23.6.1996

Björk - Bowie - Hvanneyri - Dalvík

Í fyrsta tölublaði sínu eftir 17. júní gat Alþýðublaðið þess í fimm dálka forsíðufrétt með mynd af mér, að forseti Íslands hefði sæmt mig stórriddarakrossi fálkaorðunnar á þjóðhátíðardaginn. Fréttin var birt mér og væntanlega þeim, sem stóðu að orðuveitingunni, til háðungar. Fyrirsögnin var höfð eftir Ástþóri Magnússyni forsetaframbjóðanda, sem telur, að frekar hefði átt að gefa mér langt nef en fálkaorðuna. Rökstyður hann það einkum með því, að ég hafi farið á frumsýningu á James Bond kvikmynd og þyki gaman af að horfa á Die Hard-myndir auk þess sem ég hafi opnað sjónvarpsstöð, hann sagði Stöð 3, en á að vera Sýn. Mér er sagt, að fimmtudaginn 20. júní hafi Illugi, bróðir Hrafns Jökulssonar, ritstjóra Alþýðublaðsins, notað tíma sinn í hljóðvarpi ríkisins til að gera hinu sama skil og gert var á forsíðu Alþýðublaðsins 19. júní. Er leiðinlegt til þess að vita, ef þeir bræður hafa farið af hjörunum vegna þessa hinn 17. júní.

Ógerlegt er fyrir mig að rökstyðja tillögur orðunefndar, enda á ég ekki neinn hlut að því máli. Hitt er sjaldgæft, að menn geri slíkt veður út af orðuveitingu og er það að minnsta kosti til marks um, að hinir sömu telja orðuna nokkurs virði.

Fimmtudaginn 20. júní fór ég í heimsókn í Bændaskólann að Hvanneyri með þeim Sturlu Böðvarssyni og Guðjóni Guðmundssyni alþingismönnum og Ásdísi Höllu aðstoðarmanni mínum. Tók Magnús B. Jónsson skólastjóri vel á móti okkur með sínu fólki. Fræddi hann okkur um innra starf skólans og sýndi okkur aðstæður. Enn á ný kynntumst við því, hve mikill metnaður ríkir í íslenskum menntastofnunum, sem vilja aðeins bera sig saman við hið besta og eru að verða sífellt virkari í alþjóðegu samstarfi. Þátttaka í því er brýnna fyrir okkur en flesta aðra, því að samanburður innanlands er sjaldnast fyrir hendi og til dæmis ekki í því námi, sem boðið er á Hvanneyri.

Klukkan 18.30 þennan sama fimmtudag efndum við Rut til síðdegishófs í Ráðherrabústaðnum fyrir Björk Guðmundsdóttur, fjölskyldu hennar og vini. Tilefnið var þátttaka Bjarkar í Listahátíð en tónleikar hennar voru daginn eftir. Þótti henni greinlega ánægjulegt að hitta þann hóp fólks, sem þarna var saman kominn. Fyrir okkur var heiður að geta sýnt henni dálítinn þakklætis- og virðingarvott. Er raunar með ólíkindum, hve vel henni hefur tekist að hasla sér völl í hinum harða samkeppnisheimi þeirrar tónlistar, sem hún flytur. Er sama hvar maður kemur í heiminum, nafn hennar er alls staðar þekkt, að minnsta kosti á þann veg, að það blasir við á plakötum, blöðum, tímaritum og hljómskífum, svo að ekki sé talað um útvarp og sjónvarp. Líklega er hún sá Íslendingur, sem hlotið hefur mesta kynningu í heiminum, fyrr og síðar.

Um kvöldið fórum við á tónleika Davids Bowie í Laugardalshöllinni. Var ekki annað unnt en dást að frammistöðu goðsins. Hann var tvo klukkutíma á sviðinu, þar sem allt gekk eins og vel smurð vél. Stóð hann við loforð sitt við komuna til landsins, að efna hér til góðra tónleika í tvær stundir. Fyrir okkur óvana áheyrendur á slíkum tónleikum var hávaðinn næstum óbærilegur á stundum og bassinn skall á manni eins og bylgja. Þegar við hittum Bowie og menn hans eftir tónleikana, voru þeir undrandi á því, að við hefðum ekki sett tappa í eyrun til að draga úr hávaðanum! Í stuttu samtali var Bowie eins og margir aðrir heimsfrægir menn hógvær og velviljaður. Virtist hann hafa fullan hug á að koma hingað aftur til að kynnast landinu betur í fylgd með eiginkonu sinni.

Þegar við kvöddum hann var klukkan farin að halla í tvö eftir miðnætti og morguninn eftir var ferðinni heitið snemma morguns til Frankfurt, þar sem síðdegis átti að sinna sjónvarpsviðtölum og búa sig undir tónleika á laugardeginum. Hefur Bowie verið á sífelldu ferðalagi með tveimur stuttum hléum síðan í ágúst 1995 og haldið að meðaltali þrjá stórtónleika í viku hverri í nýju landi eða borg í hvert sinn.

Tónleikar Bjarkar að kvöldi föstudagsins 21. júní voru annars eðlis og ekki síður skemmtilegir en hjá Bowie. Sjálf var hún ekki jafnlengi á sviðinu og hann, hljómurinn var ekki eins yfirþyrmandi og hitinn í Laugardalshöll ekki eins mikill. Björk sýndi ekki síður en Bowie snilldarlega sviðsframkomu og búnaður hennar á sviði og í ljósum var glæsilegri. Við hlustuðum aðeins á fyrstu lögin hjá Goldie.

Laugardaginn 22. júní fórum við með 11 vélinni til Akureyrar og þaðan sem leið lá til Dalvíkur, þar sem ég flutti ávarp við afhjúpun styttunnar Aldan eftir Jóhönnu Þórðardóttur. Stendur hún stílhrein úr björtu stáli við Ráðhús Dalvíkur. Síðan fluttu þær Sigrún Eðvaldsdóttir og Selma Guðmundsdóttir íslensk lög á fiðlu og píanó í kirkjunni, þá var boðið upp á kaffi í safnaðarheimilinu og síðan fylgdi Friðrik Friðriksson sparsisjóðsstjóri okkur í skoðunarferð um Dalvík og Svarfaðardal. Flugum við heim með kvöldmatarvélinni frá Akureyri.