19.11.1995

Skólaheimsóknir, Ólafsfjarðarferð og Rushdie

Þess var minnst í dag, 19. nóvember, að 10 ár voru liðin, frá því að rekstrardeild Tækniskóla Íslands var stofnuð. Af því tilefni var efnt til kynningar í skólanum. Fórum við þangað rétt fyrir klukkan 12 ég og Rut, kona mín. Var vel á móti okkur tekið og fylgdi Helgi Gestsson deildarstjóri okkur um stofurnar, þar sem nemendur kynntu starfið í deildinni.

Kom okkur á óvart, hve fjölbreytnin er mikil og tengsl skólans út í atvinnulífið. Sannaði þetta enn fyrir mér, hve mikils virði er í starfi mínu að fá tækifæri til að fara í skólana og kynnast því af eigin raun, sem þar er að gerast.

Þriðjudaginn 14. nóvember fór ég ásamt Ásdísi Höllu Bragadóttur, aðstoðarmanni mínum, í heimsókn í Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Hafði sú ferð verið ákveðin nokkrum dögum fyrr en bar síðan upp á sama dag og frétt birtist í Morgunblaðinu, um að á hverfafundi með borgarstjóra hefði Kristín Arnalds, skólameistari FB, lýst yfir því, að með tillögum menntamálaráðuneytisins um verkaskiptingu framhaldsskóla væri verið að "rústa" FB. Að sjálfsögðu vakir ekkert slíkt fyrir menntamálaráðuneytinu. Tillögurnar um verkaskiptingu eru einmitt sendar út til að vekja umræður og viðbrögð, áður en einhverjar bindandi ákvarðanir eru teknar.

Voru þessar tillögur meðal annars til umræðu á fundi með skólameisturum af landinu öllu, sem menntamálaráðuneytið boðaði til föstudaginn 17. nóvember. Urðu gagnlegar umræður um málið þar en þó sérstaklega um frumvarpið til framhaldsskólalaga. Hefur mér þá bæði gefist færi á að ræða það frumvarp ýtarlega á fundum með fulltrúum nemenda og skólameistara. Hins vegar ber svo við, að Hið íslenska kennarafélag hefur ekki einu sinni haft fyrir því að senda mér ályktanir sínar um frumvarpið og sagði formaður þess á fjölmennum fundi kennara úr Reykjavík og Reykjanesi laugardaginn 18. nóvember í Háskólabíói, að ég hlyti að hafa lesið um afstöðu HÍK í blöðum eða heyrt um hana í útvarpi og gaf til kynna, að ég vildi ekki ræða við kennara. Ég andmælti þessu harðlega, því að ég ætíð komið til fundar við kennara sé þess óskað og ég hef tök á því. Einnig hafði ég frumkvæði að fundum með forystumönnum kennara, skömmu eftir að ég tók við ráðherrastarfi, einmitt til þess að þurfa ekki að standa í orðaskaki út af því, hvernig að kynningu á málum sé staðið. Vænti ég hins sama af forystumönnum kennara, að þeir greini mér frá samþykktum sínum, svo að ég geti efnislega brugist við þeim. Síðastliðinn laugardag sat ég þrjá tíma á fyrrgreindum fundi með kennurum í Háskólabíói og tók þátt í mjög málefnalegum umræðum um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.

Síðdegis sunnudaginn 19. nóvember flaug ég til Akureyrar og ók þaðan til Ólafsfjarðar og tók þátt í fundi sjálfstæðisfélagsins á staðnum um flutning grunnskólans. Tók ég síðan kvöldvélina aftut til baka til Reykjavíkur.

Föstudaginn 18. nóvember ritaði ég undir bréf til Sverris Einarssonar og setti hann rektor Menntaskólans í Hamrahlíð í eitt ár frá 1. janúar 1996, þegar Örnólfur Thorlacíus lætur af störfum.

Af þessu má ráða, að skólamálin hafi tekið töluverðan tíma í þessari vinnuviku. Raunar gerist svo margt í hverri viku, að hættulegt er að vera með upptalningu sem þessa, því að auðvelt er að gleyma einhverju merkilegu, til dæmis eins og því, að fimmtudagskvöldið 16. nóvember kveikti ég á sjónvarpsstöðinni Sýn og fyrr þann sama dag samþykkti ríkisstjórnin þá tillögu mína, að þessi dagur, 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, skuli framvegis vera Dagur íslenskrar tungu.



--------------------------------------------------------------------------------
Í skólaönnunum vannst mér ekki tóm til að setjast niður og rita bréf til ritstjóra Alþýðublaðsins vegna greinar eftir Guðmund Andra Thorsson rithöfund, sem hann byggði á pistli mínum hér á heimasíðunni um fund minn með norrænum menningarmálaráðherrum á bókamessunni í Gautaborg um tjáningarfrelsi. Þar snýr Guðmundur Andri út úr orðum mínum um Salman Rushdie og lætur eins og ég vilji ekki ljá málstað hans lið. Það er hinn mesti misskilningur, ég vil styðja að málfrelsi hans og stuðla að því að dauðadóminum yfir honum verði aflétt. Hins vegar hefur Rushdie sjálfur sagt á fundi, sem ég sat með honum, að hann yrði ekki óhultur fyrr en erkiklerkunum hefði verið bolað frá völdum í Íran. Ég er þeirrar skoðunar, að hvorki Ísland né stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndunum hafi vilja eða bolmagn til stjórnarbyltingar í Íran. Var þeirri skoðun minni síður en svo andmælt á fundinum í Gautaborg, þvert á móti tók finnski ráðherrann í sama streng.


--------------------------------------------------------------------------------
Ég sá það bæði í FB og Tækniskólanum, að nemendur þar hafa komið í heimsókn á síðuna mína á netinu. Þeir höfðu prentað út mynd af mér og hengt á töflu í FB og brugðu upp mynd af forsíðu heimasíðunnar á vegg í Tækniskólanum. Vil ég þakka fyrir þennan heiður.