15.10.1995

Alþingi hefur störf

Alþingi hefur nú verið að störfum í tæpar tvær vikur og farið heldur hægt af stað. Þótt ekki hafi ég langa þingreynslu, tel ég mig skynja, að óvenjulega lítil spenna sé í sölum þinghússins. Er andrúmsloftið allt annað í upphafi þessa annars kjörtímabils, sem ég sit á þingi, en hins fyrsta. Segja má, að þá hafi allt leikið á reiðiskjálfi en nú svífi andi friðar um sali.

Ég veit ekki, hvernig á að skýra þennan mun. Ef til vill á hann rætur að rekja til þess, að framsóknarmenn hafi orðið svona illir vorið 1991 að lenda utan ríkisstjórnar eftir rúmlega 20 ára samfellda setu þar. Þá var Ólafi Ragnari og félögum hans einnig mikið í mun að koma höggi á Jón Baldvin, en í aðdraganda stjórnarmyndunar hafði Ólafur Ragnar meðal annars boðið Jóni að verða forsætisráðherra.

Þingið 1991 til 1992 var ég í forsætisnefnd og kom það oftar en einu sinni í minn hlut að sitja næturlangt yfir umræðum, sem höfðu þann eina tilgang að tefja fyrir þingstörfum. Klögumál gengu á víxl og utan dagskrár voru menn ávallt að deila um allt milli himins og jarðar. Undir lok síðasta kjörtímabils voru menn í öllum flokknum farnir að átta sig á því, að þessi vinnubrögð á þingi skiluðu engum árangri.

Ríkisstjórnin hefur nú traustan meirihluta að baki sér, mun meiri en fyrra ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Það þýðir því ekki fyrir stjórnarandstöðuna að vera að plokka í einn og einn þingmann í von um að gera ríkisstjórninni lífið erfitt. Úr röðum okkar sjálfstæðismanna eru menn horfnir af þingi, sem stjórnarandstaðan taldi sig geta nýtt til að gera ríkisstjórninni lífið leitt, þegar mikið var í húfi. Er skemmst að minna á það, hvernig alið var á tortryggni í umræðum um aðildina að EES.

Davíð Oddsson varð forsætisráðherra áður en hann settist á Alþingi 1991.Ýmsir töldu sig því hafa í fullu tré við hann í þingsalnum. Hann beit harkalega frá sér í ræðum en getur nú gengið fram með öðrum hætti.

Stjórnarandstaðan er ótrúlega sundurleit á nýbyrjuðu þingi, þótt innan hennar hafi menn það á vörunum í tíma og ótíma, að þeir ætli að sameinast í fylkingu gegn okkur sjálfstæðismönnum. Átök innan Alþýðubandalagsins um nýjan formann hafa dregið úr krafti flokksins út á við. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig ný forysta tekur á málum næstu vikur.

Það þarf því að líta á marga þætti, þegar lagt er mat í þingstörfin nú í vetrarbyrjun. Upphafið bendir ekki til mikilla átaka, þótt að sjálfsögðu sé deilt um fjárlög og ýmislegt annað.