10.3.1996

Samið við sveitarfélög

Mikilvægur árangur náðist í vikunni varðandi flutning grunnskólans, þegar samkomulag tókst við sveitarfélögin um kostnaðarþáttinn og hvernig fjármagna bæri hann. Samkomulagið kynnti ég á fundi ríkisstjórnarinnar að morgni 8. mars og heimilaði hún framgang þess. Síðar þennan sama dag var samkomulagið kynnt á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga í Borgarnesi og hinn 9. mars samþykktu sveitarstjórnarmenn textann.

Þessi framgangur mikilvægs máls varðandi flutninginn var í hróplegri andstöðu við málsmeðferð á Alþingi daginn áður, fimmtudaginn 7. mars, þegar í annað sinn var tekið til við að fjalla um frumvarp til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, sem samið var á grundvelli samkomulags við kennara og sveitarfélögin. Í hið fyrra skiptið, sem málið var á dagskrá Alþingis báðu stjórnarandstæðingar um frest og ákvað þá forseti, að málið yrði tekið fyrir 7. mars. Mér gafst þá færi að flytja framsöguræðu mína, sem Össur Skarphéðinsson tók síðan til við að afflytja. Þá bað Sighvatur Björgvinsson um orðið og notaði rangfærslur Össurar til að krefjast þess, að forsætisráðherra (sem var veikur) og fjármálaráðherra (sem var erlendis) yrðu við umræðuna. Fleiri stjórnarandstæðingar tóku undir þetta og fulltrúi Kvennalistans hljóp frá samkomulagi um að málið yrði rætt. Forseti frestaði fundi, ræddi hann við þingflokksformenn, við svo búið var ákveðið, að umræða yrði um málið til kl. 13 og síðan yrði henni frestað til mánudags 11. mars.

Ástæðan fyrir þessum vandræðagangi í þinginu snertir ekki efni málsins heldur hitt, að flutningur grunnskólans hefur orðið að bitbeini vegna deilna um önnur mál, réttindamál ríkisstarfsmanna, lífeyrismál og vinnuréttarmál á almenna markaðanum.

Er að fyrir liggur, að ríkið og sveitarfélögin hafa samið um fjármálin vegna flutnings grunnskólans, hefur Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagt í útvarpsviðtali að kvöldi 9. mars, að samkomulagið ýtti kennurum frekar lengra í burtu frá þátttöku í flutningnum á síðasta stigi hans. Vísar hann enn til lífeyrismálanna og þess, sem um þau segir í samkomulaginu.

Í samkomulaginu er vísað til skýrslu kostnaðarnefndar, það er sérfræðinganefndar, sem skilgreindi kostnaðarþætti við rekstur grunnskólans. Í skýrslunni segir, sveitarfélög fullnusti lífeyrisskuldbindingar vegna aðildar kennara að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) með greiðslu fulls iðgjalds til sjóðsins jafnóðum og til þeirra er stofnað. Sé þetta háð því, að lögum um LSR verði breytt á þann veg að hlutfallsleg skuldbinding hvers vinnuveitanda á áföllnum lífeyrisskuldbindingum vegna einstakra sjóðsfélaga taki mið af starfstíma og framreiknuðum lokalaunum. Einnig verði tekin upp viðmiðun við launa- eða verðvísitölu við útreikning eftirlauna í stað þess að reikna eftirlaun sem hlutfall af launum eftirmanns í starfi. Er þessi skuldbinding talin leiða til 160 milljón króna árlegrar hækkunar og hefur verið um það samið, að þessir fjármunir flytjist frá ríki til sveitarfélaga.

Það er setningin um, að ekki beri að reikna eftirlaun sem hlutfall af launum eftirmanns í starfi og í þess stað tekin upp viðmiðun við launa- og verðvísitölu, sem helst fer fyrir brjóstið á formanni KÍ, ef ég skil málið rétt. Telur hann, að þessi setning sé til marks um samspil við tillögur sama efnis í umræðum um breytingar á lögum um LSR.

Kennarar hætta að verða ríkisstarfsmenn við flutninginn. Annar launagreiðandi kemur til sögunnar. Eðlilegt er, að tenging við launakerfi ríkisins sé afnumin við flutninginn og því slitin tengsl við „eftirmann", sem þiggur laun frá ríkinu. Þessi tengsl eru slitin með þeirri tillögu, sem kostnaðarnefndin gerir. Tillaga nefndarinnar segir hins vegar ekkert um það, að kennarar verði verr settir. Raunar hefur Karl Björnsson, fulltrúi sveitarfélaganna í kostnaðarnefndinni, sagt, að svo verði ekki. Í Borgarnesi samþykktu sveitarstjórnarmenn auk þess, að kennarar ættu að halda óskertum lífeyrisréttindum sínum.

Frá mínum bæjardyrum séð hefur fundurinn í Borgarnesi frekar auðveldað kennurum að eiga samstarf um flutning grunnskólans heldur en hitt. Loks má ekki gleyma því, að umræðum um efni lagafrumvarps um LSR er alls ekki lokið. Formaður KÍ er í nefndinni, sem fjallar um þetta lagafrumvarp.