16.9.1996

Lánasjóðurinn og ungir framsóknarmenn

Í dag var lesin í útvörpum og sjónvörpum ályktun ungra framsóknarmanna um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Lyktaði henni á þann veg, að færi ég ekki að vilja þeirra, bæri að skipta um menntamálaráðherra. Í viðtali við Bylgjuna sagði ég, að um þennan hluta ályktunarinnar gæti ég ekki tjáð mig, honum hlyti að vera beint til Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem tæki ákvörðun um það á hvaða forsendum hann leiddi flokk sinn í ríkisstjórn.

Við myndun ríkisstjórnarinnar var samin stefnuyfirlýsing hennar, þar sem segir meðal annars, að lög og reglur um Lánasjóð ísl. námsmanna skuli endurskoðaðar. Þar er ekkert tekið fram um það í hvaða átt þessi endurskoðun skuli hníga. Skipaði ég nefnd síðastliðið sumar til að vinna að málinu og sitja tveir frá hvorum stjórnarflokkanna í henni auk fulltrúa frá námsmannahreyfingunni.

Nefndin hefur verið að störfum síðan og farið yfir lög og reglur svo sem henni bar. Að lokum eru það tvö atriði, sem skipta meginmáli, það eru reglur um endurgreiðslur námslánanna og spurningin um það, hvort veita eigi lán úr Lánasjóðnum án þess, að gerðar séu kröfur um, að námsmaður hafi náð árangri í námi sínu með prófi. Krafan um svonefndar samtímagreiðslur byggist á því, að lánað sé án tillits til námsframvindu. Eins og ég hef áður sagt hér á þessum stað, hef ég orðið var við minnkandi áhuga á þessum þætti málsins meðal ýmissa trúnaðarmanna námsmanna, sem rætt hafa við mig. Ljóst er, að fyrir viðskiptamenn sjóðsins er miklu meira hagsmunamál að breyta endurgreiðslureglunum þeim í hag. Tel ég eðlilegt, að kannaðar séu allar leiðir til þess.

Í ályktun ungra framsóknarmanna er ekki lengur talað um samtímagreiðslur heldur mánaðargreiðslur og sagt, að í því efni sé vísað til orða, sem Sigríður Anna Þórðardóttir lét falla í útvarpsþætti. Við Sigríður Anna unnum saman að því að koma breytingum á samtímagreiðslukerfinu í gegnum Alþingi 1992, af því að við vorum sannfærð um að það myndi gera LÍN gjaldþrota. Erum við enn sammála um galla þess kerfis. Hvorugt okkar vill, að unnt sé að fá lán úr LÍN nema menn hafi skilað námsárangri.

Ég man eftir því frá mínum yngri árum, að eitt af kappsmálum margra, sem störfuðu að stjórnmálum, var, að tryggja sér sérstöðu, finna eitthvert mál til að skilja sig frá andstæðingnum, helst vinsælt, svo að hann ætti undir högg að sækja. Fyrir síðustu kosningar voru lánamál námsmanna notuð til þess að koma höggi á okkur sjálfstæðismenn með tilraunum til að sýna fram á, að með óhæfilegum hætti hefði verið gengið á hlut námsmanna með nýjum lögum um LÍN. Er óhjákvæmilega vinsælt að berjast fyrir því, að menn geti fengið lán á afbragðskjörum án þess að þurfa að uppfylla önnur skilyrði en innrita sig á lánshæfa námsbraut. Á grundvelli slíks málflutnings telja ungir framsóknarmenn nú, að þeir geti komið höggi á mig, af því að ég held fast við þá stefnu, sem við sjálfstæðismenn boðuðum fyrir kosningar um þetta efni.

Málið er hins vegar flóknara en svo, að það leysist með því að skipta um menntamálaráðherra. Halldór Ásgrímsson benti réttilega á það, þegar hann var spurður álits á ályktun hinna ungu flokksmanna sinna, að ríkisstjórnin hefði sett sér það markmið að ná niður halla á ríkissjóði. Það væri höfuðatriði, annað yrði að víkja fyrir því. Þetta er kjarni málsins. Að taka upp dýrt úthlutunarkerfi LÍN á þessum tíma er raunar ekki aðeins spurning um stöðu ríkissjóðs heldur einnig um forgangsverkefni á sviði menntamála við þröngan fjárhag ríkissjóðs. Ég er þeirrar skoðunar, að við slíkar aðstæður sé nær að veita fé til þeirra stofnana, sem ríkið starfrækir til að veita menntun, skólanna, en í framfærslueyri fyrir þá, sem námið stunda.