9.7.1995

Viðbrögð við fjölmiðlum

Þeirri reglu hef ég fylgt, að svara, ef mér finnst að mér vegið í fjölmiðlum eða tekið þannig á málum, er mig varða, að mér þykir eitthvað mega betur fara. Lærði ég þetta af föður mínum, sem sagði oft, að maður ætti alltaf að svara. Það gæti komið manni í koll, að hafa ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri, ef á málstað manns væri hallað. Ég get talið þau tilvik á fingrum annarrar handar, þegar ég hef ekki fylgt þessari reglu. Helst hef ég látið hana lönd og leið, þegar menn hafa gert athugasemdir við bókaumsagnir, en þær hef ég skrifað í Morgunblaðið um nokkurt árabil. Kemur mér þá í huga heilræði, sem Matthías Johannessen, ritstjóri og skáld, notaði stundum, að það borgaði sig ekki að hreyfa við skítnum, því að hann gæti festst við mann.

Stundum er álitamál, hvort svara eigi, vegna þess að svarið veki meiri umtal en upphaflega greinin og kunni því að draga athygli að máli, sem flestir hefðu annars látið fram hjá sér fara. Þannig er til dæmis fráleitt að mínu mati að svara ádeilu í Helgarpóstinum í Morgunblaðinu. Menn eiga með öðrum orðum að svara á sama vettvangi og sá notar, sem svarað er. Nú er netið hins vegar komið til sögunnar sem persónulegur vettvangur og að loknum þessum formála ætla ég að nota það til að reifa þrjú nýleg atvik í fjölmiðlum, sem hafa kveikt hjá mér þörf fyrir athugasemdir.

1. Deilt var um skipun skólastjóra í Austurbæjarskóla. Ég skipaði annan mann en hlaut stuðning meirihluta skólamálaráðs Reykjavíkur. Hann naut hins vegar stuðnings kennara og ljóst var, að foreldrar barna við skólann voru þeim hlyntir, sem ég skipaði. Þetta kom meðal annars fram í samtali Ríkisútvarpsins við Einar Val Ingimundarson, formann Foreldrafélags Austurbæjarskóla. Nokkru eftir að opinberum umræðum um málið lauk, birtu þrír foreldrar bréf í Morgunblaðinu, þar sem þeir notuðu ummæli mín um afstöðu foreldra við Austurbæjarskóla og afstöðu Einars Vals sem átyllu fyrir vangaveltur, um að Foreldrafélagið hefði ekki tekið afstöðu til neins umsækjanda um skólastjóraembættið. Hvergi hafði ég látið orð falla í þá veru um afstöðu félagsins. Það, sem vakti undrun mína, var, að fréttastofu hljóðvarps ríkisins þótti ástæða til að vitna í þetta lesendabréf í kvöldfréttatíma sínum sama daginn og það birtist. Minnist ég þess ekki, að Velvakandabréf séu talin sérstakt fréttaefni hjá hljóðvarpi ríkisins.