2.4.1995

Samband við kjósendur

Fyrir okkur frambjóðendur er mikilvægt að komast í samband við sem flesta kjósendur þessa síðustu daga fyrir kjördag. Bæði fáum við þá tækifæri til að kynna sjónarmið okkar og hlusta á það, sem brennur á kjósendum.

Nokkrar leiðir eru til í þessu fyrir utan fjölmiðlana, blöð, ljósvakamiðla og nú vefinn. Við getum boðað til funda. Við getum þegið boð um að sækja fundi. Til þeirra er boðað af félagasamtökum eða vinnustöðum. Við getum farið óboðnir inn á vinnustaði. Við getum hringt á dyrabjöllunni heima hjá fólki á kvöldin. Loks getum við staðið á mannmörgum stöðum og gefið okkur á tal við vegfarendur.

Allar þessar leiðir eru í raun farnar. Hefðbundnir fundir eru þó greinilega á undanhaldi. Í upphafi kosningabaráttunnar auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn, að hann byði þá þjónustu, að frambjóðendur kæmu til fundar við þá, sem þess óskuðu. Á vegum flokksins er til dæmis ekki efnt til vinnustaðafunda, nema áður hafi verið kannað, að starfsmenn þar eða fulltrúar þeirra samþykki það. Þetta tilboð Sjálfstæðisflokksins hefur borið mikinn árangur. Frambjóðendur hafa farið víða og til fundar við þá í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins, hafa margir komið.

Þá höfum við skipt nokkrum fyrirtækja- eða iðnaðarsvæðum borgarinnar milli frambjóðenda og hafa þeir það hlutverk að fara þar á milli fyrirtækja á venjulegum vinnudegi og hitta starfsfólk. Er þetta mjög skemmtilegt og gefandi. Hef ég heimsótt nokkra tugi fyrirtækja í Skeifunni undir þessum formerkjum.

Loks stöndum við í Kringlunni og Kolaportinu um helgar og afhendum blöð og bæklinga og ræðum við vegfarendur. Er þetta einnig ánægjulegt. Tíminn er fljótur að líða og við hittum marga, sem vilja ræða málið eða lýsa yfir stuðningi. Þeir, sem ekki vilja taka við efni frá okkur, skiptast í tvo hópa, þá, sem segjast ekki þurfa neitt, af því að þeir styðji okkur, og hina, sem vilja ekkert hafa með okkur að gera. Sárast er að missa af sambandi við þá!