27.4.1997

Þingumræður - RANNÍS - Mellon

Síðdegis mánudaginn 14. apríl hófst 1. umræða um frumvarpið til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna á Alþingi, henni lauk ekki þann daginn og var haldið áfram síðdegis þriðjudaginn 15. apríl, eftir kvöldmat þann dag voru síðan fleiri þingmál frá mér tekin til umræðu: breyting á þjóðminjalögum, frumvarp um háskóla, frumvarp um Kennara- og uppeldisháskóla, frumvarp um breytingu á lögum um starfsréttindi kennara, frumvarp um breyting á lögum um bæjanöfn og um Örnefnastofnun, frumvarp um breyting á lögum um skoðun kvikmynda og um frumvarp til íþróttalaga. Lauk umræðum um öll þessi mál um miðnætti þennan sama þriðjudag og daginn eftir var samþykkt að vísa þeim öllum til menntamálanefndar til meðferðar. Þeir, sem hafa áhuga á að kynna sér efni frumvarpanna, geta gert það með því að fara inn á vefsíðu menntamálaráðuneytisins hér á netinu, en veffangið er : http://frodi.stjr.is/mrn

Ég fylgist ekki nægilega vel með ljósvakamiðlunum til að átta mig á því, hvað þeir upplýstu hlustendur sína eða áhorfendur mikið um einstök atriði þessara mála. Í Morgunblaðinu sá ég hins vegar, að það þótti einungis fréttnæmt, að framsóknarmenn hefðu verið skammaðir vegna LÍN-málsins, og annar varaþingmaður Alþýðubandalagsins á Austfjörðum, Guðmundur Beck, var óánægður með að sett skyldi á laggirnar örnefnanefnd til að taka af skarið í vafamálum vegna örnefna.

Að öðru leyti sá ég ekki, að lesendur Morgunblaðsins væru fræddir um framgang þessara mála á Alþingi, þótt þau snerti fjölmarga þeirra bæði beint og óbeint; snúist um umdeild mál eins og starfsréttindi kennara; hafi að geyma ákvæði um gagngera breytingu á starfi og stjórn háskóla og mæli fyrir um víðtækustu sameiningu ríkisstofnana, sem til hefur verið stofnað, með því að færa fjóra skóla í einn á háskólastigi. Er það vaxandi áhyggjuefni fyrir okkur, sem komum að opinberum málum, hve óvíst er um almenna kynningu á þeim í fjölmiðlum. Sú tíð er liðin, að fjölmiðlar veiti viðskiptavinum sínum þá þjónustu að segja þeim frá stöðu einstakra þingmála. Þess vegna vek ég athygli á vefsíðu menntamálaráðuneytisins og einnig á fréttabréfi þess, sem kemur út fjórum sinnum á ári. Þá er Alþingi með gagnlega vefsíðu, þar sem unnt er að leita að málum eftir atriðisorðum.

Af hálfu Morgunblaðsins var þó hringt í mig vegna tveggja mála í vikunni, það er til að spyrja mig um álit á samþykkt þings Evrópusambandsins um rétt almennings til að horfa á meiriháttar viðburði í sjónvarpi. Mér hafði ekki borist samþykktin og vildi því ekki svara fyrirspurninni umfram það, sem ég hafði áður sagt um málið við blaðið. Morgunblaðið hringdi einnig í mig vegna fréttar í Sunnlenska fréttablaðinu um fund, sem Þingvallanefnd efndi til með fulltrúum hreppa við Þingvallavatn og í Grímsnesi, við Laugarvatn og í Biskupstungum til að ræða við hugmyndir um friðun vatnasviðs Þingvallavatns og stækkun þjóðgarðsins. Staðfesti ég við blaðið, að rétt væri eftir mér haft í Sunnlenska fréttablaðinu.

Ég hlustaði með öðru eyranu á útvarpsþáttinn í vikulokin milli 11 og 12 á rás 1 19. apríl, þar sem meðal annars var rætt um kosningu á nýjum rektor við Háskóla Íslands og stjórnarhætti í skólanum. Varð mér ljóst af þeim umræðum, að enginn þeirra, sem þar sat og ræddi atburði vikunnar, virtist gera sér grein fyrir því, að uppi eru tillögur um breytta skipan á vali og verksviði rektors.

Hef ég áður vakið máls á því hér á þessum stað, að hvað sem líður almennum heitstrengingum um mikilvægi menntunar, vekja tillögur um breytingar á því sviði ekki mikinn áhuga annarra en þeirra, sem beinna hagsmuna hafa að gæta, nema um ágreining eða illdeilur sé að ræða.

Eins og menn sjá af þeim lista yfir lagafrumvörp, sem ég nefndi, af þeirri staðreynd, að öll voru þau rædd í fyrstu umræðu á tveimur dögum, og af þeirri staðreynd, að fjölmiðlar eru ekki uppnæmir yfir þeim, er hér um mál að ræða, sem valda ekki deilum á Alþingi, þótt frumvörpin eigi að sjálfsögðu eftir að taka einhverjum breytingum í meðferð þingmanna.

Tími gefst líklega ekki í vor til þess að afgreiða öll þessi mál á Alþingi. Þau verða þó send til umsagnar, sem gagnast við framhaldsvinnu vegna þeirra. Um eitt frumvarpanna, íþróttalögin, tók ég beinlínis fram, að ég legði það fyrir Alþingi til kynningar en ekki til afgreiðslu í vor. Vildi ég, að frumvarpið lægi fyrir, þegar samþykkt yrði tillaga til þingsályktunar um heildarúttekt og tillögugerð um samfélagslegt gildi íþrótta, sem hefur verið lögð fram. Þá tók ég einnig fram, að nýtt ákvæði í frumvarpinu um að Íþróttasamband Íslands og Umgmennafélag Íslands kæmu fram gagnvart stjórnvöldum, tæki mið af staðreyndum, en fæli ekki í sér, að ÍSÍ væri ekki áfram æðsti aðili fyrir Íslands hönd í alþjóðlegum samstarfi íþróttahreyfinga. Þar sem ég hef orðið var við efasemdir í þessa veru, eftir að frumvarpið kom fram, hvatti ég til þess, að þingnefndin tæki af allan vafa um þetta, ef nauðsyn krefði.

Af umræðunum um LÍN dreg ég þá ályktun, að stjórnarflokkunum hafi með samkomulagi sínu tekist að finna hinn rétta meðalveg. Stjórnarandstaðan náði sér ekki á strik í umræðunum, sérstaklega var sérkennilegt að hlusta á þingmenn Alþýðubandalagsins, sem í upphafi þings fluttu ófullburða frumvarp um breytingar á LÍN en töldu sig nú í stöðu til að gagnrýna stjórnarflokkana fyrir betra frumvarp.

Upp úr hádeginu þriðjudaginn 15. apríl var þriðji ársfundur Rannsóknarráðs Íslands (RANNÍS) haldinn, kom þar í minn hlut að flytja þar ræðu . Því miður urðu skyldur á Alþingi til þess, að ég gat ekki tekið þátt í frekari umræðum í tengslum við ársfundinn eða hlustað á frásagnir af því, sem gerðist á málþingi, sem efnt var til sama dag um þekkingarþjóðfélagið og Ísland.

Þegar litið er á opinberar fjárveitingar til rannsóknamála undanfarin ár sést, að fjárveitingarvaldið hefur lagt rannsóknum vaxandi lið. Benti ég á, að fjárfesting á þessu sviði er með hinni arbærustu, sem unnt er að stunda. Þá vakti ég máls á því, hvort ekki bæri að setja heildarlöggjöf um rannsóknastarf eins og um háskólastigið og knýja þannig á um nauðsynlegar breytingar á rannsóknastofnanakerfinu, sem er bæði flókið og margbrotið.

Síðdegis fimmtudaginn 17. apríl var boðað til blaðamannafundar í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem kynnt var, hvernig fyrstu skrefin verða stigin til starfræns þjóðbókasafns á Íslandi, það er í þá átt, að handrita- og bókakostur þjóðarinnar verði öllum aðgengilegur á starfrænu formi. Hefur fengist 42 milljón króna styrkur til þessa verkefnis frá Mellon-sjóðnum í Bandaríkjunum, íslenska ríkið leggur fram 21 milljón á næstu þremur árum, Landsbókasafn- Háskólabókasafn og Árnastofnun koma að verkinu og Eimskip, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Póstur og sími leggja því fjárhagslegt lið. Verður alls 94 milljónum króna varið til verksins á þessum 3 árum og það unnið í samvinnu við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum, þar sem Fiske-safnið er til húsa, það er stærsta safn íslenskra bóka í Vesturheimi.

Ég lít þannig á, að með þessu verki sé gert mesta átak nokkru sinni til að gera bókmenntaarf okkar Íslendinga aðgengilegan fyrir alla heimsbyggðina. Er ætlunin að færa 500.000 blaðsíður fornrita og handrita í stafrænu formi inn á netið - þar verða gögnin 100% þau sömu og frumgögnin, en við hefbundna ljósmyndun verður 10% rýrnun á gæðum gagnanna og síðan rýrna þau stig af stigi eftir því, hve oft þau eru færð á milli prentgagna, stafræna geymsluaðferðin tryggir hins vegar 100% gæði.