28.7.1996

Sögustaðir heimsóttir

Um nokkurra ára bil hef ég verið formaður Þingvallanefndar og tekið þátt í því að bæta þar aðstöðu fyrir ferðamenn. Er greinilegt að stígagerðin í þinghelginni umhverfis Lögberg hefur skilað þeim árangri, að gestir eru hættir að troða niður gróður. Einnig hafa brýnnar yfir Öxará, sem skildar voru eftir að loknum hátíðarhöldunum 1994 leitt til þess, að menn fara öðruvísi um svæðið en áður og njóta þess áreiðanlega betur. Í sumar hefur verið unnið að því að breyta Þjónustumiðstöðinni. Þar hafa orðið umskipti innan dyra og nú er þar góð aðstaða fyrir starfsmenn Þingvallanefndar, sem þjóna ferðamönnum. Útliti hússins hefur einnig verið breytt og unnið er að því að ljúka við bifreiðastæði við það. Þarna verður í senn miðstöð þjónustu við ferðamenn og miðstöð þeirrar starfsemi, sem Þingvallanefnd rekur.

Á stað eins og Þingvöllum ber að fara varlega við allar framkvæmdir. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að búa þannig um, að sem flestir geti notið þess að vera þar. Æskilegast er, að þar verði almenn þjónusta við ferðamenn allan ársins hring. Nokkuð hefur verið kvartað undan því, að ekki sé unnt að kaupa eldsneyti á bíla innan þjóðgarðsins. Þingvallanefnd vill ekki taka þá áhættu að setja upp aðstöðu til þess innan garðsins af ótta við, að lífríki vatnsins verði ógnað, komi til einhvers óhapps. Söguleg helgi Þingvalla á að vera öllum Íslendingum ljós. Hinu má ekki gleyma, hve einstakur staðurinn er frá náttúrunnar hendi, bæði jarðfræðilega og vatnalíffræðilega.

Huga þarf skipulega að því, hvernig sagan og staðhættir verði best kynntir. Er ljóst, að jafnt íslenskum sem erlendum gestum er unnt að miðla miklu meiri fróðleik um staðinn en gert hefur verið. Hið sama á við um Þingvelli og svo marga aðra sögustaði hér, að ekki hefur verið lögð nægilega mikil rækt við að draga fram sérkenni þeirra og gildi með kynningu, sem byggist á rannsóknum , til dæmis á fornleifum. Vil ég nefna Skálholt og Reykholt í sömu andránni, því að þessa sögustaði heimsótti ég í vikunni.

Sumartónleikarnir í Skálholti hafa áunnið sér fastan sess og draga marga gesti að þessum fornfræga stað. Var það til dæmis staðreynd laugardaginn 27. júlí þegar ég skrapp þangað síðdegis til að hlusta á Bach-sveitina og söngvara flytja verk meistarans. Hins vegar finnst mér að gera megi meira til að halda sögu Skálholts á loft fyrir gesti, sem þangað ber að garði í skyndiferð.

Í Reykholti var mikil hátíð sunnudaginn 28. júlí, þegar nýja kirkjan þar var vígð. Fyrir tveimur vikum kom Snorrastofa þar til sögunnar, en sama byggingin hýsir hana og kirkjuna, ef þannig má að orði komast. Rúmuðust hinir 500 gestir, sem voru við vígslu kirkjunnar þar vel og einnig í sýningarsalnum undir kirkjunni, þar sem okkur var boðið kaffi, pönnukökur og kleinur.

Finnst mér ljóst, að framtíðarstarfsemi í Reykholti verði skipulögð með hliðsjón af Snorrastofu og hinni nýju kirkju. Minningu Snorra Sturlusonar er unnt að gera mun betri skil en áður, eftir að hin nýja aðstaða kemur til sögunnar. Eiga sr. Geir Waage og heimamenn miklar þakkir skilið fyrir dugnað og áræði við þessa mannvirkjagerð. Hefur allt verið gert af reisn og smekkvísi. Ber að nota þetta framtak til að gera alþjóðlegan hlut Snorra meiri og þar með Reykholts. Dr. Jónas Kristjánsson hefur fært gild rök fyrir því, að Snorri var meðal merkustu sagnritara Evrópu á miðöldum og ritstörf Íslendinga á þeim tíma voru í senn íslensk og alþjóðleg. Væri æskilegt, að unnt yrði að hafa þetta að leiðarljósi við töku ákvarðana um framtíðarnot af Reykholti. Einnig þar eins og í Skálholti og á Þingvöllum þarf að nýta fornar minjar betur til að gera almennum ferðamönnum heimsóknina eftirminnilegri.

Eftir heimsóknir að Hólum og í Reykholt og Skálholt nú í sumar blasir við, að á öllum þessum sögufrægu stöðum eru mannvirki þannig úr garði gerð, að fullur sómi er af því. Í Reykholti eru gamlar byggingar þó því miður mjög illa farnar vegna þess, að fé til viðhalds hefur skort. Á Hólum er verið að gera við gamla skóla- og heimavistarhúsið með stórátaki. Þannig átak þarf einnig að gera í Reykholti. Á Þingvöllum eru ekki uppi áform um neinar stór- eða nýbyggingar heldur hlúum við að því, sem fyrir er. Æskilegt væri þó að byggja hús í líkingu við það, sem reist hefur verið við Gullfoss, í nánd við útsýnisskífuna fyrir ofan Almannagjá, þar sem væri aðstaða til að kynna ferðamönnum staðinn og afdrep fyrir þá.

Fyrir hádegi laugardaginn 27. júlí fór ég í Landakotskirkju og tók þátt í messu, sem hafði þann tvíþætta tilgang að minnast með þakklæti 100 ára starfs St. Jósefssystra hér á landi og staðfesta embættistöku nýs katólks biskups í landinu. Var þetta tveggja tíma hátíðleg stund eins og kirkjuvígslan í Reykholti.

Kvöldið áður, föstudaginn 26. júlí, efndu forsætisráðherrahjónin til kvöldverðar í Sunnusal Hótel Sögu til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur vegna brotthvarfs hennar úr embætti forseta. Sátu hann ríkisstjórn og ráðherrar úr ríkisstjórnum, sem starfað hafa í þau 16 ár, sem Vigdís hefur verið forseti, einnig ríkisráðsritarar, forsetaritarar og starfsfólk á forsetaskrifstofu.

Síðdegis miðvikudaginn 24. júlí fórum við Rut á landsmót skáta við Úlfljótsvatn. Rigndi of mikið til að heimsóknin tækist eins vel og að var stefnt af hálfu hinna ágætu gestgjafa.