15.8.1996

Fjárhagsvandi - forsetahátíð - sumarfrí

Þegar við Rut vorum á leið heim úr rúmlega viku sumarfríi í Frakklandi og ég las Moggann í flugvélinni sá ég frétt um það, að stefndi í halla hjá Háskóla Íslands á þessu ári. Var gefið til kynna, að hann kynni að verða um 60 milljónir króna miðað við fjárlög ársins.

Á fundi með samstarfsmönnum mínum í ráðuneytinu, mánudagsmorguninn 12. ágúst, daginn eftir heimkomuna spurði ég þá, hvort þeir hefðu eitthvað heyrt frá Háskóla Íslands um þessa fjárhagsörðugleika. Þeir voru jafnnær og ég, höfðu ekki séð annað en stóð í Morgunblaðinu. Sérstaklega kom á óvart, að þess var getið, að hallinn ætti rætur að rekja til reksturs fasteigna HÍ.

Ég var ekki fyrr kominn af þessum fundi en blaðamenn tóku að hringja til að fá viðbrögð mín við þessari stöðu HÍ. Ég sagði við þann fyrsta, að því miður gæti ekki tjáð mig um málið, fyrr en ég hefði kynnt mér það. Hafði ég síðan samband við háskólarektor og ræddi málið við hann.

Blaðamennirnir nálguðust málið á þeirri forsendu, að allt stefndi í hinn mesta voða. Gat ég helst skilið á sumum þeirra, að HÍ væri að hruni kominn og þar með öll æðri menntun í landinu. Ég greindi frá því, að vandinn væri líklega sá, að 25 milljónir þyrfti að spara við kennslu og kostnaður við rekstur fasteigna væri orðinn 25 milljónum meiri en ráð var fyrir gert. Til kennslu í HÍ væri á fjárlögum varið rúmum 1100 milljónum króna, þannig að hér væri verið að tala um vanda, sem væri innan við 2% af fjárveitingu. Hann ætti ekki að vera óviðráðanlegur, HÍ yrði að sníða sér stakk eftir vexti. Með þeim orðum vísaði ég til þess, að hann yrði eins og aðrar stofnanir að halda sig innan fjárlaga. Ýmislegt fleira sagði ég við blaðamennina um þessi mál, eins og það, að háskólamenn hefðu oftar en einu sinni farið fram á betri stjórntæki til að nýta það fé, sem þeim væri skammtað. Teldi ég eðlilegt að koma til móts við þær óskir. Þá vissi ég ekki um neina ríkisstofnun, sem teldi sig fá það, sem hún þyrfti á fjárlögum. Um mitt ár yrðu menn að líta í eigin barm og huga að þróuninni síðari hluta ársins, það væri nú að gerast innan HÍ og skólinn ætlaði að taka á vandanum.

Morgunblaðið skrifaði leiðara um málið miðvikudaginn 14. ágúst og andmælti því, að það dygði að segja við HÍ, að skólinn yrði að sníða sér tsakk eftir vexti. Leiðarinn var síður en svo frumlegur, miklu frekar gamaldags réttlæting aukinna ríkisútgjalda, sem lauk á þeirri merku ábendingu, að það yrði að gera “eitthvað" í málefnum HÍ!! Síðastliðinn sunnudag birtist leiðari í Morgunblaðinu, þar sem mælt var gegn því, að tekið yrði undir óskir Verslunarskóla Íslands um að koma á fót Verslunarháskóla. Nær væri að veita auknu fé til viðskiptadeildar HÍ. Þetta þótti mér einnig gamaldags viðhorf, kerfislegt og staðnað. Miðvikudaginn 14. ágúst kvað við allt annan tón um þessi mál í leiðara Viðskiptablaðsins. Voru þær hugmyndir, sem þar koma fram varðandi fjárhagsvanda HÍ, og rökræður um tilmæli Verslunarskólans um nám á háskólastigi miklu nær sjónarmiðum mínum en það, sem stóð í Morgunblaðinu. Raunar skil ég ekki, að Morgunblaðið sjái ástæðu til að gagnrýna, að ráðherra leggi áherslu á, að opinberar stofnanir eins og Háskóli Íslands hagi starfsemi sinni í samræmi við fjárlög. Er þá Bleik brugðið, frá því að ég sat og skrifaði leiðara í það ágæta blað. Raunar á ég oft erfitt að átta mig á því, hvort blaðið er með eða á móti einhverri stefnu, til dæmis því að ná niður hallanum á ríkissjóði, því að það er slegið úr og í - mætti stundum halda að blaðið væri í framboði, þótt það sé auðvitað hafið yfir slíkt.

Þegar þetta er skrifað fimmtudaginn 15. ágúst hef ég ekki fengið neina greinargerð frá Háskóla Íslands um þennan fjárhagsvanda, þótt hann hafi verið til umræðu í fjölmiðlum í tæpa vinnuviku.

Í kvöld birtist frétt í Stöð 2, þar sem því er slegið föstu, að menntamálaráðuneytið sé komið 500 milljónir króna fram úr fjárlögum og standi verst ráðuneyta. Kom þetta mér í opna skjöldu og veit ég, að ekki var leitað til neins í ráðuneytinu, áður en þessi frétt birtist. Þarna hlýtur að vera um það að ræða, að samkvæmt greiðsluáætlun fjárlaga er staða ráðuneytisins þetta í mínus og skýrist það af því, að sumum stórum greiðslum til dæmis vegna grunnskólans, sem fluttist til sveitarfélaganna 1. ágúst, hefur verið flýtt, gera þarf upp fjárhagsdæmið vegna grunnskólans, og greiðslum innan ramma HÍ hefur einnig verið flýtt. Þegar á heildina er litið stefnir í það, að ráðuneytið verði réttu megin við strikið í árslok. Þessi frétt Stöðvar 2 er til marks um það, hve varnarlausir menn geta verið gagnvart fréttamönnum, sem vita í raun ekkert um það, hvað þær tölur þýða, sem þeir eru með milli handanna.


*

Ýmsar skyldur tengdust því, að skipt var um forseta 1. ágúst. Daginn áður var haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem Vigdís Finnbogadóttir var kvödd. Eftir fundinn bauð hún ráðherrum og mökum þeirra til hádegisverðar.

Sjálfan innsetningardaginn áttu gestir að vera komnir í síðum kjólum, kjólfötum og með heiðursmerki í Dómkirkjuna klukkan 15.15, en þar hófst messa klukkan 15.30. Hjón sátu ekki saman í kirkjunni, heldur var raðað eftir embættistign. Þess vegna gengu hjón heldur ekki saman út úr kirkju í Alþingishúsið, þar sem einnig var raðað í sali eftir embættistign. Allt fór þar hátíðlega og settlega fram. Eftir athöfnina í þingsalnum var gengið fyrir forsetahjónin í Kringlunni og síðan niður í þingflokksherbergi á 1. hæð, þar sem boðið var kampavín. Fór enginn gesta úr húsinu, fyrr en þeir höfðu allir gengið fyrir forsetahjónin og þau horfið fyrst af vettvangi.

Líklega er ógerlegt fyrir aðra en að því hafa komið, að átta sig á öllum þeim atriðum, sem hafa þarf í huga, þegar athöfn eins og þessi er skipulögð. Til hennar er boðið af forsætisráðherra og sér ráðuneyti hans því um allan undirbúning eða ber ábyrgð á honum. Í tilvikum sem þessum skilja menn gildi prótokollsreglna, því að þær auðvelda svo mjög töku ýmissa viðkvæmra ákvarðana. Mér skilst einnig, að höfuðkapp sé á það lagt, að athöfnin sé í þeim föstu skorðum, sem mótaðar voru í upphafi. Minnumst þess, að svipaðar reglur hafa mótast um svo margt, sem lýtur að forsetaembættinu, enda skiptir form einna mestu í embættisfærslu þar.


*

Morguninn eftir innsetninguna, föstudaginn 2. ágúst, flugum við Rut til Kaupmannahafnar á leið okkar til Frakklands. Lögðum við þessa lykkju á leið okkar til að þiggja boð um að sækja sýningu á óperunni Gudruns 4. sang í dokk í Kaupmannahafnarhöfn, þar sem tónlistin er eftir Hauk Tómasson. Er skemmst frá því að segja, að þetta er með eftirminnilegri listviðburðum. Hugmyndaflugið og áræðið við uppsetninguna er einnig aðdáunarvert.

Að morgni laugardagsins 3. ágúst flugum við síðan til Parísar, tókum bíl á leigu og ókum sem leið liggur inn í hjarta Frakklands í sveitahéraðið Corréze, til bóndabæjar, þar sem við höfum dvalist oft áður og undum hag okkar enn á ný hið besta.