8.9.1996

Stjórnsýsla innan háskóla

Oftar en einu sinni hef ég vakið máls á því í umræðum um málefni Háskóla Íslands, að ég teldi ástæðu til að huga að innri málefnum hans og stjórnsýslu. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars seta mín í nefnd á síðasta kjörtímabili um þróun Háskóla Íslands. Í tillögum nefndarinnar koma fram hugmyndir um breytingar á stjórnsýslu skólans.

Á grundvelli laga, sem Alþingi samþykkti á liðnu vori um breytingar á réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins, hafa orðið nokkrar umræður um réttarstöðu prófessora við Háskóla Íslands. Hafa þeir óskað eftir því að verða embættismenn á grundvelli laganna. Telja þeir það best samrýmast stöðu prófessora auk þess sem sú skipan myndi leiða til þess, að þeir féllu undir kjaranefnd, hefðu ekki samnings- eða verkfallsrétt en yrðu að sætta sig við niðurstöðu nefndarinnar um kaup sitt og kjör.

Ósk prófessora um þetta efni hefur vakið hörð viðbrögð innan Háskóla Íslands. Lögum samkvæmt ber að auglýsa öll embætti og ráða menn til þeirra eftir mat á hæfileikum. Innan háskóla hefur hins vegar orðið til svonefnt framgangskerfi, þar sem menn eru ráðnir sem lektorar og ganga síðan fram til dósents og loks til prófessors eftir nánari reglum og á grundvelli álits dómnefnda. Störfin eru ekki auglýst. Þegar prófessorar óskuðu eftir að verða prófessorar setti Félag háskólakennara fram þá "ófrávíkjanlegu kröfu", að framgangskerfið yrði ekki lagt niður. Þrátt fyrir ákvæðið um, að auglýsa eigi embætti skyldi það ekki gilda innan háskóla, þegar um framgang úr starfi dósents til prófessors væri að ræða. Þarna ætti að gera undantekningu frá almennu reglunni um, að öll embætti skuli auglýsa.

Inn í umræður um þessi mál hef ég að undanförnu varpað fram hugmyndum um breytingar á æðstu stjórn háskóla. Almennar lagabreytingar varðandi starfsmannahald ríkisins og setning stjórnsýslulaga hafa miðað að því að skilgreina hlutverk kjörinna fulltrúa annars vegar og forstöðumanna stofnana og starfsmanna þeirra hins vegar. Það er talinn liður í því að bæta stjórnsýsluhætti að skipta verkum í því augnamiði, að hlutlægt mat ráði sem mest. Í því skyni hefur fremur verið þrengt að valdsviði okkar stjórnmálamannanna, hinna kjörnu fulltrúa.

Í háskólasamfélaginu er málum þannig háttað, að rektor, kjörinn beint af starfsmönnum, fær aukið vald til að ráða starfsmenn. Ekki er síður þar en annars staðar nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd nýjum aðferðum við stjórnsýslu. Í því efni þarf að líta til þess, hvert rektor sækir umboð sitt, róttækasta breytingin yrði, að ráðherra skipaði hann eins og aðra forstöðumenn stofnana. Ég tel, að kjósa eigi til háskólaráðs tiltekinn fjölda manna innan háskólans og auk þess skipi menntamálaráðherra fulltrúa sína í ráðið og einnig deildarráð.

Ekki er ólíklegt, að nokkrar umræður verði um þessi mál á næstunni. Í menntamálaráðuneytinu er unnið að því að semja almenna rammalöggjöf um háskólastigið og er eðlilegt, að stefnumörkun af þessu tagi komi þar til álita. Hið sama á við um frumvarp til laga um uppeldisháskóla. Það hlýtur að taka mið af nýjum hugmyndum um stjónarhætti innan háskóla. Stefni ég að því, að Alþingi fjalli um þessi mál á komandi vetri.