3.12.2007

Ríkisfjölmiðlar um fangaflug

Tilefni þess, að ég birti þessa hráu útskrift frá Fjölmiðlavaktinni, er, að Guðmundur Andri Thorsson, álitsgjafi Fréttablaðsins, kemst að þeirri niðurstöðu í blaðinu 3. desember, að orð mín við ríkisfjölmiðlana vegna þessa máls sýni, að ég sé stjórnarandstæðingur! Ég sé hinn seki í þessu fangamáli! Tveir embættismenn staðfesta, að orð mín um, að leitað hafi verið í flugvélinni, sem var ranglega sakfelld af sjónvarpinu 29. nóv., eru rétt - þar var leitað eins og venjulega, þegar vélar koma til landsins frá ekki-Schengen-ríki.

Að túlka orð mín eða lýsingar á hlutverki ráðuneyta við komu flugvéla til landsins á þann veg, að ég sé með þeim að ráðast á utanríkisráðherra er fráleitt. Hinn 7. nóvember kynnti utanríkisráðuneytið fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins greinargerð ráðuneytisins um svonefnd fangaflug og þar kom fram, að ekki lægi neitt fyrir um ferðir slíkra flugvéla á Íslandi.

Við fréttamann sjónvarps ríkisins sagði ég í tölvupósti hinn 1. des. að í þessu máli væri enginn misskilningur milli utanríkisráherra og mín. Hið skrýtna í málinu væri fréttaflutningur sjónvarpsins. Ég tel, að réttmæti þeirrra orða minna sannist fyrir þeim, sem lesa textana hér fyrir neðan.

Sjónvarp 29. nóv. – kvöldfréttir.

 

Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður talar:

 

Þótt íslenskir ráðamenn vilji að leitað verði í flugvélum sem tengjast fangaflutningum CIA, virðist það ekki valda hugarangri þeim sem skipuleggja flugið. Ein slík vél með tveggja manna áhöfn millilenti á Reykjarvíkurflugvelli í gærkvöld.

Samkvæmt rannsókn á vegum utanríkisráðuneytisins, hafa flugvélar sem tengjast ólöglegu
fangaflugi millilent yfir 200 sinnum á Íslandi. Síðan þessi skýrsla kom út hefur millilendingunum í það minnsta fjölgað um eina, því þessi vél fyrir aftan mig, N-5025 sat meðal íslensku forstjóravélanna á Reykjavíkurflugvelli í nótt. Fyrir viku sagði utanríkisráðherra við umræður á Alþingi: "Utanríkisráðuneytið hefur þegar tekið frumkvæði að því að þetta mál verði skoðað af hlutaðeigandi ráðuneytum og farið inn í þær vélar sem bera þessi flugnúmer þegar þær lenda hér. Við munum fylgjast betur með þessu í framtíðinni og reyna að sjá til þess að við vitum hvaða fólk eða hvaða birgðir eru um borð í þessum einkavélum sem koma hingað til lendingar. Það er alveg sjálfsagt almennt öryggisatriði að mínu viti að við höfum skrár yfir það eins og í farþegafluginu." Þessi vél er ekki á lista utanríkisráðuneytisins, enda var hún skráð undir þessu númeri fyrir um ári. Síðan hefur hún sést á sömu flugvöllum og samskonar vélar sem tengjast fangafluginu. Hún vakti meðal annars athygli á flugvellinum í Liverpool fyrr á þessu ári, en þá var starfsfólki flugvallarins haldið frá vélinni og einkaverðir vöktuðu hana. Síðast þegar myndir náðust af vél sem tengist ólöglegu fangaflugi CIA, var það einmitt vél af þessari gerð. Það var í nóvember 2005, á sama stað. Reykjavíkurflugvelli. Þessi vél, N-5025 er skráð í eigu Atlanta Air Capital Leasing. Félag með svipað nafn, Atlanta Air Services Leasing, er skráð á sama stað í Bandaríkjunum. Það fyrirtæki á Hercules-fraktvél sem merkt er þriðja fyrirtækinu, Prescott Services. Samkvæmt skýrslu Giovanni Fava, þingmanns á Evrópuþinginu, er Prescott eitt skúffufyrirtækja CIA, gervifyrirtæki sem notað er til að fela fangaflug. Vélin, sem var á Reykjavíkurflugvelli í nótt, er einnig merkt Prescott. Fyrirætlanir utanríkisráðherra, um að fylgjast með vélum af þessu tagi, virðast ekki hræða þá sem skipuleggja ferðir vélanna. Þessi var fyrir allra augum. Hún hafði þó ekki mjög langa viðdvöl, lenti á Reykjavíkurflugvelli um kl. hálf sex í gærkvöldi á leið frá Liverpool og hélt áleiðis til Grænlands rúmlega átta í morgun. Utanríkisráðherra er staddur erlendis og því náðist ekki í hana í dag.

 

Sjónvarp 29. nóv. – 22-fréttir

 

Það er ekki líðandi að flugvélar sem tengjast fangaflugi CIA stoppi hér á landi eins og gerðist í nótt án þess að leitað sé í þeim, segir varaformaður utanríkismálanefndar. Hann ætlar að taka málið upp á þingi.

Þessi flugvél sem grunur er á að tengist ólöglegu
fangaflugi CIA var á Reykjavíkurflugvelli í nótt. Bent var á það í 7-fréttum að utanríkisráðherra hefur boðað hert eftirlit með komum slíkra véla.

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar: Sú staðreyndavél sem að er grunsamleg og er ástæða til að að að líta á sem grunsamlega lendir hér og og það er ekki leitað í henni. Það er auðvitað ástæða til að taka það alvarlega.

En þrátt fyrir það hefur stefnu ekki enn verið hrint í framkvæmd og grunsamlegar vélar lenda hér enn.

Árni Páll Árnason: Það er að sjálfsögðu ekkert líðandi og ég held að þetta undirstriki mikilvægi þess að við horfum ekki í baksýnisspegilinn stöðugt heldur horfum fram á við og og fi finnum leiðirnar og vinnum þá grunnvinnu sem þarf til þess að það sé með skipulögðum hætti hægt að taka á svona flugi og að það sé algjörlega öruggt að við leitum af okkur allan grun þegar um svona vélar er að ræða.

Varaformaður utanríkismálanefndar, flokksbróðir utanríkisráðherra, ætlar að taka málið upp á vettvangi þingsins.

Árni Páll Árnason: Ég mun taka þetta mál upp, það, og kalla eftir eftir skýringum á því. Það er náttúrlega bara liggur í hlutarins eðli. Við höfum sagt það að við ætlum að að ganga úr skugga um það að hér verði ekki búnar þær aðstæður að hér sé hægt að flytja fólk um íslenska lofthelgi og nota Ísland til millilendinga með fólk sem á á hættu að vera látið sæta pyntingum eða ómannúðlegri meðferð. Það er algjört grundvallaratriði og við munum standa við það.

 

Hljóvarp 30. nóv. - hádegisfréttir

 

Ítarleg leit fór fram í flugvél sem lenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrrakvöld. Utanríkisráðherra segir ekkert benda til þess að um fangaflug hafi verið að ræða.

Í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi kom fram að flugvél með númerið N-5021 hafi lent á Reykjavíkurflugvelli í fyrrakvöld á leið sinni til Grænlands. Vélin er sömu gerðar og vélar sem hafa tengst
fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir tollverði og lögreglu hafa skoðað vélina og vegabréf þeirra sem um borð voru, ekki hafi verið um fangaflug að ræða.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra: Það var farið um borð í þessa vél, það fóru tveir tollverðið og einn lögreglumaður um borð í vélina og skoðuðu og komust að því að það var ekkert athugavert við vélina eða hennar ferðir og þar af leiðandi ekki ástæða til að aðhafast neitt. Þannig að í sjálfu sér er þetta bara vél sem er hér í förum og virðist ekki vera neitt grunsamlegt við hana í sjálfu sér.

Guðrún Frímannsdóttir: Er byrjað að fylgjast með flugvélum sem hingað koma og kunna að vera á vegum bandarísku leyniþjónustunnar?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Ja við leggjum áherslu á það og það var í sjálfu sér bara tollurinn sem að var vel á vaktinni og taldi að þessari vél svipaði til slíkra véla sem að notaðar eru til fangaflutninga og þess vegna var farið um borð. Þannig að þetta eftirlit sem um var talað það virkar ágætlega. Við getum hins vegar aldrei komið í veg fyrir að svona vélar komi til landsins, enda kannski ekki í sjálfu sér ástæða til.

 

 

 

Hljóðvarpið 30. nóv. - hádegisfréttir

 

 

Dómsmálaráðherra segir enga ástæðu til að breyta reglum varðandi eftirlit með svonefndum fangaflugvélum. Ástæða þess að leitað hafi verið í vél sem millilenti hér í fyrradag hafi ekki verið grunsemdir um fangaflug.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að lögreglumaður og tveir tollverðir hafi leitað rækilega í vél sem millilenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrradag á leið frá Liverpool til Grænlands. Ekkert athugavert hafi komið fram og allir um borð hafi verið bandarískir ríkisborgarar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að hún vilji að leitað verði í vélum sem taldar eru geta tengst
fangaflugi. Ingibjörg Sólrún sagði í útvarpsfréttum í morgun að leitin í fyrradag sýni að eftirlit með vélunum virki ágætlega. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að málið staðfesti að íslensk stjórnvöld sýni sérstaka árvekni við leit í flugvélum sem bera tiltekin þekkt flugnúmer eða eru á annan hátt sambærileg þeim vélum sem taldar eru hafa flutt fanga þannig að það stríði gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Þá segir að haldið verði áfram því samráði sem utanríkisráðuneytið hefur þegar hafið við dómsmála- og samgönguráðuneytið. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að leitin í umræddri vél hafi verið í samræmi við það að hún væri utan Schengen-svæðisins.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Allar þessar aðgerðir eru hefðbundnar. Í þessari vél sem menn eru að tala um núna fór fram leit, ef að menn kalla það svo, það var tollverðir og lögregla fóru á staðinn og gerði það sem þessir menn gera þegar þeir taka á móti vélum sem koma frá því svæði þar sem þessi vél var og það er allt hefðbundið.

Kristín Sigurðardóttir: Þetta snýst um Schengen-svæðið semsagt?

Björn Bjarnason: Ja þessi vél var að koma frá Englandi og hún var utan Schengen-svæðisins og kemur inn á Schengen-svæðið hér og þá höfum við ákveðnar skyldur, eftirlitsskyldur og þær voru framkvæmdar.

Kristín: Þannig að það var ekki verið að leita í henni vegna þess að það væri grunur um að hún gæti verið í
fangaflugi?

Björn Bjarnason: Ekki svo ég viti. Hver veit það? Er einhver sem hefur hugmynd um það?

Kristín: En þetta, hefur verið einhvers konar samkomulag, samræður milli utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um þessar svonefndu
fangaflugsvélar?

Björn Bjarnason: Nei það hefur ekki verið.

Kristín: Engar umræður eða viðræður?

Björn Bjarnason: Engar viðræður nei.

Kristín: En hvað finnst þér um þessi orð utanríkisráðherra, hún vilji að verði leitað í vélum sem eru í óreglubundnu flugi eða alla vegana vélum sem gætu verið í þessu svonefnda
fangaflugi, ertu sammála henni?

Björn Bjarnason: Það gilda ákveðnar reglur sem farið er eftir gagnvart öllum flugvélum, jafnt þessum sem öðrum.

Kristín: Og engin ástæða til þess að útvíkka eitthvað eftirlit?

Björn Bjarnason: Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að það sé nauðsynlegt.

Kristín: Þannig að þér finnst ekki ástæða til þess að breyta þeim?

Björn Bjarnason: Reglunum? Nei.

 

Hljóðvarpið 30. nóv. - kvöldfréttir

 

Hvorki tollgæslan né lögregla höfuðborgarsvæðisins hafa fengið formlega beiðni frá stjórnvöldum um að breyta eftirliti með vélum í óreglubundnu flugi til að koma í veg fyrir hugsanlega fangaflutninga bandarísku leyniþjónustunnar.

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að leit í vél sem millilenti á Reykjavíkurflugvelli í fyrradag staðfesta íslensk stjórnvöld sýni sérstaka árvekni við leit í flugvélum sem bera tiltekin þekkt flugnúmer eða eru á annað hátt sambærileg þeim vélum sem taldar eru hafa flutt fanga þannig að það stríði gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að hún vilji að leitað verði í vélum sem taldar eru geta tengst
fangaflugi. Hún sagði í útvarpsfréttum í morgun að leitin í fyrradag sýni að eftirlit með vélunum virki ágætlega.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra: Já, við leggjum áherslu á það og það var í sjálfu sér bara tollurinn sem að var vel á vaktinni og taldi að að þessari vél svipaði til slíkra véla sem að notaðar eru til fangaflutninga og þess vegna var farið um borð. Þannig að þetta eftirlit sem um var talað það virkar ágætlega.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að haldið verði áfram því samráði við dómsmála- og samgönguráðuneytið sem utanríkisráðuneytið hefur þegar hafið. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir hins vegar að engar viðræður séu um
fangaflug milli dómsmála- og utanríkisráðuneytis. Björn segir að ástæða leitarinnar í vélinni sem millilenti hér í fyrradag hafi ekki verið grunsemdir um fangaflug heldur sé um að ræða hefðbundna leit í vélum sem koma frá svæðum utan Schengen. Undir þetta tekur Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Hann segir reglur um eftirlit með flugvélum ekkert hafa breyst þrátt fyrir umræðu um fangaflug. Þegar vél komi inn á Schengen svæðið fari lögreglumaður um borð og framkvæmi vegabréfaskoðun.

Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins: Það er býsna ítarleg afgreiðsla, býsna ítarleg skoðun sem fer fram, og þetta það sem að gerðist í fyrrakvöld er bara eins og það vinnulag sem við haft hefur verið í allmörg misseri.

Kristín Sigurðardóttir: Hefur komið einhver beiðni frá stjórnvöldum, einhverju ráðuneytanna, um að þið aukið eftirlitið eða breytið því, eða?

Jón H.B. Snorrason: Nei, enda gerir nú ekki ráð fyrir að þetta eftirlit gæti verið mikið meira en það er. Þarna fer fram mjög ítarleg athugun.


Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs hjá Tollstjóranum í Reykjavík, segir að auk lögreglumanns hafi tveir tollverðir farið um borð í vélina í fyrrakvöld, líkt og hefðbundið eftirlit gerir ráð fyrir.

Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs hjá Tollstjóranum í Reykjavík: Í þessu tilviki var eingöngu um að ræða fimm áhafnameðlimi, það var sem sagt, það voru engir farþegar og engin fragt. Nú, aftast í vélinni þá var svona einhvers konar lokað rými eða afmarkað rými sem var lokað með tjaldi og annar tollvörðurinn sem sagt óskaði eftir því að það rými yrði opnað og og hann lýsti inn í það með vasaljósi og sá sem sagt ekkert, ekkert athugavert.

Kristín: Þannig að það var ekki þannig að yfirvöld, einhver, hefðu samband við ykkur og bæði ykkur sérstaklega um að leita í þessari vél?

Karen Bragadóttir: Nei, það var ekki þannig.


Karen segir engin formleg tilmæli hafa borist frá stjórnvöldum um að herða eftirlit með tilliti til
fangaflugs.

Karen Bragadóttir: Enda hafa engin formleg tilmæli komið til okkar um þessi efni en ég get sagt frá því að tollstjórinn í Reykjavík og ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu þau ha, þeir hafa rætt þessi mál á ákveðnum tímapunkti. Það mátti kannski segja að bæði þær samræður og svona almennar umræður í þjóðfélaginu um þessi mál hafi leitt til þess að við höfum hert eftirlit með þessum vélum.

 

Sjónvarpið 30. nóv.

 

Tollverðir skoðuðu, eins og venja er, meintu fangaflugvélina sem átti næturdvöl á Reykjavíkurflugvelli í fyrrinótt en fundu ekkert grunsamlegt. Engin formleg fyrirmæli hafa borist tollinum um breytt vinnulag eða aukið eftirlit með vélum sem taldar eru tengjast ólöglegu fangaflugi.

Í fréttum sjónvarpsins í gærkvöldi voru sýndar myndir af þessari vél, af gerðinni Casa-235, merkt fyrirtækinu Prescott Services. Samkvæmt rannsóknum Evrópuþingsins og fleiri er það gervifyrirtæki í eigu CIA, notað til að fela ólöglegt
fangaflug. Í fréttinni kom fram að ekki hefði verið gert sérstök leit í þessari vél. Þessu mótmælir utanríkisráðuneytið og bendir á að lögreglumaður og tollverðir hafi skoðað vélina og vegabréf þeirra sem um borð voru. Ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Samkvæmt heimildum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem ég hef rætt þetta mál við að þá er það þannig að þegar koma vélar frá landi sem er utan Schengen-svæðisins að þá er sendur lögreglumaður og tollverðir fara og skoða vélina. Lögreglumaðurinn skoðar vegarbréfið, tollverðirnir skoða það sem þeir eiga að skoða og þetta var gert þegar þessi vél kom eins og jafnan þegar vélar koma frá löndum utan Schengen-svæðisins. England er ekki í Schengen og þess vegna eru þessar ráðstafanir gerðar þegar slíkar vélar koma. Þetta var hefðbundin skoðun og og og framkvæmd alveg eftir þeim reglum sem gilda, þannig að hann telur og og og við sem höfum farið yfir þetta í dómsmálaráðuneytinu núna í morgun teljum að þetta sé alveg innan þeirra reglna og í samræmi við þær reglur sem hafa gilt og munu gilda.

Bogi Ágústsson: Þannig að það var enginn sérstakur viðbúnaður?

Björn Bjarnason: Það var enginn sérstakur viðbúnaður. Þetta var algjörlega eftir bókinni miðað við það hvaðan vélin var að koma.


Utanríkisráðherra sagði síðdegis í spjalli við fréttamenn að lengra gætu yfirvöld ekki gengið samkvæmt íslenska lagarammanum. Vinnuhópur utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta um
fangaflugið fundaði 7. nóvember síðastliðinn, sagði utanríkisráðherra.

Ingólfur Bjarni Sigfússon: Hefur Tollstjórinn fengið einhverja beiðni, formlega eða óformlega, um að breyta vinnulagi eða fylgjast sérstaklega með þessum flugvélum?

Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs hjá Tollstjóranum í Reykjavík: Nei, það hefur sem sagt engin, það hafa engin formleg tilmæli borist, en ég get svo sem nefnt það að Tollstjórinn í Reykjavík og ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu hafa talað saman á einhverjum tímapunkti þegar þessi umræða fór í gang. Þá fengum við svona óformlegar fyrirspurnir um það hvernig þessu eftirliti væri háttað hjá okkur.

Ingólfur: En það hefur ekkert verið gert og það hefur engu vinnulagi verið breytt. Menn eru ekki að hafa sérstaklega auga með þessum ferðum?

Karen Bragadóttir: Og þá má samt kannski segja það að þessar samræður sem ég var að vísa í, sem og náttúrlega þessi almenna umræða í þjóðfélaginu, hafi leitt til þess að eftirlitið hafi með einhverjum hætti verið hert.


En nokkrum spurningum er enn ósvarað um ferðir vélarinnar á fimmtudagsmorgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru aðeins tveir um borð, flugmennirnir tveir. En Ingibjörg Sólrún segir fimm hafa verið um borð. Tveir menn eru í áhöfn véla af þessu tagi svo því er ósvarað hverjir hinir þrír voru.

 

Sjónvarpið 1. des.

 

Utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra greinir á um hvernig leit í flugvélum sem millilenda hér er háttað og hvort þau hafi haft samráð vegna fangaflugs.

Utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra tala hvor í sína áttina þegar spurt er hvernig eftirliti hafi verið háttað með meintri
fangaflugvél sem átti næturdvöl á Reykjavíkurflugvelli aðfaranótt fimmtudags. Við leit fannst ekkert grunsamlegt. Utanríkisráðherra sagði í útvarpsfréttum í gær að hún vildi að leitað væri í vélum sem taldar eru geta tengst fangaflugi og leitin nú sýni að eftirlitið virki. Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir svo að samráðið sem þegar sé hafið við Dómsmálaráðuneyti og Samgönguráðuneyti verði haldið áfram eftir því sem efni reynast til. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, upplýsti hins vegar í fréttum í gær að um venjubundið eftirlit hafi verið að ræða þar sem vélin kom frá landi utan Schengen-svæðisins og að ekki hafi verið neitt samráð milli Utanríkisráðuneytis og Dómsmálaráðuneytis vegna fangaflugs. Á heimasíðu sinni bendir hann á að Utanríkisráðuneytið eigi raunar ekki aðild að landamæravörslu heldur embættismenn á vegum Dóms- og kirkjumálaráðuneytis og Fjármálaráðuneytis. Ráðherrunum ber því ekki saman í grundvallaratriðum. Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, vegna málsins í dag. Í svari við fyrirspurn fréttastofu um hvort misskilnings sé að ræða milli ráðuneyta svarar dómsmálaráðherra; Ekki er neinn misskilningur í þessu máli. Embættismenn funduðu um málið 7. nóvember ef ég veit rétt en eftirlit með komu flugvéla og skipa er ekki í höndum utanríkisráðuneytisins heldur hjá lögregla og tolli. Hið skrýtna í málinu eru frásagnir ykkar hjá Sjónvarpinu.

 

3. desember birtist á RUV.IS:

Ráðuneyti ræða fangaflugsmál

Utanríkisráðuneytið hefur boðað til nýs fundar með fulltrúum frá dómsmála-, samgöngu- og fjármálaráðuneyti til að ræða aðgerðir vegna fangaflugs. Til fundarins var boðað eftir fjölmiðlaumfjöllun á föstudag.

Fulltrúar ráðuneytanna fjögurra hittust á fundi 7. nóvember þar sem kynnt var skýrsla utanríkisráðuneytisins um millilendingar flugvéla sem tengst gætu ólögmætu fangaflugi bandarísku leyniþjónustunnar. Niðurstaða skýrslunnar var sú að engar vísbendingar væru um að hér hafi verið lent með fanga sem flytja átti til pyntinga.

Einnig var markmiðið með fundarboðinu að ræða með hvaða hætti hægt væri að efla eftirlit með óreglubundnu flugi. Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að á fundinum hafi verið rætt um að ráðuneytin myndu vinna saman að ákveðnum markmiðum í því efni.

Fréttastofa Útvarpsins innti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra eftir því hvort fleiri samráðsfundir eða viðræður yrði milli dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um fangaflug. Björn svarar því til, í tölvupósti, að þessi mál verði vafalaust rædd áfram eins og áður á vettvangi stjórnarráðsins en dómsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og samgönguráðuneyti komi að stjórnsýslu vegna komu flugvéla til landsins. Utanríkisráðuneytið hafi utanríkispólitíska sýn á málið og leggi mat á það á grundvelli þeirrar þekkingar.

Þá segir Björn að skýrar reglur gildi um eftirlit með flugvélum sem hingað komi. Ekki hafi í dómsmálaráðuneytinu verið rætt um að þeim þurfi að breyta. Grétar Már segir aðkomu utanríkisráðuneytisins að málinu þá að það sjái um samskipti við önnur ríki og að alþjóðlegar skuldbindingar séu uppfylltar. Ávallt hafi verið rætt um að fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar hafi verið ólögmætt og því sé ekki óeðlilegt að utanríkisráðuneytið fjalli um málið.