24.12.2009

Fallegasta jólasagan.

 

 

Kvöldsögur handa börnum, 13 bestu ævintýri allra tíma, valin og þýdd af Gunnari Dal, er að finna í lítilli bók, sem bókafélagið Ugla sendi frá sér fyrir jólin. Þetta er önnur útgáfa bókarinnar en hins fyrsta birtist árið 2005 hjá Lafleur útgáfunni.

Í bókinni er að finna þessi ævintýri: Litla stúlkan með eldspýturnar eftir H. C. Andersen; Nýju fötin keisarans eftir H. C. Andersen; Lampi Alladins, úr Þúsund og einni nótt; Ljóti andarunginn eftir H. C. Andersen; Gullepli Erísar, grísk goðasaga, Villiendurnar tólf eftir P. Chr. Asbjörnsen; Þyrnirós, Grimms bræður; Mjallhvít og dvergarnir sjö, Grims bræður; Næturgalinn eftir H. C. Andersen; Rauðhetta, Grimms bræður; Öskubuska, rússneskt ævintýri; Risinn eigingjarni, Oscar Wilde; Litla hafmeyjan eftir H. C. Andersen.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart, að fimm af 13 bestu ævintýrunum að mati Gunnars séu eftir H. C. Andersen.

Í sumarlok átti ég þess kost að skoða safnið um H. C. Andersen í fæðingarbæ hans Odense. Er það einstaklega vel úr garði gert og enginn, sem kynnir sér efni þess, fer þaðan ósnortinn af erfiðri ævi þessa mikla sagnameistara. 

Litla stúlkan með eldspýturnar er fallegasta jólasagan fyrir utan jólaguðspjallið hjá Lúkasi. Öll börn hafa gott af að kynnast boðskap hennar og ekki síður hinir fullorðnu.

Gleðileg jól!