18.3.1995

Mikilvæg ákvörðun samgönguráðherra



Á kosningafundum í SKÝRR og hjá Pósti og síma höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins orðið varir við það, að rekstrarform fyrirtækjanna er farið að standa þróun þeirra fyrir þrifum. Það er ljóst, að fyrirtæki á sviði upplýsingatækni þróast ekki sem skyldi séu þau ríkisfyrirtæki með gamla sniðinu, ef þannig má orða það.

Í síðustu viku fór ég ásamt Pétri Blöndal á vinnustaðafund hjá SKÝRR. Var ánægjulegt að skiptast á skoðunum við starfsmenn. Kom það meðal annars fram í máli þeirra, að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini stjórnmálaflokkurinn, sem leggur áherslu á upplýsingatækni í kosningayfirlýsingu sinni. Hef ég áður vakið máls á þessari stefnumótun hér á síðunni.

Nú hefur Halldór Blöndal samgönguráðherra tekið mikilvæga ákvörðun, sem er í samræmi við pólitíska stefnumótun okkar sjálfstæðismanna. Hann hefur stigið skref til að breyta rekstrarformi Pósts og síma. Snertir það meðal annars notkun á gagnanetinu. Hefur ráðherrann jafnframt lækkað gjaldskrána til að auðvelda mönnum að nota upplýsingahraðbrautina. Að mínu mati er hér skynsamlega að verki staðið. Aðeins með mikilli útbreiðslu nýtist þessi byltingarkennda tækni okkur Íslendingum til fullnustu. Minni ég á, að í kosningayfirlýsingu okkar segjum við, að landsmenn eigi að sitja við sama borð við aðgang að upplýsingahraðbrautinni.