8.12.1996

Bókaflóð - þingumræður - kirkjuvígsla

Áður en ég tók við því starfi, sem ég nú gegni, fór mestur laus tími minn frá venjubundnum störfum um þetta leyti árs í lestur jólabókanna og skrif umsagna um þær fyrir Morgunblaðið. Að vísu voru það ekki bækur um fagurfræðileg efni, sem ég hafði á minni könnu, heldur hluti hinna, sem snúast um sagnfræði og þjóðfélagsmál. Hélt ég þessu áfram, eftir að ég lét af störfum á blaðinu og settist á þing. Nú er einnig þessi þráður við blaðið slitnaður og ég læt mér nægja að lesa frekar ritdóma um bækur en verkin sjálf. Í fyrra gat ég þó á þessum stað um tvær bækur, sem ég hafði lesið og fékk fyrir það ákúrur á Alþingi frá Ólafi Ragnari Grímssyni, eins og sjá má í fyrri pistlum mínum hér á síðunni. Taldi hann ekki við hæfi, að menntamálaráðherra léti í ljós skoðanir sínar með þessum hætti.

Ég er þó enn við sama heygarðshornið. Vil ég enn nefna tvær bækur, sem ég hef kynnt mér og lúta að stjórnmálum. Þar á ég annars vegar við bókina sem dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur skrifað um dr. Benjamín H.J. Eiríksson og byggist á samtölum þeirra og hins vegar við bók dr. Vals Ingimundarsonar um samskipti Íslands og Bandaríkjanna frá stríðslokum fram á sjöunda áratuginn.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram, að báða höfundana þekki ég vel og því get ég lýst aðdáun minni á því, hve mikinn dugnað þeir hafa báðir sýnt við að ljúka verkum sínum á skömmum tíma. Bækurnar fjalla að nokkru um svipað tímabil, það er þann tíma, þegar Íslendingar voru að taka eigin mál í sínar hendur.

Dr. Benjamín segir frá því, hvernig stjórnmálamenn áttuðu sig á meginsjónarmiðum í efnahagsmálum, sem höfnuðu forsjá ríkisins, og tóku að fikra sig í átt til frjálslyndra stjórnarhátta. Hann kynntist einnig Þýskalandi í þann mund, sem nasistar voru að taka völdin og Sovétríkjunum á tímum Stalíns. Saga hans er því jafnframt lýsing á meginþáttum í stjórnmálum aldarinnar frá lyktum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Tekst Hannesi Hólmsteini vel að beina athygli lesandans að þessum straumum og tengja þróun mála í íslensku stjórn- og menningarlífi við þá.

Af sögu dr. Benjamíns sjá menn, að allan þann tíma, sem saga hans spannar, voru tvö öfl, sem tókust á, talsmenn sósíalisma og ríkisforsjár annars vegar og frjálsræðis og einkaframtaks hins vegar. Aðhylltist söguhetjan fyrri skoðunina á fyrri hluta ævi sinnar en snerist síðan til fylgis við frjálsræðið.

Þessi átök setja einnig mikinn svip á rit Vals Ingimundarsonar, sem er besta úttekt til þessa á samskiptum Íslands og Bandaríkjanna á þeim árum, þegar Íslendingar voru að móta utanríkisstefnu sína og leggja grunn að samstarfi sínu við aðrar þjóðir. Átökin um utanríkisstefnuna settu meiri svip á stjórnmálastarfið allt fram á áttunda áratuginn en deilur um stefnumótun í efnahagsmálum. Er ljóst, að í því efni hafa þeir haft rétt fyrir sér, sem vildu varnarsamstarf við Bandaríkin og aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu. Þá var einnig um langan aldur haldið fram, að í samningum íslenskra og bandarískra stjórnmála- og embættismanna hefðu þeir hlutir gerst, sem ekki þyldu dagsins ljós. Þjóðviljinn sálugi hélt þeirri skoðun sí og æ á loft, að um landsal hafi verið að ræða og óeðlilegt leynimakk manna, sem voru sakaðir um landráð af talsmönnum sósíalisma og kommúnisma. Rannsóknir Vals leiða ekki einungis ljós, að réttar og raunsæjar ákvarðanir voru teknar um stefnuna í utanríkismálum heldur einnig að ásakanirnar um óeðlilegt leynimakk, landsölu og landráð eru og voru ómerkilegur kommúnistaáróður.

Ungur og mikils metinn menntamaður, Ármann Jakobsson, ritar um bók Vals í DV 5. desember sl. Er ljóst, að hann sættir sig ekki við þær ákvarðanir, sem teknar voru, þegar stefnan í utanríkis- og varnarmálum var mótuð. Segir hann þennan þátt Íslandssögunnar grátbroslegan harmleik, af því að aldrei hafi verið von á innrás Sovétríkjanna og íslenskir sósíalistar hafi verið lýðræðis- og þingræðisflokkur. Ármann heldur enn í þá skoðun, að með leynimakki hafi hernaðarsamvinnunni verið komið á. Hefur hann ekki kynnt sér þau ummæli Gylfa Þ. Gíslasonar, að Gylfi studdi varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 en ekki aðildina að NATO 1949, af því að meiri upplýsingum var miðlað um varnarsamstarfið? Umsögn Ármanns minnti mig á gömlu skrifin um þessi mál í Þjóðviljanum á tíma kalda stríðsins. Hann lítur ekki til þess, að með stefnunni frá 1949 og 1951 var staða Íslands í samfélagi þjóðanna mótuð. Hún hefur skilað þjóðinni miklum árangri og enginn getur fullyrt , hvað Sovétríkin hefðu gert, ef Ísland hefði ekki gengið í NATO og samið um varnir við Bandaríkin. Þá tóku talsmenn sósíalisma á Íslandi jafnan málstað Varsjárbandalagsins og Sovétríkjanna og vildu hlut þeirra sem mestan.

Í tilefni af góðri opinberri heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands til Danmerkur 18-21. nóvember s.l. kom út sérhefti af ritinu Nyt fra Island (nr. 2 1996, 33. árganur). Öll minnumst við þess, að Ólafur Ragnar lét utanríkismál mjög til sín taka og í um það bil áratug sat ég með honum í Öryggismálanefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þar sem við deildum oft um varnarmálin, enda var hann í forystu fyrir flokki, sem var andvígur aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Hin síðari ár snerist Ólafur Ragnar hins vegar til stuðnings við NATO. Í fyrrnefndu hefti af Nyt fra Island eru þessi orðaskipti:

Blaðamaður spyr: “Islands strategiske position under den kolde krig gav ofte anledning til heftige diskussioner omkring den amerikanske militære tilstedeværelse. Den diskussion er nærmest forstummet. Hvad ser du som forklaringen herpå?" (Þýðing: Hernaðarleg afstaða Íslands á tímum kalda stríðsins leiddi oft til heitra umræðna um dvöl bandaríska hersins. Nú eru þessar umræður að mestu þagnaðar. Hver er skýring þín á þessu?)

Forsetinn svarar: “Det er et spørgsmål, som jeg ikke har studeret nærmere. Men det er nok rigtigt, at diskussionen i dag er anderledes end for 10 år siden." (Þýðing: Þetta er mál, sem ég hef ekki velt sérstaklega fyrir mér. En hitt er að vísu rétt, að umræðurnar núna eru á annan veg en fyrir 10 árum.)

Að mínu mati segja þessi orðaskipti allt, sem segja þarf um réttmæti þeirra ákvarðana, sem teknar voru í íslenskum stjórnmálum á fyrstu 20 árum lýðveldisins og lýst er í bókum þeirra Hannesar Hólmsteins og Vals Ingimundarsonar. Segir það ekki meira en mörg orð, að við lok kalda stríðsins hættu varnarsamstarfið við Bandaríkin og aðildin að NATO að vera pólitískt ágreiningsefni. Til að öðlast skilning á því, sem gerst hefur í stjórnmálasögunni, eru þessar tvær bækur því haldgóð undirstaða.

Þriðjudaginn 3. desember tók ég þátt í tveimur utandagskrárumræðum á Alþingi, sem snerust um málefni á mínu starfssviði. Í fyrsta lagi um TIMSS-rannsóknina svonefndu um kunnáttu íslenskra grunnskólanema í stærfræði og náttúrufræði. Birtist ræða mín á þeim hluta heimasíðu minnar, þar sem er að finna ræður mínar TIMSS (3/12). Í öðru lagi var rætt um málefni LÍN í tilefni af nýlegri skýrslu Dags Eggertssonar um það efni, vísa ég einnig til ræðu minnar LÍN (3/12) um málið. Að finna að vinnubrögðum Dags líkist því að skvetta vatni á gæs, eins og heyra mátti á útvarpsviðtali við hann í kvöldfréttatíma hljóðvarps ríkisins, daginn eftir að sagt var frá þingumræðum í fréttunum og honum var gefið tækifæri til að svara því, sem fram kom í þingræðum. Hitt er ljóst, að umbúnaður skýrslunnar gerir hana ábúðarmeiri en efni standa til og menn sjá, þegar hún er lesin, og hitt er upplýst, að hvorki menntamálanefnd Alþingis né Ríkisendurskoðun standa að því að skýrslan var gerð.

Miðvikudaginn 4. desember svaraði ég þremur fyrirspurnum á Alþingi, um fornleifarannsóknir í Reykholti, sendingar útvarps og sjónvarps á Snæfellsnesi og birtingu á niðurstöðum samræmdra prófa. Vil ég benda áhugamönnum um þessi efni á hina góðu upplýsingaþjónustu, sem Alþingi rekur hér í netheimum og einng hitt, að á heimasíðu menntamálaráðuneytisins geta menn fundið svör mín við fyrirspurnum á Alþingi, bæði munnleg og skrifleg. Það tekur að vísu dálítinn tíma, að þau komi inn á síðuna vegna þess að fyrst þarf Alþingi að hreinrita þau.

Að morgni sunnudagsins 8. desember fórum við Rut til vígslu Grensáskirkju. Var það hátíðleg og ánægjuleg athöfn. Um nokkurt árabil hef ég, þegar stund gefst, farið í messu til sr. Halldórs Gröndals í Grensáskirkju og var því sérstaklega gleðilegt að fá að taka þátt í þessari vígsluhátíð, sem mörg hundruð manns sóttu.