27.4.1997

Ríkisstjórnarafmæli - rektorskjör

Ríkisstjórnin átti tveggja ára afmæli 23. apríl síðastliðinn. Er þá starfstími hennar hálfnaður, ef miðað er við fjögurra ára kjörtímabil. Það var hins vegar hinn 30. apríl 1991, sem Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt, þannig að þann dag hefur hann setið 6 ár samfellt sem forsætisráðherra, sem er þriðji lengsti samfelldi starfstími forsætisráðherra. Hermann Jónasson var forsætisráðherra frá 1934 til 1942 í tveimur ólíkum samsteypustjórnum. Bjarni Benediktsson var forsætisráðherra frá 1963 til 1970 í fleiri en einu ráðuneyti en sömu flokkar störfuðu saman allan tímann, það er Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur. Sömu ráðherrar hafa setið fyrir Sjálfstæðisflokkinn þau sex ár, sem Davíð hefur verið forsætisráðherra fyrir utan mig, en við stjórnarskiptin 23. apríl 1995 tók ég við störfum menntamálaráðherra af Ólafi G. Einarssyni, sem varð forseti Alþingis.

Ég vil, að menn líti á þessi sex ár í heild, þegar þeir meta, hvernig til hefur tekist við landsstjórnina, því að á þessum árum hafa orðið algjör umskipti frá því áður var um nokkurt árabil. Í stað pólitískrar óvissu, sem hafði í för með sér efnahagslega upplausn, hefur tekið við festa og stöðugleiki. Jafnframt hefur tekist að snúa af braut efnahagslegrar stöðnunar, sem leiddi til hnignunar, þess í stað blasir við hagvöxtur og aukin umsvif á öllum sviðum. Nýjasti árangur þessarar festu felst í þeim kjarasamningum, sem verið er að ljúka um þessar mundir, þegar samið er til lengri tíma en áður. Vissulega munu samningarnir reyna á þanþol hagkerfisins en það á við um þetta kerfi eins og svo mörg önnur, að stöðugleiki um nokkurt skeið auðveldar úrvinnslu og kemur í veg fyrir hættulegar kollsteypur.

Samhliða því, sem grunnforsendur hafa tekið stakkaskiptum, hefur verið unnið að endurnýjun stjórnarhátta á flestum sviðum. Líklega verður það ekki fyrr en frá líður, að menn átta sig til fulls á þeim breytingum, sem orðið hafa. Spái ég því, að við mat á pólitískum þáttaskilum á þeirri öld, sem brátt hverfur, og þegar litið verður til annarra hluta en þeirra, sem til heilla horfa í sjálfstæðis- landhelgis- öryggis- og utanríkismálum, verði annars vegar einkum staldrað við viðreisnaráratuginn 1960 til 1970 og hins vegar lokaáratug aldarinnar.

Erlent áreiti og ákvarðanir á heimavelli verður seint unnt að aðskilja. Þannig var það einn liður í þeim miklu breytingum, sem orðið hafa á þessum síðustu árum, að Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu. Samstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tryggði þá aðild. Hins vegar hefur samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggt á síðustu tveimur árum, að gengið hefur verið til endurskoðunar á ýmsum þáttum í ríkisrekstri með það fyrir augum að færa hann í nútímalegra horf. Er því starfi ekki lokið en ljóst, að flokkarnir hafa náð vel saman um þau mál. Þá hefur einnig verið hreyft við löggjöf um viðkvæma málaflokka eins og vinnulöggjöfinni og lífeyrislöggjöfinni. Um breytingar á þeirri síðari fara nú fram heitar umræður. Var mín skoðun sú, að nauðsynlegt væri fyrir stjórnarflokkana að stuðla að opinberum og hispurslausum umræðum um lífeyrismálin. Hafa þær svo sannarlega farið fram og á Morgunblaðið sértsakt hrós skilið fyrir það, hvernig blaðið hefur kynnt allar hliðar lífeyrismálanna. Álitamálin eru skýr og að sjálfsögðu verður leitað leiða til að sætta ólík sjónarmið. Raunar væri það úr takt við allt, sem hefur verið að gerast undanfarin ár, ef á þessu sviði yrði stigið skref til baka að því er frjálsræði borgaranna varðar.

Í menntamálunum ræða menn enn um niðurskurð, hvað sem líður öllum ábendingum um, að það sé rangnefni á þeim aðhaldstímum, sem hafa verið nauðsynlegir til að leggja grunn að heilbrigðara efnahags- og atvinnulífi. Raunar tel ég, að á síðasta ári hafi fjárvetingarvaldið viðurkennt í verki, að ekki yrði lengra gengið í slíku aðhaldi gagnvart framhaldsskólum og háskólum. Um þessar mundir eru að hefjast viðræður af hálfu menntamálaráðuneytisins við alla framhaldsskólana um fjármál þeirra og stefnumörkun til næstu ára. Niðurstöður þeirra viðræðna munu ráða miklu um fjárþörf þessa skólastigs. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um háskóla, þar sem mælt er fyrir um nýjar aðferðir í fjármálasamskiptum ríkisins við háskóla.

Fyrir utan fjárhagsmálefnin hefur á tveggja ára starfstíma ríkisstjórnarinnar verið unnið að mörgum verkefnum á sviði mennta- og menningarmála, sem horfa til langrar framtíðar. Nefni ég enn, að líklega átta menn sig ekki nægilega vel á því, hve markvisst er unnið að endurskoðun aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla. Af þessari vinnu, sem á að ljúka um mitt næsta ár, ræðst, hvernig innra starf skólanna verður við aldamót og á fyrstu árum eða áratugum nýrrar aldar. Loks vil ég benda á, að innan menntamálaráðuneytisins höfum við mótað stefnu til að nýta upplýsingatæknina í þágu menntunar og menningar. Er ljóst, að á starfsviði ráðuneytisins laga stofnanir og einstaklingar sig að þessari stefnu. Þar eins og annars staðar, þarf að búa þannig um hnúta, að unnt sé að koma til móts við góðar hugmyndir með fjármagni. Tel ég mig raunar hafa sýnt fram á það með aðstoð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að fjárfesting á starfsviði menntamálaráðuneytisins sé skynsamlegasta ráðstöfun á þeim arði, sem við þjóðarbúinu blasir vegna ávinnings síðustu ára í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar.

Þegar ég lít til næstu tveggja ára og starfa minna sem menntamálaráðherra, eru verkefnin mörg og mikil. Endurskoðun skólalöggjafarinnar er lokið en hins vegar þarf nú að huga að breytingum á háskólastiginu og hrinda í framkvæmd áforum um sameiningu skóla þar. Þörf er á endurskoðun löggjafar á menningarmálasviðinu og viðleitni til að koma fjárhagslegum samskiptum ríkissjóðs og stofnana þar í viðunandi horf, auk þess að laga innra starf að nýjum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, upplýsingalögum og öðrum nýmælum.

Nýr rektor var kjörinn í Háskóla Íslands á afmælisdegi ríkisstjórnarinnar. Vakti athygli í fyrri umferð kjörsins, hve atkvæði skiptust jafnt milli þeirra fjögurra, sem þá voru í kjöri, þannig að segja má, að því hafi næstum ráðið tilviljun, hverjir kepptu í úrslitalotunni. Eins og málið blasir við þeim, sem utan Háskólans eru, fór baráttan fram með drengilegum hætti, sem auðveldar að sjálfsögðu Páli Skúlasyni að takast á við hið mikla verkefni sitt.

Ég tel einnig, að samþykkt nýrrar heildarlöggjafar um háskólastigið muni auðvelda nýkjörnum rektor að sinna sínum störfum, því að án umbóta á stjórnsýslureglum um Háskóla Íslands er erfitt að ná þar þeim árangri, sem allir frambjóðendur til rektors vildu ná. Nýja heildarlöggjöfin er einnig forsenda þess, að Kennara- og uppeldisháskóli Íslands komi til sögunnar. Stefni ég að því, að það verði 1. janúar 1998 og eru miklar væntingar bundnar við þá dagsetningu hjá þeim sem starfa að kennara- og uppeldisnámi. Bæði frumvörpin eru nú til meðferðar hjá menntamálanefn Alþingis.

Ég tók eftir því, að bæði Páll Skúlason og Jón Torfi Jónasson töldu það ljóð á frumvarpi til háskólalaga, að ráðherra ætti að skipa rektor. Sé málið ekki útskýrt nánar kann mönnum að þykja, að í þessu felist einhver sérstök aðför að sjálfstæði Háskóla Íslands. Þetta er mikill misskilningur, því að ráðherra er ekki heimilað með lögunum að ákveða hver verður rektor, það gerir háskólaráð, sem að meirihluta er skipað fulltrúum kjörnum innan viðkomandi háskóla. Hvaða leið háskólaráðið fer til að finna þann, sem ráðherra veitir embættið, er ekki bundið í almennu háskólalöggjöfinni heldur mun það taka mið af vilja innan hvers skóla fyrir sig. Það nýmæli er í heildarlöggjöfinni, að auglýst skal eftir rektorsefni og getur hann bæði komið úr hópi starfsmanna skólans og annarra utan hans.

Rökin fyrir því, að ráðherra veiti rektorsembættið eru almenns eðlis og byggjast á því, að skólarnir eru ríkisstofnanir. Í stjórnkerfi ríkisins eins og annars staðar gera menn nú ríkari kröfur en áður um að allar boð- og skipunarleiðir séu skýrar, til að viðmælendur stofnana og almennir borgarar átti sig á leiðum til að kalla menn til ábyrgðar. Hefur til dæmis sýnt sig í fleiri en einu máli undanfarið, að þetta er ekki síst brýnt á jafnstórum vinnustað og Háskóli Íslands er. Einn frambjóðenda til rektors, Vésteinn Ólason, hefur í góðri blaðagrein lýst þeim vanda, sem við honum blasti, vegna óljósra boð- og skipunarreglna innan Háskóla Íslands. Í hinu nýja frumvarpi eru tekin af öll tvímæli í þessu efni, rektor hefur lokavaldið innan háskólans en er jafnframt ábyrgur gagnvart ríkisvaldinu eins og staðfest er með veitingarvaldi ráðherra. Þeir, sem sætta sig ekki við slíka skipan, hljóta að vera talsmenn þess, að háskólar hætti að vera ríkisstofnanir. Þannig er það til dæmis ljóst, að ríkisvaldið eða ráðherra skiptir sér ekkert af því, hver er rektor Samvinnuháskólans eða væntanlegs Verslunarháskóla, enda eru þetta ekki ríkisstofnanir.