12.12.1995

Alþingi lýkur hauststörfum

Nokkur spenna var á Alþingi í síðustu viku, enda dregur nú að því, að teknar verði ákvarðanir um fjárlög næsta árs. Athyglin hefur ekki síst beinst að útgjöldum til heilbrigðismála, enda er þar um stærsta lið fjárlaganna að ræða. Næst koma fjárveitingar á verksviði menntamálaráðuneytisins. Á síðustu stigum var þess farið á leit, að skornar yrðu niður 100 milljónir króna til framkvæmda á verkefnasviði menntamálaráðuneytisins. Var gengið til þess verks um síðustu helgi og kemur stærsta fjárhæðin eða 85 milljónir króna af þeim lið, sem fellur undir endurbótasjóð menningarstofnana.

Þá komu til umræðu tvö frumvörp frá menntamálaráðherra er lúta að skrásetningargjöldum við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Eru þau flutt vegna álits umboðsmanns Alþingis frá síðasta vori, um að lagastoð vanti fyrir innheimtu þessara gjalda. Málin komu til fyrstu umræðu, en henni lauk ekki, því að stjórnarandstæðingar báðu margir um orðið til að gagnrýna almennt innheimtu gjalda af þessu tagi. Í máli eins þeirra, Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, þingmanns Kvennalistans og prófessor við Háskóla Íslands, kom fram, að innheimta gjaldanna hefur stuðlað að því, að auðveldara er að skipuleggja starfsemi skólans, því að stúdentar taka ákvarðanir um skólavist sína með öðru hugarfari, eftir að þessi gjöld hækkuðu. Þau eru nú 24.000 krónur og breytast ekki með frumvarpinu.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, kvaddi sér hljóðs við umræðuna. Sætir það nokkrum tíðindum nú orðið, að Ólafur Ragnar láti að sér kveða í þingsalnum. Eftir að hann lét af formennsku í Alþýðubandalaginu, lætur hann lítið að sér kveða við þingstörf. Nú gekk hann í ræðustól og flutti skammarræðu yfir mér fyrir dugleysi sem ráðherra og taldi sérstaklega ámælisvert, að hér á heimasíðu minni skyldi ég hafa getið um tvær nýjar bækur eftir þá Þór Whitehead og Hannes Hólmstein Gissurarson. Taldi hann þetta til marks um háttarlag, sem stangaðist á við tíðarandann.

Ég hef síðan velt því töluvert fyrir mér, hvers vegna Ólafur Ragnar sá ástæðu til þess að fara út í þessa sálma í umræðunum um skrásetningargjöldin. Málflutningurinn var svo gjörsamlega út í hött. Kannski er það vegna þeirra ummæla, sem Hannes Hólmsteinn hefur eftir Ólafi Ragnari í bók sinni. Þar minnir hann á það, þegar Ólafur Ragnar tvinnaði þá saman Jón Sigurðsson forseta og Marx og Engels kenningarsmiði kommúnismans. Einnig kann Ólafur Ragnar að hafa horn í síðu Þórs vegna þeirrar myndar, sem hann dregur upp af forverum Alþýðubandalagsins fyrir rúmri hálfa öld, þegar þeir gengu erinda kommúnista og nasista undir merkjum þeirra Hitlers og Stalíns.

Í þinginu fóru fram umræður utan dagskrár um fíkniefnavandann. Þar kynnti ég áform menntamálaráðuneytisins um samstarf við Félag framhaldsskólanema og fleiri um svokallaða jafningjafræðslu. Verður verkefninu hrundið af stað næstu daga, en Ásdís Halla Bragadóttir, aðstoðarmaður minn, á veg og vanda að undirbúningi málsins fyrir mína hönd.