19.5.1997

Sigrar annarra - þinglok - háskólamenntun

Að kvöldi miðvikudagsins 14. maí voru eldhúsdagsumræður á Alþingi, en eldhúsdagur rennur jafnan upp, þegar dregur að þinglokum, því að hann þjónar því hlutverki að menn taki til hjá sér og sinni því, sem hefur dregist að ljúka. Er þá útvarpað og sjónvarpað frá umræðum og menn setja sig í hátíðlegri stellingar en venjulega, ræðutíma er skipt á milli flokka í þremur lotum. Síðan lesa menn stílinn sinn eða tala blaðalaust, heyrir það að vísu til undantekninga, en Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, hafði ekki neitt blað með sér í ræðustólinn að þessu sinni.

Af hálfu sjálfstæðismanna töluðu Halldór Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir og Einar Oddur, sem fór greinilega mjög í taugarnar á Illuga Jökulssyni, en hann flutti skammarræðu um Einar Odd í útvarp strax á fimmtudagsmorgni og birtist hún síðar í heild í Degi-Tímanum. Ræða Einars Odds hefur þó hvergi verið birt en hann ýtti greinilega á viðkvæma blettinn á þeim, sem vilja að skattgreiðendur og ríkissjóður létti af sem flestum fjárhagslegum byrðum.

Minntu ávirðingar Illuga á þau sjónarmið, sem urðu meira að segja undir í breska Verkamannaflokknum, þegar Tony Blair komst þar til valda og leiddi síðan flokkinn til sigurs sem Nýja verkamannaflokkinn, þar sem félagshyggjan hefur verið takmörkuð með því að vængstýfa verkalýðsforkólfa og aðra, sem trúa því, að þjóðfélagið geti ekki þróast án milligöngu stéttarfélaga.

Stjórnarandstæðingar véku margir að því í eldhúsdagsumræðunum, að sigur Verkamannaflokksins í Bretlandi markaði tímamót í íslenskum stjórnmálum! Fyrir okkur sem stöndum utan við áralangar tilraunir vinstrisinna til að sameinast er sá farsi hættur að vera hlægilegur og er nú í besta falli grátbroslegur, ekki síst þegar hann snýst um það að fagna sigrum annarra í öðrum löndum. Hafa jafnaðarmenn og aðrir hér á landi skilgreint stefnu Nýja verkamannaflokksins og komist að þeirri niðurstöðu að hún eigi við á Íslandi? Eða er það þráin eftir að komast í jákvætt sigurljós, sem ræður þessu tali um sigurgöngu í íslenskum stjórnmálum vegna kosninga í Bretlandi? Á árum áður voru það framsóknarmenn, sem hömpuðu því jafnan á síðum Tímans, að flokks- eða skoðanabræður þeirra hefðu sigrað í útlöndum. Nú hafa jafnaðarmenn tekið þetta hlutverk að sér. Kannski verður Tony Blair guðfaðir sameiningar íslenskra vinstrisinna en eins og kunnugt er hefur Jón Baldvin Hannibalsson haft það, sem æðsta pólitíska markmið sitt að sameina íslenska jafnaðarmenn. Jón Baldvin kvaddi hins vegar Alþingi Íslendinga með ræðu á eldhúsdeginum.

Þingfundum lauk síðan síðdegis laugardaginn 17. maí, sem var í samræmi við starfsáætlun og er í fyrsta sinn um langan aldur að minnsta kosti, að tekist hefur að ljúka þingi á réttum tíma, ef þannig má að orði komast. Hér verður ekki gerð úttekt á þingstörfunum, en samþykkt voru mörg merk frumvörp. Meðal þeirra mála, sem lokið var á síðustu dögunum, var afgreiðsla breytinganna á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Eins og menn sjá, ef þeir nenna að lesa pistla mína hér á þessum stað frá síðasta þingi, sjá þeir afstöðu mína til LÍN-málanna, en ég get mjög vel við þá niðurstöðu una, sem náðist að lokum. Menntamálanefnd Alþingis ákvað að komið skyldi á fót málsskotsnefnd, en til hennar geta viðskiptamenn LÍN skotið málum sínum, vilji þeir ekki sætta sig við niðurstöðu stjórnar LÍN. Kemur í minn hlut að skipa þrjá lögfræðinga í þessa nefnd, einn þingmaður snerist gegn þessari skipan í umræðum á þingi, það var Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og hinn óháði í þingflokki Alþýðubandalagsins, var hann aðallega gegn því, að menn settu svo mikið traust á lögfræðinga, raunar flutti hann nokkrar ræður undir þinglok þess efnis, að þingmenn væru alltof hallir undir háskólamenntun, þeir væru að samþykkja of mikið af lögum, þar sem krafist væri háskólamenntunar til að gegna ákveðnum störfum.

Ég ætla ekki að spá neinu um það, hvað málsskotsnefndin á eftir að hafa í för með sér í stjórnkerfi LÍN. Sagði ég við forráðamenn námsmanna, að ég skildi ekki til fulls áhuga þeirra á því að fá slíka nefnd, þegar til þess væri litið, að fulltrúar námsmanna sitja í stjórn sjóðsins og taka þátt í meðferð vafamála.

Ummæli Ögmundar Jónassonar um háskólamenntun voru í hróplegri andstöðu við það, sem Morgunblaðið dró fram í fréttum og Reykjavíkurbréfi um helgina, að hér væru færri háskólamenntaðir en annars staðar í OECD-löndum. Koma þessar upplýsingar fram í skýrslu, sem ég lagði fyrir Alþingi á síðustu dögum þess að ósk þingmanna jafnaðarmanna, sem óskuðu eftir svörum við fjölmörgum spurningum. Starfsmenn ráðuneytisins og ráðgjafar þeirra hafa varið miklum tíma í vetur til að draga saman svör við þessum spurningum, en sumum var alls ekki unnt að svara vegna þess að upplýsingar eru ekki tiltækar. Síðastliðið haust gaf menntamálaráðuneytið út Tölfræðihandbók um menntun og menningu, þar sem einnig er að finna mikilvægar upplýsingar um stöðu okkar Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir. Ræddi ég þetta á menntaþingi 5. október síðastliðinn og oftar í vetur hef ég flutt ræður um skort á háskólamenntun og þá staðreynd, að menntun er ekki mæld að verðleikum í launaumslaginu. Mín niðurstaða er sú, að menn hafi ekki lagt á sig að menntast vegna þess að atvinnulífið gerir ekki menntakröfur. Ég tel hins vegar, að þetta viðhorf einstaklinga sé á undanhaldi, hvað sem kröfum atvinnulífsins líður, því að allir átti sig betur en áður á gildi menntunar.

Síðdegis fimmtudaginn 15. maí flutti ég ræðu Viðskiptamenntun á aðalfundi Félags viðskiptafræðinga, þar sem ég fjallaði um úttekt á viðskiptafræði- og rekstarfræðimenntun í fjórum skólum. Hinn 11. apríl var efnt til blaðamannafundar í menntamálaráðuneytinu og niðurstaða úttektarinnar kynnt en það er líklega fyrst núna, sem hún er að vekja verðuga athygli annarra en þeirra, sem hafa beinna hagsmuna að gæta. Er mikið í húfi að menn dragi réttar ályktanir af þessari úttekt og bregðist við henni.