26.10.2010

ESB-leiðtogar ræða refsireglur fyrir evru-lönd - munu gilda um Ísland

Hér lýsi ég umræðum innan ESB fyrir fund leiðtogaráðs þess 28. og 29. október, þar sem tekin verður afstaða til tillögu Þjóðverja og Frakka um refsingu ríkja, sem hafa ekki stjórn á eigin fjármálum.

Leiðtogaráð ESB kemur saman til fundar fimmtudaginn 28. og föstudaginn 29. október. Þar verður meðal annars rætt um þá tillögu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozys, Frakklandsforseta, að breyta verði Lissabon-sáttmálanum, stjórnarskrá ESB, sem tók gildi 1. janúar 2009. Þau telja, að setja verði í sáttmálann ákvæði um refsiviðurlög brjóti ríki gegn reglum ESB um stjórn eigin fjármála að því er varðar halla á ríkissjóði eða lántökur ríkisins. Inntak tillögu þeirra hefur ekki verið birt, enda er sagt, að embættismenn ríkjanna eigi erfitt með að orða hana á þann veg, að allir séu sáttir.

Eftir að þau Merkel og Sarkozy kynntu þessa tillögu sína 18. október, hafa umræður um kosti hennar og galla leitt í ljós ólík viðhorf innan ESB bæði til þess, hvernig eigi að halda þjóðþingum innan ESB-marka við afgreiðslu fjárlaga og hvort almennt eigi að setja af stað ferli til breytinga á Lissabon-sáttmálanum. Í báðum tilvikum er um stórmál að ræða. Íhlutun ESB í fjárlagagerð einstakra ríkja vekur ekki alls staðar hrifningu þingmanna. Að hrófla við Lissabon-sáttmálanum og segja hann ekki duga, þegar innan við ár er liðið, frá því að hann tók gildi, veldur pólitískum skjálfta innan ESB. Enn á ný hriktir í innviðum sambandsins.

Hver ríkisstjórn lítur til breytinga á stjórnarskrá ESB frá eigin sjónarhóli. Breytingaferlið eitt kallar á umræður innan ríkja, sem getur gengið þvert á stjórnmálaflokka og leyst úr læðingi öfl, sem ráðandi stjórnmálamenn vilja helst halda í skefjum. Til þessa hafa flestar ríkisstjórnir talið, að ná mætti markmiðum meira aðhalds innan núgildandi sáttmála. Merkel óttast hins vegar, að þýski stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe, telji þýsku stjórnarskrána ekki heimila ábyrgð Þjóðverja á greiðslu til neyðarsjóða í þágu Grikkja og evrunnar.

Vegna ESB-aðildarumsóknarinnar hefur hið sama sett svip sinn hér á umræður um inntak og eðli ESB og jafnan gerist annars staðar. Leitast er við að draga upp ESB-mynd gagnvart almenningi, sem segir ekki alla söguna. Sé hún sögð, óttast höfundarnir, að enginn hafi áhuga á að stíga skrefið, sem er nauðsynlegt, til að miðstýringarvald ESB haldist og geti vaxið áfram. Umræður um breytingar á Lissabon-sáttmálanum kveikja elda, sem erfitt getur verið að slökkva.  Innan leiðtogaráðs ESB vita menn, að þeir leika sér að eldi með því að ákveða sáttmála-breytingu.

Eftir að Frakkar, Hollendingar  og Írar felldu Lissabon-sáttmálann í upprunalegri gerð í þjóðaratkvæðagreiðslu, var hann snurfusaður með því skilyrði, að hann færi ekki aftur fyrir þjóðaratkvæði. Írskum stjórvöldum bar þó samkvæmt stjórnarskrá að leggja hann fyrir þjóðina og hlaut hann samþykki í annarri atkvæðagreiðslu á Írlandi. Lagði ESB-embættismannavaldið með aðstoð ESB-þingsins ofurkapp á fá meirihluta Íra til fylgis við sáttmálann.

Í Bretlandi sættu Gordon Brown og Verkamannaflokkurinn gagnrýni fyrir að láta afgreiðslu breska þingsins á Lissabon-sáttmálanum duga í stað þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Íhaldsmenn hafa heitið því að bera breytingar á sáttmálanum undir þjóðina. Þeir hafa einnig lofað Bretum að kalla vald heim til Bretlands frá embættismönnum ESB í Brussel. Bretar eigi sjálfir að eiga síðasta orðið um fleiri þætti mála en nú er, draga eigi úr yfirþjóðlegu valdi ESB.  Umræður í þessa veru fara á fleygi ferð í Bretlandi, ákveði leiðtogaráð ESB að breyta Lissabon-sáttmálanum. Breytingin mundi miða að því að auka miðstjórnarvaldið.

Í breskum blöðum segir þriðjudaginn 26. október, að David Cameron, forsætisráðherra Breta, hafi tilkynnt Merkel og Sarkozy, að hann muni styðja tillögu þeirra um breytingu á sáttmálanum, enda nái hún aðeins til ríkja á evru-svæðinu, og kalli ekki á þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi. Stuðningur hans sé þó bundinn því skilyrði, að ekki verði um hækkun á ESB-fjárlögum að ræða árið 2011. ESB-þingið hefur samþykkt 6% hækkun á fjárlögunum.  Segja blöðin, að Cameron leiti samstarfs við aðra þjóðarleiðtoga til að koma í veg fyrir þessa hækkun. Af þessu er ljóst, að Cameron og hans menn eru teknir til við hefbundin hrossakaup innan ESB. Hvort þeim tekst með þessu að útiloka kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, ef Lissabon-sáttmálanum yrði breytt, á eftir að koma í ljós.

Danir standa utan við suma þætti ESB-samstarfsins. Þar hefur í nokkur ár verið talið, að ríkisstjórnin væri að bíða eftir rétta augnablikinu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og hvetja þjóðina til að falla frá fyrirvörunum gagnvart ESB. Þeir snerta meðal annars samstarf í öryggis- og lögreglumálum auk þess sem Danir ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að taka ekki upp evru.

Danska ríkisstjórnin getur því vænst þess, komi til breytinga á Lissabon-sáttmálanum, að fram komi krafa á danska þinginu og meðal almennings, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um breytinguna og annað, sem snertir ESB-aðild Dana.

Lene Esperesen, utanríkisráðherra Dana, spurði eftir utanríkisráðherrafund ESB-ríkjanna í Lúxemborg 25. október, þar sem rætt var um tillögur Merkel og Sarkozys: „Verður niðurstaðan afsal fullveldis? Ef um það er að ræða, kallar það á þjóðaratkvæðagreiðslu? Við vitum það ekki enn.“ Hún viðurkenndi að þarna væri um „lögfræðilegt álitaefni“ að ræða og hún vildi ekki hefja umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þetta mál er enn aðeins til umræðu. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið neina afstöðu, þar sem tillögurnar [um breytingu á Lissabon-sáttmálanum] eru ekki nógu skýrar,“ sagði hún við Berlingske Tidende.

Steven Vanackere, utanríkisráðherra Belgíu, sem stjórnaði ráðherrafundinum í Lúxemborg 25. október sagði, að enginn ráðherranna vildi gjörbreytingu á Lissabon-sáttmálanum. Margir óttuðust, að hefja umræður um breytingu, því að enginn vissi, hvernig þeim mundi lykta.

Í Der Spiegel segir, að utanríkisráðherrar Lúxemborgar, Austurríkis og Tékklands hafi sagt, að af þeirra hálfu yrði beitt neitunarvaldi gegn breytingu á sáttmálanum. Deutsche Welle vitnar á hinn bóginn í Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, sem sagði, að hann útilokaði ekki breytingu, ef reglurnar héldu, það dygði sér.

Afstaða þýsku ríkisstjórnarinnar er skýr. Hún segist ekki geta skuldbundið sig til þriggja ára framlags til neyðarsjóða til bjargar ríkjum á evru-svæðinu, nema Lissabon-sáttmálanum sé breytt. Þegar þetta er sagt, hrökkva aðrir í kút, því að án Þjóðverja, sem leggja langmest af mörkum til sjóðanna, yrðu þeir máttlausir.

Olli Rehn, efnahagsmálastjóri ESB, sagði þriðjudaginn 26. október, að hann kysi „lang helst“, að ekki yrði ráðist í það verk að breyta Lissabon-sáttmálanum. Hann vildi þó ekki útiloka breytingar á sáttmálanum, þegar að því kæmi að setja reglur um fastmótaða neyðarsjóði að ósk Þjóðverja í stað þess að aðstoð við evruna byggðist á tímabundnum ákvörðunum. Framkvæmdastjórnin væri hins vegar að kanna lagaheimildir til að ná því markmiði, án þess að þurfa að setja af stað breytingarferli á sáttmálanum, sem yrði langvinnt og kallaði á miklar umræður um fullgildingu breytinganna í einstökum ríkjum.

Á vegum ESB og ríkjanna innan evru-svæðisins var gripið til aðgerða síðastliðið vor til bjargar evrunni. Þar var hins vegar tjaldað til einnar nætur að því er hlut Þjóðverja varðar. Nú vilja þeir koma meiri festu á hlutina með breytingu á Lissabon-sáttmálanum. Eins og áður sagði hafa Þjóðverjar og Frakkar ekki enn komið sér saman um inntak refsiákvæðanna. Í Þýskalandi er talið meðal annars af þingmönnum í flokki Merkel, að hún hafi slakað of mikið á varðandi refsiákvæðin gagnvart Frökkum til að fá Sarkozy til að styðja breytingu á sáttmálanum.

Þjóðir, sem nú eru innan ESB og standa utan við evru-svæðið, verða áfram utan þess, hvað sem ákveðið verður um refsiaðgerðir gagnvart evru-ríkjum. Þess vegna tekur David Cameron á málinu á þann veg, sem hann gerir. Danska ríkisstjórnin getur einnig andað rólega, nema hún vilji fara með Dani inn í evru-landið.

Þjóðir, sem komu inn í ESB, eftir að evran kom til sögunnar, hafa aðra stöðu gagnvart evrunni en Danir, Bretar, Svíar og Írar. Þær eru í raun allar á leið inn í evru-landið, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Tímasetning inngöngunnar ræðst af  stöðu fjármála þeirra og pólitísku mati.

Hér á landi er höfuðmarkmið ESB-aðildarsinna að við tökum upp evru eins fljótt og kostur er eftir aðild. Að því er evruna varðar eru engar undanþágur. Þess vegna er nauðsynlegt til upplýsinga um það, sem býður okkar eftir aðild að fylgjast náið með öllum hræringum innan ESB varðandi evruna og þau skilyrði, sem fylgja því að gera hana að gjaldmiðli sínum.