28.3.1997

Akureyrarferð - fjarnám - námskrárvefsíður

Síðdegis miðvikudaginn 26. mars fórum við Rut til Akureyrar og vorum þar þátttakendur í hátíðlegri athöfn, þegar ritað var undir samning milli Háskólans á Akureyri (HA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) um samstarf þeirra við nýtingu upplýsingatækninnar. Er það yfirlýst markmið HA að taka forystu í þessu efni á háksólastiginu, en skólinn hefur einnig hafið samstarf við Tækniskóla Íslands á sama sviði.

Ég hef ákveðið, að VMA hafi frumkvæðishlutverki að gegna í fjarnámi á framhaldsskólastigi. Fékk skólinn formlega heimild menntamálaráðuneytisins til að stunda tilraunastarf á þessu mikilvæga framtíðarsviði kennslumála í maí 1995. Nú í vetur hefur verið gerð úttekt á tilrauninni á vegum menntamálaráðuneytisins og vann Bjarni Hjarðar í HA hana fyrir ráðuneytið. Mats- og eftlirlitsdeild ráðuneytisins hefur síðan farið yfir málið. Í framhaldi af því er ljóst, að eðlilegt er að framlengja tilraunatímann og líta á einstaka þætti í starfinu meðal annars nú einnig í ljósi samvinnu HA og VMA.

Þeir, sem þekkja netið og hvernig unnt er að nýta sér það til þekkingaröflunar, átta sig á gildi fjarnáms. Þeir vita einnig, að í því felst mikil framsýni hjá Akureyrarskólunum að hefja þetta samstarf, því að það brýtur þeim ekki aðeins nýja leið til að nálgast nemendur og veita þeim nýja þjónustu heldur markar einnig þáttaskil í samstarfi háskóla og framhaldsskóla, sem hingað til hefur aðeins þekkst í Verslunarskóla Íslands (VÍ), þar sem undir sama þaki er veitt nám á framhaldsskólastigi og háskólastigi, en VÍ rekur tölvuháskóla.

Nokkrar umræður hafa verið um það undanfarið, að ekki renni nægilegt opinbert fé til þess að jafna aðstöðu til framhaldsnáms á milli þeirra, sem búa í þéttbýli og dreifbýli. Sú spurning vaknar, hvort ekki beri frekar að fjárfesta í tækni, þekkingu og heimatölvum til að auka fjarnám heldur en hækka styrki til greiðslu á fæði, húsnæði og skólaakstri. Hvort ekki eigi með öðrum orðum frekar að ýta undir að nemendur í hinum dreifðu byggðum geti stundað nám heima hjá sér með fullkomnum tölvubúnaði en að knýja þá til að fara úr foreldrahúsum. Starfið í VMA sýnir, að hér er unnt að veita þá þjónustu, sem dugar mönnum til framhaldsnáms. Að þjálfa þá til að nýta tölvur til þess náms er einnig til þess fallið að kenna fólki að stunda sínám, en framtíðin krefst símenntunar af þeim, sem vilja standast kröfur á vinnumarkaði.

Þá tel ég, að frumvarp til laga um háskóla, sem ég mun leggja fram á Alþingi næstu daga, muni breyta viðhorfi okkar til skilanna á milli framhaldsskóla og háskóla og auka svigrúm til að viðurkenna menntun á háskólastigi, án þess að um það sé að ræða að koma upp formlegum stofnunum. Aðalatriðið hlýtur að vera að veita nemendum réttindi, sem duga þeim, en ekki hitt að koma á laggirnar stofnunum og húsakosti. Minnumst þess, að hér á landi sitja menn og stunda fjarnám við háskólastofnanir erlendis. Hvers vegna skyldu íslenskar menntastofnanir ekki taka þátt í slíkri alþjóðlegri samkeppni? Þær standa að minnsta kosti frammi fyrir henni á heimavelli.

Ég vil benda þeim, sem lesa þetta, að kynna sér, hvernig menntamálaráðuneytið nýtir nú netið til að kynna hina viðamiklu námskrárvinnu, sem komin er á skrið á vegum ráðuneytisins. Með því að fara inn á vefsíðu ráðuneytisins er unnt að finna vefi námskrárvinnunnar. Skora ég á menn að láta skoðanir sínar á því starfi í ljós, því að með gerð námskrár er lagður grunnur að innra starfi skólanna.

Hugleiðingarnar um fjarnámið og gildi netsins skerptust í hinni ánægjulegu Akureyrarferð. Auk þess að taka þátt í samstarfsathöfn skólanna fórum við og hlýddum á Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og kórfólk af Eyjafjarðarsvæðinu ásamt einsöngvurum flytja Carmina Burana. Var því kvöldi vel varið og er ljóst, að norðanmenn leggja ekki síður mikla áherslu á metnaðarfullt menningarstarf en sókn í skólamálum.

Morguninn eftir, skírdag, var Haraldur Ingi forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri svo vinsamlegur að opna það fyrir okkur til að við fengjum tækifæri fyrir brottför að skoða þar verk eftir þrjár listakonur, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Steinunni Þórarinsdóttur og Guðrúnu Einarsdóttur.

Töldum við okkur þurfa að fara fyrir hádegið vegna þess að flugvélin átti að fara 12.40 og vorum við komin út á flugvöll í tæka tíð fyrir þann brottfarartíma, þá var okkur tilkynnt, að vélin færi ekki fyrr en 13.15, raunar dróst brottförin til 13.45, sem er óvenjulegt hjá Flugleiðum, var sú skýring gefin, að tíminn hefði verið notaður til að fljúga til Ísafjarðar!