18.3.1995

Fróðleg samtöl í London

Alþjóðlegt samstarf þingmanna er mikið og fer vaxandi. Nú í vikunni þurfti ég til dæmis að fara til London sem formaður í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, en tvær nefndir þingsins efndu til funda þar á þriðjudag og miðvikudag.

Á dagskrá fastanefndar þingsins var tillaga um stuðning við Salman Rushdie, rithöfundinn, sem Íransstjórn eða klerkaveldið í Teheran dæmdi til dauða fyrir sex árum fyrir bókina Söngva Satans. Öllum að óvörum birtist Rushdie sjálfur á fundinum og lýsti stöðu sinni og viðhorfum. Vill hann, að Íransstjórn verði sýnd meiri harka, því að það sé óþolandi að hún komist upp með það að eyðileggja allt þjóðlíf í Íran, standa fyrir upplausn og ofbeldi utan Írans og beita sig og aðra harðræði.

Í þessari ferð til London gafst mér tækifæri til að ræða við nokkra íslenska nemendur í London School of Economics og einnig frá háskólanum í Essex. Var bæði fróðlegt og gagnlegt að skiptast á skoðunum um margvísleg málefni, ekki þó síst Evrópumálin, því að viðmælendur mínir leggja meðal annars stund á Evrópufræði. Ég sannfærðist enn frekar um réttmæti þeirrar skoðunar minnar, að ekki sé rétti tíminn nú að banka á aðildardyr Evrópusambandsins. Íslendingar verða eins og aðrir að fylgjast náið með því, sem gerist á ríkjaráðstefnu ESB og taka sínar ákvarðanir í ljósi þess.

Þegar samningurinn um evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi settu Bretar þann fyrirvara, að námsmenn frá EES-löndum sætu ekki við sama borð og námsmenn frá ESB-löndum varðandi skólagjöld. Nú eru skjólagjöld í LSE 8.500 pund og 6.500 pund annars staðar á Bretlandi fyrir íslenska námsmenn en 2.500 pund fyrir þá, sem koma frá ESB-löndum. Ég tel, að við eigum, eftir að EES-ríkjunum hefur fækkað, að taka það upp við Breta, að þeir falli frá þessum fyrirvara sínum. Eftir heimsókn mína til London hef ég þegar vakið máls á þessu við breska sendiherrann í Reykjavík og hyggst ég fylgja málinu eftir.