1.9.1996

Er heimasíða launsátur?

Í Morgunblaðinu birtist hinn 29. ágúst grein eftir Svavar Gestsson, þingflokksformann Alþýðubandalagsins, þar sem hann gagnrýnir mig fyrir hugleiðingar á heimasíðu minni og telur, að þar vegi ég á fólk úr launsátri. Svavar tekur tvö dæmi.

Annað er úr pistli mínum frá 19. ágúst síðastliðinn, þegar ég fjalla um töku auglýsingakvikmyndar í efsta hluta Almannagjár og segi meðal annars: “Þótti mér sérkennilegt að sjá það í Morgunblaðinu, að sr. Hönnu Maríu Pétursdóttur, þjóðgarðsverði á Þingvöllum, var í nöp við þessa ákvörðun Þingvallanefndar, því að hún hafði ekki haft fyrir því að láta þá skoðun í ljós við mig. Raunar hefur sr. Hanna María ekki verið virk í þjóðgarðsvarðarstörfum sínum undanfarið."

Hitt er úr vikupistli mínum frá 17. júní 1996, þar sem ég segi frá samskiptum mínum við skólastjóra heyrnleysingjaskólans í Vesturhlíð og uppsögn hans. Gerði ég það að gefnu því tilefni, skólastjórinn kaus að vitna í tölvusamskipti okkar í útvarpsviðtali.

Loks tekur Svavar Gestsson upp hanskann fyrir Morgunblaðið, af því að ég hafði svarað leiðaraskrifum þess um fjármál Háskóla Íslands.

Þessari Morgunblaðsgrein þingflokksformanns Alþýðubandalagsins lýkur með spurningu: Er það eðlilegt að ráðherra hver sem það er, vegi að undirmönnum sínum úr launsátri alnetsins eins og menntamálaráðherra hefur gert í sumar?

Þeir sem lesa vikupistla mína með öðrum gleraugum en Svavar Gestsson, sem lærði áróðursskrif í Austur-Þýskalandi, á meðan kommúnistar réðu þar lögum og lofum, sjá, að því fer víðs fjarri, að ég vegi að nokkrum úr launsátri í þessum pistlum. Þar er ekki fjallað um önnur mál af opinberum toga en þau, sem með einum eða öðrum hætti hafa verið til umræðu í fjölmiðlum.

Ef stjórnmálamenn, ráðherrar eða alþingismenn, mega ekki svara fyrir sig eins og aðrir, er langt gengið í ritskoðurnarkröfum, jafnvel á mælikvarða austur-þýskra kommúnista.

Heimasíðu minni er ekki haldið að neinum og oftar en einu sinni hef ég vikið að því, að hún er skrifuð fyrir þá, sem nenna að opna hana og líta á hvað þar stendur. Hún er að sjálfsögðu skrifuð með persónulegri hætti en grein í dagblað, þess vegna finnst mér oft óþægilegt að sjá birta kafla af síðunni í blöðum. Hins vegar hef ég ekki lagt bann við því að fjölmiðlar vitni í það, sem stendur á síðunni, og mun ekki gera.

Ef einhver hefur áhuga á að kynnast óvönduðum vinnubrögðum við meðferð á því, sem ég hef sagt á síðunni, ættu þeir að lesa fyrrnefnda grein Svavars Gestssonar og bera það, sem hann segir, saman við frásögn mína. Þá sjá þeir, að hann ástundar hálfsannleik, sem er stundum verri en lygi. Hann talar um skólastjórann, sem sagði af sér, sem starfsmann menntamálaráðuneytisins, líklega af því að Svavar veit, að lesendur Morgunblaðsins hefðu fengið aðra mynd af því, sem hann er að segja, ef hann hefði hreinlega sagt, að hér væri um skólastjórann í Vesturhlíð að ræða. Ég og skólastjórinn höfum nefnilega einnig skipst á orðsendingum á síðum Morgunblaðsins.

Svavar lætur þess ekki heldur getið í greininni, að undrun mín yfir afstöðu þjóðgarðsvarðar til töku auglýsingamyndarinnar átti rætur að rekja til þess, að þjóðgarðsvörður hafði ekki haft fyrir því að kynna Þingvallanefnd þessa afstöðu sína. Skýri ég það með þeim orðum, að sr. Hanna María Pétursdóttir hafi ekki verið virk í störfum sínum fyrir nefndina undanfarin misseri. Ég skil raunar ekki, hvers vegna menn ættu kippast við eða þeim að bregða, þegar skýrt frá staðreyndum, sem þeim ættu að vera betur ljósar en öðrum.

Svavar Gestsson má reyna að nota þessa vikupistla mína til að slá pólitískar keilur og búa til píslarvotta úr þeim, sem að er vikið í þessum hugleiðingum. Hann ætti hins vegar að vanda sig meira, þegar hann sest í dómarasætið og tekur til við siðvæðingu sína. Þessi skrif hans eru í ætt við það, sem birtist í Vikublaðinu, málgagni Alþýðubandalagsins, í síðustu viku, þegar látið var að því liggja, að menntamálaráðuneytið stæði undir einhverjum kostnaði vegna heimasíðu minnar. Dylgjur af þessu tagi hitta rógberana sjálfa, því að þessi upplýsingamiðlun mín er ríkinu að kostnaðarlausu.