20.8.1995

Fyrstu 100 dagarnir í ráðuneytinu

Ríkisstjórnin var mynduð 23. apríl 1995 eða fyrir tæpum fjórum mánuðum. Í sjálfu sér kom það mér á óvart að taka sæti í henni. Ég hafði ekki gengið fram fyrir skjöldu í umræðum um mennta- og menningarmálum með fastmótaða stefnu eða hugmyndir um úrlausn einstakra mála á þessu sviði. Tíminn, sem síðan er liðinn, hefur verið mjög lærdómsríkur. Ég geri mér betri grein en áður fyrir því, hve viðamikil verkefni eru á þessu sviði.

Eins og ég hef sagt áður hér á síðunni blasti við, að fjölmargir æskja eftir að hitta menntamálaráðherra að máli. Löngum hefur verið langur biðlisti með nöfnum þeirra, sem vilja ná tali af ráðherranum. Ég tel, að í sumar hafi mér tekist að halda lengd listans í skefjum. Ef til vill auðveldar mér að gera það, að margir hafa haft samband við mig á netinu. Þótt erindi, sem þannig berast séu ekki formleg og færist ekki í skjalasafn ráðuneytisins nema þau berist einnig í sniglapósti, er tölvupósthólfið ágætur vettvangur fyrir óformleg mál og getur sparað mönnum annars konar samskipti. Viðtalalistanum hef ég einnig haldið í skefjum með því að verja töluverðum tíma til að taka á móti þeim, sem æskja eftir samtali, þótt hverjum og einum sé að jafnaði ekki ætlaður lengri tími en 15 mínútur. Hef ég ekki orðið var við annað en unnt sé að ljúka flestum erindum á þeim tíma, enda gangi menn beint til verks og séu vel undir búnir.

Sumarið hef ég einnig notað til að heimsækja ýmsar stofnanir, sem eru á verkefnasviði ráðuneytisins. Kemur ekkert í stað slíkra heimsókna. Nú með haustinu er ljóst, að alls kyns fundir og ráðstefnur innan lands eiga eftir að taka drjúgan tíma. Frá því að ég var í Bonn um miðjan júní, hef ég ekki farið til útlanda á vegum ráðuneytisins. Þetta breytist í september, því að þá kalla ýmsar ráðstefnur erlendis á viðveru ráðherra.

Þessi hlið starfsins er í raun aðeins lítill hluti þess, þótt hann geti verið tímafrekur. Mestu skiptir auðvitað að átta sig á þeirri stefnu, sem skal fylgt, og hvernig að framkvæmd hennar skuli staðið. Fátt næst fram nema vel sé staðið að meðferð fjármuna og tillögugerð vegna fjárlaga. Að þessum verkefnum hefur verið unnið markvisst undanfarið.

Enginn ráðherra er einráður í fjárlagagerðina. Um hana þarf í senn að nást samkomulag innan ríkisstjórnar og síðan meðal stjórnarflokkanna. Hið sama er ekki unnt að segja um verkefnaáætlun og stefnumörkun ráðuneyta eða ríkisstjórna. Þess verður ekki krafist, að þingflokkar eða meðráðherrar samþykki allt, sem í slíkum áætlunum segir, enda falli þær að meginstefnu ríkisstjórnarinnar.

Verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins undir minni stjórn hefur verið í smíðum. Þegar hún verður fullbúin mun ég birta hana í heild hér á síðunni. Hefur verið ánægjulegt að vinna að smíði þessarar áætlunar bæði í samvinnu við starfsmenn ráðuneytisins og trúnaðarmenn mína, sem að málinu hafa komið. Fórum við meðal annars vestur á firði um eina helgi til að ná utan um málið á löngum fundum. Dvöldumst við í góðu yfirlæti í Breiðavík í Rauðasandshreppi. Laugardagskvöldið efndi Rut til einleikstónleika í kirkjunni þar og dreif að fólk af nágrannabæjum, þótt um nokkra leið væri að fara.

Ég fór á landsleikinn Ísland-Sviss á dögunum með kunningja mínum Lárusi Guðmundssyni, fyrrverandi atvinnumanni í knattspyrnu. Hann sagði, að fyrstu 20 mínúturnar skiptu sköpum um framvindu leiksins. Yrðu þær slæmar væri leikurinn tapaður, sjálfstraustið þryti. Áður en 20 mínútur voru liðnar höfðu Svissarar skorað 2 mörk en Íslendingar ekkert, þeir náðu sér aldrei á strik. Fyrstu 100 dagarnir kunna að vera svipaður reynslutími fyrir ráðherra. Hafi þeir ekki náð áttum á þeim tíma og skapað sér sæmilega stöðu, ná þeir sér kannski aldrei á strik.