25.11.1996

Frá Egilsstöðum til Caen

Vikan var fjölbreytileg. Hún einkenndist að öðrum þræði af því, að miklar umræður voru um skólamál og hins vegar af menningarmálum.

Föstudaginn 15. nóvember efndu námsmenn til mótmæla sinna á Ausrturvelli. Strax sama dag og um helgina var ég varð við það, að ýmsum í hópi námsmanna var misboðið vegna framgöngunnar á Austurvelli, þegar kastað var snjóboltum í ráðherrana tvo, sem beðnir voru um að koma þangað til að taka við undirksiftarlistum.

Mér var boðið til hádegisfundar í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ mánudaginn 18. nóvember. Þar var fullur salur af nemendum ásamt nokkrum kennurum á hálftíma málefnalegum fundi, þar sem við skiptumst á skoðunum. Einnig var fréttamaður hljóðvarps RÚV á staðnum, en nemendur vildu, að fjölmiðlar gætu komið til fundarins í því skyni að átta sig á því, að viðræður nemenda og ráðherra um málefni framhaldsskólanna færu fram.

Ég varð mest undrandi þegar því var hreyft af kennara á fundinum, að tillögur um endurinnritunargjald í próf kynni að verða til þess, að kennarar legðu þung próf fyrir í því skyni að afla skólunum tekna. Finnst mér þetta viðhorf með ólíkindum. Raunar kom fram á fundi með nemendum Menntaskólans á Egilsstöðum daginn eftir, að kennarar kynnu að hafa hag af þungum prófum, af því að þeir myndu sjálfir fá hluta af endurinnritunargjaldinu í sinn vasa! Sýnir þetta best, hvernig umræður geta þróast um mál. Afstaðan ræðst af getsökum, kjaftasögum eða beinlínis rangfærslum. Menn muna helst eftir því, sem er öfgakenndast og byggja síðan afstöðu sína á því. Raunar hefði mátt ætla, að slíkar sögur ættu einkum heima í löndum, þar sem reynslan kennir mönnum að treysta ekki hefðbundnum fjölmiðlum.

Eftir ríkisstjórnarfund eða í hádeginu þriðjudaginn 19. nóvember hélt ég til Egilsstaða með Ásdísi Höllu, aðstoðarmanni mínum, og Arnbjörgu Sveinsdóttur, öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi. Á Egilsstöðum hittum við Egil Jónsson, alþingismann og bónda á Seljavöllum. Fjögur vorum við síðan á ferðalagi fram yfir miðnætti, þegar aftur var komið fljúgandi til Reykjavíkur.

Við fórum með skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum og formanni skólanefndar að Eiðum og um skólahúsið á Egilsstöðum, þar sem efnt var til fundar með nemendum og kennurum. Hitnaði mér í hamsi, eftir að fundurinn hófst á því einn nemenda las yfir mér skammarbréf um neikvæða stefnu í menntamálum.

Að lokinni kynnisferð um menntaskólann fórum við að Skriðuklaustri og skoðuðum hið glæsilega hús, sem Gunnar Gunnarsson skáld og Fransiska kona hans gáfu ríkinu á sínum tíma. Undanfarið hefur verið unnið þar að gagngerum viðgerðum. Tel ég, að næsta skref sé að búa þannig um hnúta að almenningur geti skoðað húsið og það gegni meira hlutverki en til þessa í ferða- og menningarstarfsemi á Héraði. Hefur verið samið við þá, sem í húsinu búa og tillögur liggja fyrir um landrými fyrir húsið.

Frá Skriðuklaustri héldum við í Hússtjónarskólann á Hallormsstað. Var hann skoðaður hátt og lágt og síðan snæddur höfðinglegur kvöldverður með fleiri gestum og velunnurum skólans. Þar lét ég þess getið, sem ég hafði áður margsagt, að ekki vil ég leggja niður starf í skólanum heldur tengja hann enn frekar Menntaskólanum á Egilsstöðum. Tel ég mig þar með vera að fylgja fram gömlum stefnumiðum heimamanna. Nú ber hins vegar svo við, að margir vilja frekar auka sjálfstæði skólans en sameina hann ME. Nefndi ég þá, hvort vilji væri til þess að hverfa til fyrri hátta og gera skólann að sjálfseignarstofnun.

Klukkan 20.30 hófst almennur fundur okkar fjórmenninganna í Valaskjálf. Var hann vel sóttur og skemmtilegur. Lauk honum ekki fyrr en um kl. 23.00 og snerist einkum um skólamálin. Er ljóst, að sameining skólanna á Egilsstöðum og Eiðum mælist misjafnlega vel fyrir og tel ég, að hana megi endurskoða finnist verðugt verkefni fyrir hinn mikla húsakost á Eiðum. Ber enn að sama brunni, að menntamálaráðuneytið er umsýsluaðili margra mikilvægra húseigna ríkisins, sem nýtast misjafnlega vel.

Að morgni fimmtudagsins 21. nóvember héldum við Rut um Amsterdam til Parísar og þaðan til Caen í Normandie. Tóku Sverrir Haukur Gunnlaugsson og Guðný Aðalsteinsdóttir, sendiherrahjón í París, á móti okkur á Charles de Gaulle flugvellinum og þaðan ókum við, sem leið lá í rúma 2 tíma til Caen, sem er rúmlega 100.000 manna bær, frægur í síðari tíð fyrir hin miklu átök, sem urðu um hann eftir innrás bandamanna í Normandie 1944. Veittu Þjóðverjar helst fyrstu fyrirstöðu við Caen og var bærinn sprengdur að mestu í loft upp. Þar er rúmlega 20.000 manna háskóli og öflugasta norrænu deild í Frakklandi með um 100 nemendur. Fyrir tilsitilli hennar var fyrir 5 árum í fyrsta sinn efnt til norrænnar menningarhátíðar, sem kennd er við norðurljósin, Festival de Boréales. Nú var Ísland í fremstu röð af Norðurlöndunum í fyrsta sinn og var mér boðið að koma til að taka þátt í hluta hátíðarinnar. Sýndi héraðsstjórnin okkur þann heiður að bjóða okkur að gista í heiðursgestaíbúð sinni í gömlu nunnuklaustri þær tvær nætur, sem við gistum í borginni.

Að morgni föstudagsins sótti Steinunn le Breton, kennari við norrænu deildina og nýskipaður ræðismaður Íslands, okkur og við fórum í heimsókn í háskólann, hittum rektor hans og fleiri fyrirmenn. Þaðan var farið í hádegisverð til Prefet héraðsins, en hann er umboðsmaður stjórnvalda í París. Síðdegis sóttum við síðan málverkasýningu Valgerðar Hauksdóttur, sem er á tveimur stöðum í borginni og vorum viðstödd, þegar sá hluti hennar, sem er í einskonar kennaraháskóla borgarinnar var opnaður. Um kvöldið flutti ég ávarp ásamt öðrum, þegar menningarhátíðin var formlega opnuð í hátíðarsal héraðsstjórnarinnar. Deginum lauk síðan með tónleikum, þar sem Inga Jónsdóttir söng verk eftir Mahler með héraðshljómsveitinni.

Næsti morgun hófst á heimsókn í ráðhúsið, þar sem rætt var við borgarstjórann, sem jafnframt situr í öldungadeild franska þingsins. Við skruppum eftir heimsóknina inn í borgarbókasafnið við hliðina á ráðhúsinu, þar sem í barnadeildinni voru sýndar íslenskar bækur og Dimmalimm-myndir eftir Mugg hengu á veggjum. Síðan fórum við í Fnac-búðina í bænum, þar sem meðal annars voru til sýnis í stórri verslanamiðstöð ljósmyndir frá Íslandi eftir Patrick Chefson, sem jafnframt var að senda frá sér litla Íslandsmyndabók. Í hljóðupptökusal Fnac var France Culture, franska menningarútvarpið, sem nær til landsins alls að taka upp klukkutíma þátt, sem sendur var út klukkan 14.00 þennan sama laugardag, þar sem rætt var um íslenska menningu við höfundana Thor Vilhjálmsson, Steinunni Sigurðardóttur og Álfheiði Gunnlaugsdóttur bókmenntafræðinginn Torfa Túliníus,og þýðendurna Régis Boyer og Catherine Eyjólfsson. Eftir stutta viðdvöl þar fórum við í ævafornan hertogasal í kastala bæjarins, þar sem kom í minn hlut að opna íslenska sögu- og arkitektasýningu. Þá bauð borgarstjórnin í hádegisverð og síðan vorum við viðstödd upphaf bókmenntamuræðna í hátíðarsal kastalans, þar sem Guðbergur Bergsson var meðal þátttakenda. Bók hans Svanurinn var að koma út á frönsku og naut þess heiðurs að Milan Kundera ritaði um hana lofsamlega umsögn í eitt af hinum virtu vikublöðum Frakka, Le Nouvel Observateur. Eftir upphaf bókmenntaumræðnanna hurfum við á braut, skruppum til Bayeux og sáum hinn fræga og einstæða refil. Síðan lá leiðin til Parísar og urðum við ekki fyrir óþægindum vegna vegtálmana vöruflutningabíla. Frá París héldum við síðan um London síðdegis sunnudaginn 24. nóvember.

Þessi menningarkynning er hin mesta, sem við Íslendingar höfum staðið að í Frakklandi. Var ánægjulegt að sjá, hve mikinn áhuga allt vakti, sem við sáum og heyrðum. Hvarvetna voru fullir salir og fjölmiðlamenn létu sig ekki heldur vanta. Hitt var ekki síður fróðlegt að kynnast þeirri rækt sem Normannar nútímans eru teknir til við að sýna hinum forna sameiginlega arfi með okkur frá þeim tíma, þegar Ísland var að byggjast. Fyrir mig persónulega var þetta nokkur prófraun, því að ég ákvað að flytja mál mitt á frönsku og tala þá tungu við viðmælendur mína. Vona ég, að það hafi komist til skila, sem ég hafði að segja. Mér finnst franska ögrandi tungumál og er fagnaðarefni, hve margir hafa áhuga á að læra hana hér á landi. Er síður en svo lítils virði fyrir okkur Íslendinga að leggja rækt við Frakka, sem virðast jafnan ráða því, sem þeir vilja á Evrópuvettvangi. Frakkar eru líkir okkur að því leyti, að þeir kunna vel að meta þá, sem tala tungu þeirra, en hana telja þeir eiga undir högg að sækja.

Á meðan ég var erlendis héldu framsóknarmenn flokksþing sitt og birt var niðurstaða í alþjóðlegri könnun á þekkingu skólanema í ýmsum löndum í raungreinum. Fengum við Íslendingar frekar laka einkunn þar.