31.10.1996

Jón Baldvin hættir - Gautaborg - Búdapest

Nokkuð hefur dregist, að ég settist niður og segði frá því, sem á dagana hefur drifið, enda var ég um síðustu helgi á ferðalagi erlendis. Helgarnar eru helsti tíminn til þess að taka þessa pistla saman.

Pólitísku tíðindin eru frekast þau, að Jón Baldvin Hannibalsson lýsti yfir því, að hann myndi hætta formennsku í Alþýðuflokknum eða réttara sagt ekki gefa kost á sér að nýju á komandi flokksþingi. Jafnframt stillti hann upp arftaka sínum og því liði, sem skipa ætti forystu flokksins. Þegar þetta er ritað hefur sú uppstilling þegar riðlast, því Guðmundur Árni, sem Jón vildi, að yrði áfram varaformaður, hefur ákveðið að bjóða sig fram gegn formannsefni Jóns, Sighvati.

Í heita pottinum í Sundhöllinni, þar sem ég er yfirleitt tæplega hálfátta á morgnana, sagði einhver, að af fréttum að dæma mætti halda, að formannskjör í Alþýðuflokknum væri álíka mikilvægt og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þetta væri skrýtið, því að flokkskríli krata skipti líklega ekki meira máli núna en oftast áður.

Sjálfumgleðin, sem einkennir Alþýðuflokkinn, ríður ekki við einteyming. Forystumennirnir ganga hver eftir annan fram fyrir skjöldu og segja flokkinn hugmyndasmiðju íslenskra stjórnmála, sagt er að Jón Baldvin hætti á toppnum og fjölmiðlamenn segja hann líklega aldrei hafa verið sterkari stjórnmálamann en þegar hann hættir. Þetta éta menn upp hver eftir öðrum gagrnýnislaust. Hver er þessi styrkleiki? Krataflokkurinn er klofinn ofan í rót, þótt menn hafi ákveðið að stofna þingflokk jafnaðarmanna með Þjóðvaka. Þegar Jón Baldvin hættir, hefur ekkert miðað í sameiningu vinstri manna, sem hann hefur margsagt, að sé helsta markmið með stjórnmálastarfi sínu. Alþýðuflokkurinn er með svipað fylgi núna og þegar Jón Baldvin sigraði Kjartan Jóhannsson í formannskosningu í flokknum. Hugmyndasmíðin felst í óljósu tali um veiðleyfigjald og árásum á Sjálfstæðisflokkinn sem sérhagsmunaflokk og afturhaldsflokk í Evrópu- og GATT-málum.

Tal krata um GATT gengur fram af mér. Minnist ég þess, þegar við sátum á fundum í utanríkismálanefnd milli jóla og nýárs 1994 og gengum þar frá samþykkt um aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (áður GATT). Var málið þá allt komið í eindaga og tel ég, að náðst hafi að afgreiða það á Alþingi, þrátt fyrir bramboltið í Jóni Baldvini, þáverandi utanríkisráðherra, og aðstoðarmönnum hans. Eftir að við sjálfstæðismenn höfðum klárað að koma málinu í gegn á Alþingi, tóku kratar til við að berja á okkur með þeim áróðri, að við hefðum dregið taum bænda um of. Síðan hefur verið margsýnt fram, að hér á landi göngum við síður en svo frekar erinda bænda í þessu efni en aðrar þjóðir. Þessi sannleikur má sín hins vegar ekki mikils i opinberum umræðum og helst mætti halda, að við sjálfstæðismenn hefðum verið á móti okkar eigin verkum í þessu efni.

Í dag (fimmtudag 31. október) sér Morgunblaðið ástæðu til að birta sérstaka frétt um leiðara í Alþýðublaðinu frá því í gær. Slíkt gerist ekki nema talið sé um tímamótaskrif að ræða. Ber leiðarinn öll höfundareinkenni Jóns Baldvins og byggist að verulegu leyti á kenningum höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag, sem miðar að því að sýna fram á, að líklega sé Sjálfstæðisflokkurinn að verða tímaskekkja. Fylgi hans eigi helst rætur að rekja til kalda stríðsins. Þessi kenningasmíð á rætur að rekja til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist ekki stefnu Morgunblaðsins og Alþýðuflokksins um veiðileyfagjald auk þess hefur Morgunblaðið komist að þeirri niðurstöðu, að Sjálfstæðisflokkurinn skynji ekki áhrif evrópska myntsambandsins á íslenska hagsmuni. Undir þessar skoðanir er tekið af Alþýðublaðinu og þar með komist að þeirri niðurstöðu, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki samstarfshæfur í landstjórninni. Mogunblaðið velur frétt sinni um leiðara Alþýðublaðsins þessa fyrirsögn: Samstarf við Sjálfstæðisflokk ekki lengur sjálfsagt.

Þessi tónn í garð Sjálfstæðisflokksins er í samræmi við hinar kuldalegu kveðjur, sem Jón Baldvin kýs að senda Davíð Oddssyni, þegar hann hverfur úr formannssætinu. Má helst draga þá ályktun, að Jón Baldvin telji Davíð helst hafa komið í veg fyrir, að hin pólitísku höfuðmarkmið hans náðust ekki, en eins og áður sagði voru þau að sameina vinstri menn. Davíð bendir hins vegar á, að líklega miði það frekar að sameiningu vinstri manna, að Jón Baldvin dregur sig í hlé.

Föstudaginn 25. október hélt ég til Gautaborgar til að taka þar þátt í hinni árlegu bókamessu. Hafði menntamálaráðherra Svíþjóðar, Carl Tham, frumkvæði að því að bjóða norrænum starfsbræðrum sínum að koma til þátttöku í pallborðsumræðum um vísindi og rannsóknir. Var morgun laugardagsins 26. október helgaður málþingi ráðherrans um þetta mál. Voru þetta hinar fróðlegustu umræður og lauk þeim á því að við ráðherrarnir lýstu skoðunum okkar. Hinn norski kom ekki, enda nýkominn í nýja ríkisstjórn, sá danski boðaði forföll á síðustu stundu og vorum við því fulltrúar þriggja landa, sem létum frá okkur heyra.

Bókamessan í Gautaborg er mikil að vöxtum og þar er margt forvitnilegt að sjá. Anna Einarsdóttir, sem starfar hjá Máli og menningu ,hefur lengi séð um íslenska hluta sýningarinnar og sýnt mikinn dugnað við að koma íslenskum höfundum á framfæri. Að þessu sinni bar mest á Steinunni Sigurðardóttur, sem mér var sagt, að slegið hefði í gegn á fjölmennum viðræðufundi. Er ekki vafi á því, að þátttaka í slíkum sýningum skilar árangri, ekki síst, ef menn hafa úthald til að leggja rækt við starfið eins og Anna hefur gert.

Í kvöldverði sat ég við sama borð og John Kenneth Galbraith hagfræðingur og kona hans, en þau eru bæði háöldruð. Frú Galbraith sagðist enn minnast tveggja vikna heimsóknar sinnar til Íslands á sjöunda áratugnum, þegar James Penfield var sendiherra Bandaríkjanna hér, en hún sagðist hafa verið besta vinkona Anne eiginkonu sendiherrans. Penfield var mikill vinur foreldra minna og hélt ég að hann væri látinn, en frú Galbraith sagði mér, að hann lifði enn í hárri elli.

Í Gautaborg fékk ég ánægjulegt tækifæri til að hitta forráðamenn íslenska safnaðarins og Íslendingafélagsins á heimili íslensku presthjónanna. Séra Jón Dalbú hefur með starfi sínu stuðlað að aukinni samheldni meðal Íslendinga í þessari fjölmennu nýlendu.

Sunnudaginn 27. október flaug ég frá Gautaborg til Búdapest, þar sem ég sat fund evrópskra menningarmálaráðherra fram á þriðjudaginn 29. október. Voru kvikmyndamál helsta umræðuefni á þessum fundum. Tókum við meðal annars þátt í hátíðarhöldum, sem tengdust 100 ára afmæli kvikmyndarinnar í Ungverjalandi.