22.9.1996

Stúdentaráð, heimasíðan , menningararfur ofl.

Nú er svo komið, að Stúdentaráð Háskóla Íslands er tekið til við að álykta í tilefni af því, sem birtist hér á heimasíðunni, og menn eru spurðir álits á skoðunum mínum hér, án þess líklega að þeir hafi nokkru sinni kynnst þeim nema í endursögn annarra.

Hinn 8. september setti ég þessa klausu inn á síðuna mína, þegar ég fjallaði um stjórnsýslumálefni háskóla, án þess að ég hefði Háskóla Íslands sérstaklega í huga:

“Í háskólasamfélaginu er málum þannig háttað, að rektor, kjörinn beint af starfsmönnum, fær aukið vald til að ráða starfsmenn. Ekki er síður þar en annars staðar nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd nýjum aðferðum við stjórnsýslu. Í því efni þarf að líta til þess, hvert rektor sækir umboð sitt, róttækasta breytingin yrði, að ráðherra skipaði hann eins og aðra forstöðumenn stofnana. Ég tel, að kjósa eigi til háskólaráðs tiltekinn fjölda manna innan háskólans og auk þess skipi menntamálaráðherra fulltrúa sína í ráðið og einnig deildarráð."

Hefur Stúdentaráð dregið þá ályktun af þessum orðum, að ég ætli að leggja það til, að menntamálaráðherra skipi rektor. Ég segi hins vegar í hinum tilvitnuðu orðum ekki annað en það, að slíkt yrði róttækasta breytingin. Hvar stendur að ég ætli að beita mér fyrir henni? Þá hefur Stúdentaráð einnig ályktað gegn því, að menntamálaráðherra skipi menn í háskólaráð og deildarráð. Sú afstaða ráðsins kemur mér á óvart, því að á síðasta kjörtímabili sat ég í nefnd um þróun Háskóla Íslands, þar sem samstaða var um, að slíka breytingu bæri að gera á háskólaráði og deildarráðum og sátu fulltrúar Stúdentaráðs í þeirri nefnd.

Ég held að gera verði kröfu til þess, að Stúdentaráð hafi traustari forsendur fyrir ályktunum sínum gegn stefnu menntamálaráðherra en þær, sem hér er lýst. Að minnsta kosti er erfitt fyrir mig að taka mikið mark á ályktunum af þessu tagi. Ég sá einhvers staðar haft eftir formanni Stúdentaráðs, þegar hann fjallaði um viðhorf mín til breytinga á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að ég hefði “hreytt" einhverju út úr mér um þau mál við fjölmiðla. Eru þessi ummæli byggð á álíka traustum grunni og ályktunin um það, að ég geri kröfu til þess að skipa háskólarektor.

Í Bandaríkjunum er rætt um það, sem kallað er “political correctness", það er þá hluti, sem ræða má um á pólitískum vettvangi og hitt, sem er bannað að ræða. Gengur þessi árátta að skammta mönnum umræðuefni, hvað lengst innan veggja háskóla, og mælist síður en svo alls staðar vel fyrir. Mér sýnist Stúdentaráð vera að fikra sig inn á þá braut að álykta um það, sem menntamálaráðherra má segja og hvað hann má ekki segja, fyrir utan kröfu um það, að hann segi hlutina með einhverjum ákveðnum blæ, þegar hann ræðir við fjölmiðla.

Heimasíðuna skrifa ég áfram með þeim hætti, sem mér sýnist, hvað sem Stúdentaráð ályktar. Þá væri æskilegt, að þeir, sem taka sér fyrir hendur, að rita forystugreinar í dagblöð um skoðanir mínar hér, kynni sér þær beint en ekki í endursögn þeirra, sem afflytja þær í opinberum ályktunum. Segi ég þetta af gefnu tilefni eftir lestur eins af leiðurum Alþýðublaðsins í vikunni um þessi rektorsmál.

Menningararfurinn, MA og MH.

Mikið hefur verið um að vera í vikunni fyrir utan hin hefðbundnu skyldustörf í ráðuneytinu. Síðdegis þriðjudaginn 17. september var ég ræðumaður á fundi hverfafélags sjálfstæðismanna í Bústaða- og Fossvogshverfi. Miðvikudagskvöld 18. september var kvöldverðarboð forsætisráðherrahjónanna til heiðurs forsætisráðherra Lettlands í Viðey. Fimmtudaginn 19. september hafði ég tækifæri til að heimsækja Rafhönnun og kynnast því, sem þar er unnið á sviði upplýsingatækninnar, að kvöldi fimmtudagsins voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands með Erling Blöndal Bengtssyni sem einleikara á selló, föstudagskvöldið 20. september var frumsýnt leikrit eftir Vaclav Havel á Litla sviði Borgarleikhússins, þar sem Þorsteinn Gunnarsson brá um eftirminnanlegri mynd af andófsmanni í kúgunarríki. Síðdegis laugardaginn 21. september talaði ég fyrst á stefnuráðstefnu Sambands ungra sjálfstæðismann og síðan í 75 ára afmælishófi Ólympíunefndar Íslands.

Föstudaginn 20. september efndi Þjóðminjasafnið til fundar í tilefni af tilmælum Evrópuráðsins um að í aðildarríkjum þess minnust menn skyldu sinnar við menningararfleifðina. Þar kom í minn hlut að flytja ræðu um hlut Íslands í evrópskri menningararfleifð.

Sunnudaginn 22. september var hátíð í tveimur menntaskólum. Á Akureyri var því fagnað, að nýtt skólahús kæmist í notkun. Flutti ég ávarp við það tækifæri á nýjum og glæsilegum Sal skólans, þar voru rúmlega 700 manns og var eftirtektarvert, hve þögnin var mikil, þegar menn fluttu ræður sínar. Er það hluti af hinum góða skólabrag, sem einkennir MA.

Að kvöldi sunnudagsins 22. september tek ég þátt í hátíðarhöldum Menntaskólans við Hamrahlíð vegna 30 ára afmælis hans. Þar flyt ég einnig ræðu . Skrifa ég þennan vikupistil minn á hlaupum á milli þessara ágætu menntaskóla.