25.8.1996

Fjárlagavinna - ferð á Snæfellsnes

Ríkisstjórnin fjallaði um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár á fundum sínum í vikunni og síðan komu þingflokkar stjórnarflokkanna saman laugardaginn 24. ágúst til að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar. Náðist samstaða um meginatriði, á hinn bóginn þarf enn að útfæra ýmsar tillögur en afstaða þingmanna til þeirra kann að ráðast af útfærslunni.

Fjárlagatölur menntamálaráðuneytisins lækka töluvert eða um rúma sex milljarða vegna færslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni minni er við því að búast, að hagræða verði í framhaldsskólunum til að menntamálaráðuneytið geti uppfyllt kröfur, sem til þess eru gerðar um sparnað í rekstri, einnig verður litið til ráðuneytisins sjálfs og seglin dregin saman í mannahaldi þess.

Almennt séð verður ekki annað sagt en ríkisstjórninni og þingflokkum hennar hafi tekist bærilega að komast að niðurstöðu um megindrætti fjárlagafrumvarpsins. Markmiðið um hallalaus fjárlög 1997 nýtur stuðnings í þingflokkunum og raunar hefur það sjónarmið hljómgrunn, að stefna beri af tekjuafgangi á ríkissjóði.

Hitt er ljóst, að ekki verða allir, sem starfa á grundvelli fjárlaganna ánægðir með samdrátt. Umræður um þá óánægju eiga vafalaust eftir að verða töluverðar á komandi vikum.



--------------------------------------------------------------------------------


Að morgni fimmtudagsins 22. ágúst hitti ég hóp Norðmanna, sem hér hefur dvalist í nokkra daga á vegum samtakanna Folk og forsvar. Var ánægjulegt að ræða við hann um samskipti Noregs og Íslands og svara spurningum um íslensk málefni.

Um hádegisbilið þennan sama fimmtudag héldum við Ásdís Halla aðstoðarmaður minn með Akraborginn í ferð un norðanvert Snæfellsnes. Hófst hún með heimsókn í gömlu lóranstöðina á Gufuskálum, þar sem heimamenn vilja koma á fót björgunarskóla. Ræddum við málið við þá á skrifstofu sveitarstjórnar Snæfellsbæjar.

Húsakostur á Gufuskálum hentar mjög vel undir slíka starfsemi. Húsin eru í góðu lagi og er brýnt að tekin verði ákvörðun um notkun þeirra. Utanríkisráðuneytið og Póstur og sími koma að þeirri ákvörðun. Mér skilst, að björgunarsveitir hafi áhuga á að reka sjálfar skólann. Tók ég hugmyndum um það vel, því að ég tel mjög brýnt að aðstaða sé fyrir hendi, þar sem unnt er að læra að bregðast við á hættustundu við íslenskar aðstæður og undir þeim aga, sem nauðsynlegur er á slíkum tímum. Væri slíkur skóli starfræktur er ég viss um, að í ýmsum framhaldsskólum landsins myndi verða áhugi á að skipuleggja námsbrautir í samvinnu við hann. Undirbúa þarf þetta mál mjög vel og huga bæði að námskröfum og fjárhagslegu hliðinni.

Frá Snæfellsbæ héldum við með þingmönnunum Sturlu Böðvarssyni og Guðjóni Guðmundssyni til Grundarfjarðar, þar sem við hittum bæjarstjórnina og síðan sjálfstæðismenn á staðnum. Um kvöldið var síðan almennur fundur á vegum Sifjar, félags ungra sjálfstæðismanna, um skóla- og menntamál í hótelinu á Stykkishólmi, þar sem við gistum um nóttina.

Stykkishólmsfundurinn var ekki fjölmennur í blíðviðrinu en mjög fróðlegur, vegna þess að heimamenn gerðu glögga grein fyrir því, hvernig þeir líta flutning grunnskólans og framhaldsmenntun. Þar eins og annars staðar kom fram ánægja með flutning grunnskólans og metnaðarfullt viðhorf til þess verkefnis á vegum sveitarfélagsins.

Við komum aftur til Reykjavíkur fyrir hádegi föstudaginn 23. ágúst og tóku síðan við skyldustörf fram eftir kvöldi þann dag, því að ríkisstjórnin hittist klukkan 19.00 og var að störfum fram yfir eitt um nóttina. Laugardagssíðdegið fór einnig allt í fundarhöld.

Síðdegi sunnudagsins 25. ágúst notuðum við Kjartan Gunnarsson til að ganga á Esju. Var ánægjulegt að fá tóm til að nota góðviðrið til þess. Mest var ég undrandi á fjölmenninu á fjallinu. Við gengum upp frá Mógilsá en fyrir áratugum gengum við upp úr Kjósinni og var sannarlega tími til kominn að láta verða af því að fara þessa vinsælu leið.