26.1.1997

Fundarhöld - menntastefna - agaleysi

Vikan einkenndist af löngum fundum bæði í ríkisstjórn og með þingflokki og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Var þar rætt um mörg mál, sem eiga eftir að setja svip sinn á umræður, eftir að Alþingi kemur saman þriðjudaginn 28. janúar eftir hlé vegna jólanna. Er það til marks um eindrægni bæði innan ríkisstjórnarinnar og forystusveitar Sjálfstæðisflokksins, að opinberar umræður um þessi fundarhöld eru ekki neinar. Þar fyrir utan efndi ég til funda með ýmsum deildum ráðuneytisins til að leggja línur um starfsemina í byrjun nýs árs.

Frásagnir fjölmiðla af fundum undanfarið hafa verið um flokkana, sem segjast ætla að sameinast undir merkjum jafnaðarmennskunnar. Ég mæli styrk þessara flokka eftir því, hvernig þeir fjalla um einstök málefni. Formaður Alþýðubandalagsins tók u-beygju í utanríkismálum á miðstjórnarfundi flokksins og talaði hlýlega bæði um NATO og Evrópusambandið. Allir, sem eitthvað þekkja til íslenskra stjórnmála, vita, að þar talaði formaðurinn alls ekki í nafni allra flokksmanna sinna.

Sitji þeir Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon áfram þegjandi og láti sér lynda þá stefnu, sem Margrét Frímannsdóttir hefur mótað til að vera gjaldgeng í Grósku, tel ég það aðeins til marks um, að þeir félagar hafi í raun glatað trúnni á Alþýðubandalagið og hlutverk þess í íslenskum stjórnmálum. Er ég enn sömu skoðunar og áður, að vandi þeirra Svavars og Steingríms felist í því, að þeir hafa ekki treyst sér til að gera upp við fortíð Alþýðubandalagsins og þess vegna flýtur flokkurinn sofandi að feigðarósi, hann hefur hvergi neina festu lengur. Eini maðurinn, sem reynir að vera samkvæmur sjálfum sér er Hjörleifur Guttormsson. Hann hefur einnig orðið að ganga í gegnum mesta hreinsunareldinn vegna pólitískrar fortíðar sinnar í þágu kommúnismans án þessa bíða pólistískt skipbrot.

Ég sé ekki heldur annað en Alþýðuflokkurinn sé að koðna niður. Helsta gildi hans undanfarið hefur verið að gefa út Alþýðublaðið, þar sem örlað hefur á skemmtilegri póltískri umræðu. Nú rís flokkurinn ekki lengur undir blaðinu og hefur kosið að leita málefnalega í skjól Morgunblaðsins til þess að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan vegna veiðileyfagjaldsstefnunnar, sem blaðið segir hins vegar, að það eigi ekki sameiginlega með krötum, enda skilgreini það stefnu sína með öðrum hætti.

Jafnaðarmenn sameinast ekki um málefni heldur um það að halda lífi án vel skilgreindrar stefnu, þeir sameinast um að vera á móti, eins og R-listinn á sínum tíma. Hann hefur á hinn bóginn sannað, að það eitt að vera á móti dugar ekki til að koma einhverju jákvæðu til leiðar.

Við sjálfstæðismenn í Reykjavík efndum til kjördæmisþings okkar laugardaginn 25. nóvember. Að þessu sinni snerist það um menntamál. Kom það meðal annars í minn hlut að flytja þar ræðu. Ríkti mikil eindrægni í umræðum á þinginu. Þórólfur Þórlindsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofnunar um uppeldis- og menntamál (RUM), lýsti þeirri skoðun sinni, að um hugarfarsbreytingu væri að ræða hjá þjóðinni. Mætti greina hana almennt og þó sérstaklega í menntamálum, byggði hann það meðal annars á viðræðum við tugi manna, sem hefðu samband við RUM. Er ljóst, að vilji stendur til þess að hverfa frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi, sem meðal annars hefur lítið byggst á samkeppni, kröfum og aga.

Í Morgunblaðinu 24. janúar birtist viðtal við Einar Inga Magnússon, sálfræðing hjá Félagsstofnun Hafnarfjarðar, þar sem hann segir meðal annars: “Ég vil benda á aukið agaleysi íslenskra barna sem líklega ástæðu vaxandi ofbeldis, en það skapast meðal annars vegna langs vinnudags foreldra og að ömmu og afa nýtur ekki lengur við á heimilunum en þau voru ákveðin festa fyrir börn. Útlendingar tala um feiknarlegt agaleysi hér á landi og það er eins og Íslendingar séu hræddir við bæði aga og sjálfsaga. Ég verð var við vaxandi agaleysi í samfélaginu í gegnum mitt starf."

Einar Ingi segir einnig, að hann viti dæmi þess, að nemendum hafi verið refsað fyrir að vera of mikið á undan og hann telur, að blöndun í bekki, það er að raða nemendum í bekki án tillits til gengu, sé á skjön við markmið grunnskólalaganna.

Nýlega rakst ég það einhvers staðar, að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður hins andvana og gagnslausa Þjóðvaka, lagði lykkju á leið sína til að skamma mig fyrir að segja, að það vantaði aga hér á landi. Við sjáum, hvert hið póltitíska agaleysi hennar hefur leitt hana - hvenær skyldi tíminn koma?.