5.1.1997

Nýtt ár - gildi menntunar, stóriðja

Eitt af því, sem helst einkennir hátíðir, er, að þar er yfirleitt allt í föstum skorðum. Þetta á meðal annars við um skyldur menntamálaráðherra um áramót, eins og fram kemur í dagbókinni hér að neðan, sem unnt er að bera saman við lýsinguna á skyldum fyrir réttu ári.

Meðal þess sem er á sínum stað um áramót eru ávörp og áramótagreinar. Stjórnmálamenn rita í blöð og svara spurningum eða taka þátt í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Fjölmiðlamenn rýna í textann eða orðin og reyna að finna það, sem er fréttnæmt.

Því sjónarmiði er hreyft af sumum, að nær væri að festa fé í menntun en í virkjunum og stóriðju. Er málinu þá stillt upp eins og um tvo kosti sé að velja. Ég sé þetta ekki með þessum augum, því að ég tel fjárfestingu, sem byggist á verklegum framkvæmdum, eiga samleið með öflugu átaki í þágu menntunar. Höfuðatriði sé, að þeir, sem starfa utan skólanna átti sig á gildi menntunar og leggi sig fram um að ráða menntað starfsfólk.

Hitt á svo við góð rök að styðjast, að það er síður en svo verið að kasta því fé á glæ, sem varið er til menntunar. Að fjárfesta í menntun er ekki minna arðbært en að reisa álver eða stækka járnblendiverksmiðjur. Lagði ég áherslu á þetta með tölum í ræðu á menntaþingi 5. október síðastliðinn.

Forsendurnar, sem við gefum okkur í umræðunum um þessa kosti, eru hins vegar mismunandi. Nokkuð ber enn á því, að rætt sé um fjárfestingu í stóriðju í trúboðsanda, þar er allt, sem gert er, boðað með jákvæðri eftirvæntingu, eftir að mönnum varð endanlega ljóst, að erlendir fjárfestar bíða ekki í röðum við bæjardyr okkar. Þeir, sem muna deilurnar um álverið í Straumsvík fyrir 30 árum, vita einnig, að það kostaði hörð átök og deilur að fá samninginn við Alusuisse gerðan og samþykktan. Innan við 20 ár eru síðan Alþýðubandalagið undir forystu Hjörleifs Guttormssonar reyndi að flæma Alusuisse úr landinu en þá létu sósíalistar enn stjórnast af þeirri kennisetningu, að í heiminum væri um samsæri alþjóðlegra auðhringa að ræða, sem miðaði að því að hneppa þjóðir, einkum litlar, í fjötra og arðræna þær. Enn skemmra er síðan Kvennalistinn var alfarið á móti stóriðju og nýtingu orkulinda í hennar þágu.

Ekki er lengur deilt um gildi menntunar. Fyrir um 150 árum varð það sjónarmið ofan á hér á landi, ekki síst fyrir tilstilli Jóns forseta, að það væri af hinu góða að reka skóla. Hugmyndafræðin á bak við skólastarf var þó að verulegu leyti og er enn að vissu marki félagsleg. Hitt er þó að renna æ betur upp fyrir flestum, eftir því sem atvinnuhættir verða fjölbreyttari og flóknari, að menntun er lykill að framförum og velgengni. Hugtök eins og upplýsingabyltingin og þekkingarsamfélagið, sem menn sjá rísa á grundvelli þeirrar byltingar, eiga ekki við nema meðal þjóða, sem eru almennt vel menntaðar.

Hátt menntunarstig er óhjákvæmilegt fyrir þjóðir, sem vilja standa í fremstu röð, hins vegar er ekki óhjákvæmilegt að virkja fallvötn til stóriðju, til að ná sama marki. Þarna er unnt að draga ákveðin mörk, ef menn kjósa, en eins og ég sagði tel ég það hvorki æskilegt né nauðsynlegt. Það er ljóst, að þáttaskil urðu ekki í atvinnulífi okkar Íslendinga fyrr en ný verkmenntun hélt innreið sína á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Á grunni þessarar almennu verklegu menntunar og með því að fjárfesta í öflugum tækjum til lands og sjávar hefur okkur tekist að ná ótrúlega góðum lífskjörum.

Vegna þess hve menntun er sjálfsögð og vitað er, að engum dettur í hug að vega að grunni íslensks menntakerfis, leyfa menn sér oft í umræðum um það að setja mál sitt fram í skjóli þess, að þeir geti ekki tapað því, sem þeir hafa náð. Þess vegna ber oft á því, að lítið sé gert úr því, sem áunnist hefur til að geta knúið meira fram. Þarna er að mínu mati að finna undirrót þess, að menn ræða um allt hið jákvæða, sem hefur verið að gerast í menntamálum á undanförnum árum á neikvæðum forsendum.

Ég held við gerum engum greiða með þessu neikvæða tali, síst af öllu þeim, sem í skólunum starfa, kennurum og nemendum. Við eigum að taka á verkefnum á jákvæðum forsendum og höfum í raun ekki ástæðu til annars, þótt margt megi að sjálfsögðu betur fara. Staðreyndin er líka sú, að kannanir sýna, að Íslendingar líta yfirleitt björtum augum á lífið og telja hag sínum almennt vel borgið, hvað sem líður almennu og hefðbundnu svartsýnistali. Seinheppnir voru þeir nú um áramótin, sem tóku til við að metast um, hver hefði haft réttast fyrir sér um þróun fátæktar í landi okkar, þegar kannanir tóku af tvímæli um réttmæti þess, sem Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði um það mál í áramótaávarpi sínu.