir Ólaf Björnsson, einn af höfundum þess, sem telur frásögn af álitinu og dóm um það ósanngjarnan, og síðan hafa þeir Sigurður Snævarr og Jakob F. Ásgeirsson svarað Ólafi.

Á þessu stigi Íslandssögunnar kann mörgum að þykja óþægilegt, þegar rætt er um kalda stríðið og átökin á þeim tíma, sérstaklega þeim, sem eiga um sárt að binda vegna þess og telja, að þeir hafi barist til lítils eða einskis. Meðaumkun með þeim fjarar út og sú stund kemur, að menn meta þróun mála á hlutlægan hátt.

Það var hátíðleg stund í Háskóla Íslands að morgni fimmtudagsins 19. júní, þegar rektor Kaupmannahafnarháskóla afhenti rektor Háskóla Íslands síðustu handritin samkvæmt samningi okkar við Dani frá 1961. Kom það í minn hlut að flytja ræðu við upphaf dansks-íslensks málþings um handritin.

Síðdegis laugardaginn 21. júní efndu sjálfstæðismenn í Reykjavík til ánægjulegrar stundar í Heiðmörk. Þar kepptum við til dæmis í fótbolta þingmenn og borgarfulltrúar og lauk leiknum 1:1, en Davíð Oddsson skoraði að sjálfsögðu markið fyrir okkur þingmennina, og var með ólíkindum að sjá, hvernig hann kom boltanum í markið.

Töluverðar umræður hafa orðið um skólamál í þessari viku og þeirri síðustu. Vil ég benda á greinar mínar um þau í Morgunblaðinu 14. júní og 21. júní, þar sem ég geri annars vegar grein fyrir afstöðu minni til TIMSS-könnunarinnar og svara hins vegar gagnrýni Ágústs Einarssonar á okkur sjálfstæðismenn fyrir stjór menntamála, en Ágúst er sá þingmanna, sem hefur verið dómharðastur um störf mín sem menntamálaráðherra. Skil ég raunar ekki, hvað fyrir honum vakir, því að gagnrýni hans er langt út fyrir það, sem hann getur stutt með haldbærum rökum. Raunar er ég hættur að láta mér bregða yfir því, sem mönnum dettur í hug að segja í gagnrýni sinni - helst er þó ástæða til að undrast málflutning þeirra, sem ættu þó að vita betur.

Í Kennarablaðinu, júní 1997, er á baksíðu grein undir fyrirsögninni: Niðurskurður á menntun - hún hefst á þessum orðum:

“Í lok maí bárust þau tíðindi að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að framhaldsskólinn skyldi styttur og að enska skyldi vera fyrsta mál í íslenskum skólum. Það vekur furðu að þessar ákvarðanir eru teknar á sama tíma og verið er að endurskoða aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla³

Það er alrangt hjá eb, sem ritar þetta í blaðið, að ríkisstjórnin hafi tekið þessa ákvörðun um styttingu framhaldsskólans, þvert á móti var ákveðið að menntamálaráðherra hefði umboð til að leita leiða til að lækka aldur þeirra hér, sem ljúka stúdentsprófi og nota ætti tækifærið við endurskoðun námskráa grunn- og framhaldsskóla til að gera það. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að taka þetta mál til athugunar við endurskoðun námskránna og það er markmiðið - enginn hefur slegið því föstu að framhaldsskólinn verði styttur. Síðan ber eb þessar rangfærslur sínar undir Sigríði Bíldal, ritara stjórnar HÍK, sem spinnir þráðinn áfram án þess að hafa nokkurt efni til þess, leyfir hún sér þó að gagnrýna aðra fyrir ófagleg vinnubrögð. Eru útleggingar hennar allar byggðar á forsendum, sem hún gefur sér sjálf, en ekki neinu, sem ákveðið hefur verið af mér. Virðist það eitt vaka fyrir þessu fólki að gera námskrárvinnuna tortryggilega - ekki er síður sérkennilegt, að á forsíðu Kennarablaðsins er sagt frá námskrárvinnunni, starfi og niðurstöðum stefnumótunarnefndar á hlutlægan hátt, forsíðupistilinn skrifar SG, sýnist mér það vera Sylvía Guðmundsdóttir, ritstjóri Kennarasambands Íslands, stafirnir eb vísa hins vegar líklega til Eiríks Brynjólfssonar, ritstjóra Hins íslenska kennarafélags. Spurning er, hvort hin mismunandi viðhorf ritstjóranna endurspegli skoðanaágreining milli KÍ og HÍK vegna námskrárvinnunnar.

Um röð tungumála segir eb:

“Þá ákvað ríkisstjórnin að enska skuli vera fyrsta erlenda mál grunnskólanemenda í stað dönsku. Þetta er ekki ný hugmynd en fagmenn hafa ekki talið efni til breytinga. Það undarlega í þessu sambandi er þó að ríkisstjórn Íslands skuli með þessum hætti ákvarða námsefni í íslenskum grunnskólum. Og það án samráðs við kennara eða sveitarfélögin sem reka grunnskólann."

Það var stefnumótunarnefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, sem gerði einróma tillögu um þessa skipan tungumálakennslu í grunnskólum, í nefndinni sátu meða annarra margir kennarar. Áður höfðu fagmenn oftar en einu sinni hreyft því, að eðlilegt væri að breyta röð á tungumálum í grunnskólum. Samkvæmt reglum um um endurskoðun námskráa, sem settar voru eftir samráð við forystumenn kennarasamtakanna, var sú verkaskipting ákveðin, sem felur í sér, að ákvörðun um þetta er tekin hjá þeim, sem ákveða stefnu við námskrárgerðina en ekki hinum, sem sinna faglegu hliðinni.

Ég legg það í dóm lesenda, hvort unnt sé að taka mikið mið af málflutningi þeirra, sem þannig segja frá mikilvægum þáttum vegna endurskoðunar á námskrám grunn- og framhaldsskóla.