10.9.1995

Varnarhugmynd í grýtta jörð

Um nokkurt árabil hafa Norðmenn og Danir efnt til árlegra funda til að ræða óformlega um öryggis- og varnarmál. Okkur Íslendingum hefur verið boðið til þessara funda og nú í ár ákváðum við, sem sitjum í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, að bjóða Ísland sem fundarstað. Var því boði mjög vel tekið og ráðstefnan haldin hér 7. og 8. september. Ég sat ráðstefnu af þessu tagi í Þrándheimi á síðasta ári og heyrði þar, að menn notuðu tækifærið til að hreyfa hugmyndum og heyra viðbrögð við þeim, enda eiga mannfundir að vera til þess að skiptast á skoðunum en ekki að allir tali um alkunnar staðreyndir og hreyfi aldrei neinu nýju.

Eins og gefur að skilja þarf að huga snemma að öllum undirbúningi undir ráðstefnu af þessu tagi. Til dæmis var ákveðið áður en ég varð menntamálaráðherra, að ég tæki til máls við upphaf ráðstefnunnar og ræddi um stöðu Íslands í samstarfi Atlantshafsríkjanna og viðhorf mín í því sambandi. Sá ég ekki ástæðu til þess að hverfa frá loforði mínu um slíkt erindi, þótt ég tæki að mér nýtt starf. Því síður sá ég ástæðu til að laga erindi mitt að hinu nýja starfi, enda hvílir á þeim, sem helga sig stjórnmálum að láta í ljós skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Er réttur þingmanna til þess sérstaklega verndaður í stjórnarskránni.

Á þessum forsendum notaði ég þetta ágæta tækifæri meðal sérfræðinga og áhugamanna um öryggismál til að velta fyrir mér, hvaða hlutverk kynni að bíða okkar Íslendinga. Dró ég athyglina sérstaklega að því, hvort við ættum ekki sjálfir að axla meiri ábyrgð á vörnum landsins með því að koma á fót liði, sem gæti tekið að sér að verja mikilvæga staði í landinu.

Erindið er birt í heild annars staðar hér á heimasíðu minni og geta menn því kynnt sér það þar. Þeir sjá væntanlega fljótt, að fjölmiðlar hafa sett málið fram með miklu skarpari hætti en ég gerði. Ég varpaði fram hugmynd og færði fyrir henni rök. Það er til dæmis unnt að rökstyðja það, að Íslendingar geti mannað 500 til 1000 manna heimavarnarlið. Að færa rök fyrir slíku jafngildir ekki, að lagt sé til að stofnaður sé 500 til 1000 manna her.

Ég flutti erindið fyrir hádegi á fimmtudegi og birtist viðtal við mig um það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þann dag. Ýmsir útvarpsmenn vildu fá mig í viðtal síðdegis þennan saman dag, en ég hafði ekki tök á því vegna annarra skuldbindinga. Erindinu var dreift á ráðstefnunni og samdægurs kom það inn á heimasíðu mína. Mesta undrun mína vakti, hve aðrir stjórnmálamenn voru fúsir til að tjá sig um málið, án þess að hafa hlustað á erindið eða lesið það. Ólafur Ragnar Grímsson var í Brussel og hafði því ekki einu sinni heyrt útvarpsfréttirnar. Hann var samt sem áður kominn á öldur ljósvakans með skoðun á erindi mínu að kvöldi fimmtudagsins.

Orð hafa verið látin falla á þann veg, að hugmyndin sé ekki einu sinni virði umræðunnar. Þeir, sem þannig tala, hefðu átt að vera á ráðstefnunni og heyra áhuga þeirra, sem fjalla um öryggismál annarra ríkja, á þessari hugmynd. Bæði í Noregi og Danmörku huga menn að endurskipulagningu á vörnum landanna með því að leggja aukna áherslu á heimavarnir. Erlendum mönnum blöskrar ekki, að hreyft sé hugmynd af þessu tagi af Íslendingi, þeir skilja hins vegar alls ekki, hvers vegna Íslendingar líta þannig á, að þeir þurfi ekki að velta þessum málum fyrir sér á sömu forsendum og aðrir.

Ég hef fengið nokkur tölvubréf í framhaldinu og einnig símtöl, sem eru öll á þann veg, að menn eru hlynntir hugmyndinni. Einn bréfritari kemst til dæmis þannig að orði eftir bréfaskipti okkar: "Ég var ekki að kvarta yfir að vakið sé máls á því hvort Íslendingar eigi ekki að huga að vörnum mikilvægra mannvirkja og búa sig undir að verjast hryðjuverkahópum. Þvert á móti þá er ég mjög meðmæltur því. Ég sé hins vegar, m.v. ástandið í þjóðfélaginu, enga glóru í hugmyndum þínum, sem stendur. (fyrirgefðu orðalagið.)"

Þessi ágæti maður minnir síðan á skyldur víkingasveitar lögreglunnar, sem hann telur, að hún eigi erfitt með að sinna vegna skorts á fjármunum. Muna eftir því veðri, sem gert var út af því á sínum tíma, að slík sveit skyldi mynduð? Ég er þeirrar skoðunar, að hún eigi meira en rétt á sér og einnig hitt, að hlutverk Landhelgisgæslunnar sé skilgreint með nýjum hætti vegna breyttra aðstæðna og tekið sé af skarið með þátt hennar í vörnum landsins í samvinnu við varnarliðið. Stuðningur við þessi málefni á ekki að hindra að menn hugsi lengra og láti álit sitt í ljós, án þess að þeir segi jafnframt, hvað hugmyndin kosti eða hafi núverandi ástand í þjóðfélaginu alltaf sem sitt leiðarljós.

Á heildina litið er ég ánægður með viðbrögðin við hugmyndinni. Ég vissi, að hún myndi falla í grýtta jörð. Þar kann hins vegar einnig að leynast jarðvegur til að sterk korn nái að dafna. Hugmynd af þessi tagi er ekki ný af nálinni í umræðum um íslensk öryggismál. Hún verður ekki endanlega drepin núna, síst af öllu af þeim, sem vilja ekki leggja á sig að kynna sér hana, eða ræða án þess að líta þannig á, að hún spilli fyrir einhverju öðru, sem er verið eða þarf að gera.